24. október 2017

Aldrei færri tilfelli mænusóttar en í ár

Á þessu ári hafa komið upp 12 tilvik (7 í Afganistan og 5 í Pakistan) sem er lægsti fjöldi í sögunni.

Alþjóðlegur dagur baráttunnar gegn mænusótt er í dag og því er gleðilegt frá því að segja að aldrei hafa jafn fá tilvik af sjúkdómnum komið upp eins og árið 2017. Á þessu ári hafa komið upp 12 tilvik (7 í Afganistan og 5 í Pakistan) sem er lægsti fjöldi í sögunni.

Mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki, er smitsjúkdómur af völdum veiru sem lagst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Engin lyf eru til gegn mænusótt og eina leiðin til að koma í veg fyrir að veikin valdi lömun er bólusetning.

UNICEF og samstarfsaðilar hafa unnið ötullega að því að útrýma mænusótt í heiminum með því að bólusetja börn gegn sjúkdómnum, og hafa meðal annars notið mikils stuðnings almennings hér á landi við þá baráttu.

Gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni gegn þessum skelfilega sjúkdómi. Fyrir 25 árum var veikin landlæg í 125 ríkjum – í dag eru ríkin einungis þrjú. Það eru Afganistan, Pakistan og Nígería, en ekkert tilfelli hefur komið upp í Nígeríu á þessu ári.

Á meðan við gleðjumst yfir þeim mikla árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn mænusótt á heimsvísu þá hættum við ekki fyrr en búið er að útrýma veikinni endanlega úr heiminum. Á meðan mænusótt er enn landlæg eru börn í hættu. Það er því gríðarlega mikilvægt að heimurinn sé skuldbundinn í að útrýma sjúkdómnum fyrir fullt og allt, við höfum aldrei verið jafn nálægt því og nú!

Vilt þú hjálpa okkur að klára málið?

Hægt er að kaupa bóluefni gegn mænusótt sem Sanna gjöf fyrir vini eða ættingja hér. #klárummálið #EndPolio

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn