Menu

Alþjóðlegt neyðarákall UNICEF vegna barna Rohingja

■ Allt að 12 þúsund börn Rohingja flýja í hverri viku ■ 21% ungra barna Rohingja þjást af vannæringu ■ UNICEF kallar eftir tafarlausum aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að binda enda á ofbeldið

 

20. nóvember 2017
Í dag sendir UNICEF frá sér alþjóðlegt neyðarákall vegna gríðarlegrar neyðar barna Rohingja sem hafa þurft að flýja ofbeldisöldu í Mjanmar yfir til Bangladess síðustu vikur. Síðan 25. ágúst hafa meira en 528.000 Rohingjar flúið hræðilegt ofbeldi, þar af 58% börn. Um 100.000 barna eru undir fimm ára. Mörg þessara barna hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og eru ein á flóttanum. Að minnsta kosti 21% barna undir fimm ára þjást af vannæringu og hætta er á að kólerufaraldur og aðrir smitsjúkdómar geti brotist út.

Neyðin er gífurleg og UNICEF varar við því að það sé ekki einungis verið að ræna þessi börn barnæsku sinni heldur einnig  framtíð sinni. „Mörg barna Rohingja á flótta í Bangladess hafa orðið vitni að grimmdarverkum í Mjanmar sem ekkert barn á nokkurn tíman að þurfa að sjá, og hafa upplifað gífurlegan missi,“ segir Anthony Lake, framkvæmdastjóri UNICEF.  „Þau þurfa mat, hreint vatn, hreinlætisaðstöðu og bólusetningar til að vernda þau gegn sjúkdómum sem geta brotist út þegar neyðarástand ríkir. En þau þurfa einnig hjálp til að vinna sig úr þeim áföllum sem þau hafa þurft að þola. Þau þurfa menntun. Þau þurfa sálræna aðstoð. Þau þurfa von.“

Binda þarf endi á ofbeldið

Með neyðarákallinu sem UNICEF sendir í dag fylgir ný skýrsla, Outcast and Desperate: Rohingya refugee children face a perilous future. Þar kemur fram að sá fjöldi Rohingja sem hefur flúið síðustu vikur bætist í hóp hundruð þúsunda annarra sem höfðu flúið ofbeldið í Rakhine héraði áður. Þau hafast við í yfirfullum bráðabirgða flóttamannabúðum þar sem mikill skortur er á helstu nauðsynjum. Á hverjum degi bætast við um 1.200 – 1.800 börn sem hafa flúið yfir landamærin og bera með sér merki um gífurleg áföll og ofbeldi. Í skýrslunni kemur einnig fram að í óreiðunni sem ríkir eru börn mjög viðkvæm fyrir misnotkun og mansali.

Með ákallinu kallar UNICEF eftir tafarlausum aðgerðum alþjóðasamfélagsins á fjórum megin sviðum:

  • Aukinn alþjóðlegan fjárstuðning til þess að hægt sé að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð sem nær til allra barna á svæðinu;
  • Vernda börn Rohingja og fjölskyldur þeirra og veita tafarlaust aðgengi hjálparstofnana að öllum þeim börnum sem hafa orðið fórnarlömb ofbeldis í Rakhine héraði;
  • Styðja það að þeir Rohingjar sem vilja snúa heim til Mjanmar geti gert það á öruggan og virðingaverðan hátt;
  • Vinna að langtíma lausn og binda endi á ofbeldið.

Stórauka þarf neyðaraðgerðir

UNICEF krefst þess að grimmdarverkum gegn óbreyttum borgurum í Rakhine héraði linni tafarlaust og að hjálparstofnanir fái óhindraðan aðgang að öllum þeim börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi þar. Enn sem komið er hefur UNICEF ekki fengið aðgengi að börnum Rohingja í norðurhluta Rakhine héraðs.

Í flóttamannabúðunum sem byggst hafa upp í Bangladess er bætt vatns- og hreinlætisaðstaða forgangsatriði en starfsfólk UNICEF á svæðinu hefur áhyggjur af úbreiðslu sjúkdóma sem dreifast með óhreinu vatni, þ.á.m niðurgangspestir sem geta verið lífshættulegar fyrir vannærð börn. Einnig er lögð áhersla á að veita börnum menntun og sálræna aðstoð í öruggum barnvænum svæðum og vinna með samstarfsaðilum í að takast á við kynbundið ofbeldi.

UNICEF hefur nú þegar náð að dreifa mikið af hjálpargögnum og veita börnum og fjölskyldum þeirra þeirra í búðunum lífnauðsynlega hjálp. Má þar nefna:

  • 36.083 börn hafa verið skimuð fyrir vannæringu og um 1.000 börn hafa fengið meðhöndlun við alvarlegri bráðavannæringu;
  • Yfir 100.000 mannst hafa aðgengi að hreinu vatni;
  • 135.519 börn hafa verið bólusett gegn mislingum og rauðum hundum;
  • Umfangsmikið bólusetningarátak gegn kóleru sem mun ná til 900.000 Rohingja er hafið og þegar hafa 679,678 manns verið bólusett;
  • 26.924 börn fá sálræna aðstoð og stuðning í öruggum barnvænum svæðum, af þeim eru 822 fylgdarlaus börn sem hafa verið skráð;  
  • Búið er að koma á fót 228 skólasvæðum fyrir börn Rohingja þar sem þau geta leikið sér, lært og eignast vini á öruggum stað.

“Þörfin er yfirþyrmandi og umfangið mikið. Stórauka þarf neyðaraðgerðir á svæðinu til að hægt sé að veita öllum þeim fjölda barna sem þurfa á að halda nauðsynlega hjálp”, segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn Rohingja er í fullum gangi og nú þegar hefur fjöldi fólks stutt söfnunina hér á landi. Framlög heimsforeldra hafa einnig runnið til neyðaraðgerða UNICEF fyrir börn á flótta frá Mjanmar. UNICEF biðlar til almennings að leggja sitt af mörkum til að hægt sé að hjálpa enn fleiri börnum í neyð

Hægt er að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið UNICEF í nr 1900 (1500 krónur), gefa með kreditkorti hér eða leggja inn á reikning 701-26-102050, kt 481203-2950.