07. júlí 2023

18 milljónir skammta af fyrsta malaríubóluefninu til tólf Afríkuríkja á næstu árum

Malaría ein helsta dánarorsök íbúa heimsálfunnar – Á nær hverri mínútu deyr barn undir fimm ára aldri vegna malaríu í Afríku

Bóluefnið þykir mikið tímamótaskref í baráttunni gegn dauðsföllum vegna malaríu.

Tólf ríki víðs vegar um Afríku hafa fengið úthlutað alls átján milljón skömmtum af fyrsta bóluefninu gegn malaríu á næstu tveimur árum. Er þetta talið mikilvægt skref í baráttunni gegn einni helstu dánarorsök íbúa heimsálfunnar.

Ákvörðun um úthlutun bóluefnanna var tekin í samráði við sérfræðinga í Afríku, UNICEF, WHO og Gavi og fara fyrstu skammtarnir til ríkja þar sem þörfin er mest þar sem framboð er sem stendur takmarkað.

Frá árinu 2019 hafa 1,7 milljónir barna í Gana, Kenía og Malaví fengið bóluefnið, sem ber heitið RTS,S/AS01, og hefur reynst örugg og góð leið til að fyrirbyggja malaríu og rannsóknir sýna umtalsverðan samdrátt í alvarlegum malaríutilfellum og barnadauða í ríkjunum. Að minnsta kosti 28 Afríkuríki hafa lýst yfir áhuga að fá bóluefnið.

Auk þessara þriggja ríkja munu Benín, Búrkína Fasó, Búrúndí, Kamerún, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Líbería, Níger, Síerra Leóne og Úganda nú geta sett malaríubóluefnið í grunnbólusetningarverkefni sín í fyrsta skipti Bóluefnabandalagið Gavi tryggir það að útvega skammtana í gegnum UNICEF og er búist við að fyrstu skammtarnir berist á síðasta ársfjórðungi 2023 og að bólusetningar hefjist í ársbyrjun 2024.

„Þetta bóluefni getur reynst mjög þýðingarmikið í baráttunni gegn malaríu og með notkun þess, samhliða breiðari forvarnaraðgerðum, getur komið í veg fyrir tugþúsunda dauðsfalla á hverju ári,“ segir Thabani Maphosa, yfirmaður hjá bóluefnabandalaginu Gavi. „Á meðan við vinnum að því að auka framleiðslu með framleiðendum verðum við að tryggja að þeir skammtar sem við þó höfum nýtist sem allra best. Það þýðir að nýta lærdóminn sem dreginn var af tilraunaverkefninu [í Gana Kenía og Malaví] í þeim ríkjum sem nú bætast við.“ 

Ein helsta dánarorsökin í Afríku

Malaría er ein helsta dánarorsök íbúa Afríku og dregur nærri hálfa milljón barna undir fimm ára aldri til dauða árlega. 95% dauðsfalla í heiminum vegna malaríu má rekja til heimsálfunnar. 

„Á næstum hverri mínútu deyr barn undir fimm ára aldri vegna malaríu,“ segir Ephrem T Lemango, einn stjórnenda bólusetningarverkefna UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Í langan tíma hefur mátt koma í veg fyrir dauðsföll vegna malaríu en þetta bóluefni gefur börnum, sérstaklega í Afríku, betri möguleika á að lifa af.“ 

 Kate O‘Brien, yfirmaður bólusetninga, bóluefna og lífefnasamsetningar hjá WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, segir malaríubóluefnið tímamótaskref í að bæta heilsu og velferð barna og fjölskyldur og samfélög vilji skiljanlega tryggja sér aðgang að því.

„Fyrir fyrstu úthlutun malaríubóluefnisins forgangsröðum við börnum í mestri hættu að láta lífið vegna malaríu,“ segir O‘Brien. Unnið verði þrotlaust að því að auka framboð bóluefnisins til að tryggja öllum börnum aðgengi. 

Áætlað er að eftirspurnin eftir malaríubólefni sé um 40-60 milljónir skammta fyrir árið 2026 og muni vaxa um 80-100 milljónir skammta árlega fyrir árið 2030.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn