Fimm skólar, ásamt frístundum þeirra og félagsmiðstöðvum, fengu á dögunum endurmat á viðurkenningum sínum sem Réttindaskóli og -frístund UNICEF við hátíðlegar athafnir.
Þetta voru Vesturbæjarskóli, Laugalækjarskóli, Flataskóli, Laugarnesskóli og Vatnsendaskóli sem eru vel að áfanganum enda sýnir hann að skuldbinding þeirra við Barnasáttmálann er orðinn hluti af menningu og daglegu starfi þeirra.
Það hefur verið mikið um dýrðir á viðurkenningarathöfnunum skólanna þar sem börnin komu sjálf að skipulagningu og rödd þeirra fékk að heyrast.
Vesturbæjarskóli og Skýjaborgir fengu sína fyrstu viðurkenningu árið 2019 og nú endurmat árið 2025. Réttindaráð sá alfarið um skipulag hátíðarhalda og Ungmennaráð UNICEF afhenti viðurkenninguna. Í Vesturbæjarskóla og Skýjaborgum er réttindamiðuð menning orðin hluti af „æðakerfi“ skóla- og frístundastarfsins ef svo má segja. Þar er meðvitað unnið að því og út frá því að innleiðingin Barnasáttmálans er hringrás sem þarf að viðhalda og endar í raun aldrei.
Laugarnesskóli, Laugasel og Dalheimar. Laugarnesskóli var fyrsti skólinn í Reykjavík og fyrsta réttindafrístundin í heiminum árið 2016 og fengu nú endurmat í þriðja sinn. Geri aðrir betur! Þessir frumkvöðlar í Réttindaskóla og – frístundarverkefni UNICEF buðu okkur til mikillar viðurkenningarveislu þar sem börnin stýrðu ekki aðeins samsöng heldur frumfluttu þau nýtt réttindalag sem hafði verið samið af starfsfólki skólans. Mikil og skemmtileg sönghefð er í Laugarnesskóla þar sem börnin koma saman í morgunsöng og syngja skólalagið sitt svo það fór vel á með að þau ættu sér réttindalag að auki.
Vatnsendaskóli, Stjörnuheimar og Dimma. Börnin fluttu ræðu um 12. grein Barnasáttmálans sem fjallar um virðingu fyrir skoðunum barna. Um 40 núverandi og fyrrverandi meðlimir réttindaráðs fengu viðurkenningu fyrir sitt framlag. Vatnsendaskóli hlaut sína fyrstu viðurkenningu sem Réttindaskóli og -frístund árið 2022 og voru því að fá sitt fyrsta endurmat nú. Á viðurkenningarathöfninni var boðið upp á tónlistaratriði og ís í eftirrétt í hádeginu.
Laugalækjaskóli og Laugó héldu hátíð á alþjóðadegi barna með fjölbreyttri dagskrá sem börnin skipulögðu sjálf. Réttindaráðið tilkynnti gleðifréttir: kökur í öllum kennslustofum, skreyttar greinum Barnasáttmálans!
Flataskóli og Krakkakot. Flataskóli fékk fyrst viðurkenningu árið 2017 og nú endurmat í þriðja sinn. Þau voru líka fyrst til að vinna skólareglur með börnum í réttindaráði og tengja þær við Barnasáttmálann. Börnin skipulögðu hátíðarhöld, héldu flotta ræðu og enduðu á „Just Dance“ þar sem börn, starfsfólk og foreldrar dönsuðu saman af mikilli innlifun.
Allt skiptir þetta máli
Réttindaskólar og -frístundir byggja á því að börn séu virkir þátttakendur í eigin umhverfi. Rödd þeirra hefur áhrif á ákvarðanir, þau upplifa virðingu og læra um réttindi sín í verki. Þetta er grunnur að lýðræðislegu og valdeflandi samfélagi.
UNICEF óskar öllum þessum frábæru samstarfsaðilum hjartanlega til hamingju og þakkar fyrir að halda áfram að byggja réttindamiðað samfélag fyrir börn – í skóla, frístund og daglegu lífi.





