02. desember 2025

Barnvæn sveitarfélög, betri sveitarfélög?

„Þetta ferli hefur verið mjög skemmtilegt og fræðandi og öllum hvatning sem að verkefninu hafa komið“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, ávarpar viðstadda á viðurkenningarathöfn Mosfellbæjar á dögunum.

Það er sagt að það þurfi heilt þorp til þess að ala upp barn. Í íslensku samhengi á þetta vel við, við þurfum heilt sveitarfélag til þess að tryggja að öll börn alist upp í umhverfi þar sem öllum réttindum þeirra er framfylgt. Börn sem alast upp í umhverfi þar sem réttindi þeirra eru virt, þar sem þau fá tækifæri til að læra um réttindi sín og geta iðkað réttindi sín eru líklegri til þess að virða réttindi annara og beita sér fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum. Þetta hljómar dásamlega, og flest getum við verið sammála um það að við viljum búa í sveitarfélagi sem tekur vel utan um börnin okkar og tryggir þeim þá vernd og umönnun sem þau þarfnast til að vaxa og dafna. Barnvæn sveitarfélög ganga hins vegar lengra. Þau vinna að því að innleiða lög um Barnasáttmálann í alla sína starfsemi og stefnumótun.

Aukin þátttaka og áhrif barna

Barnasáttmálinn byggir á þremur þemum: vernd, umönnun og þátttöku. Það er þriðja þemað: þátttaka, sem þykir róttækast, en réttur barna til þátttöku var fyrst formfestur með tilkomu Barnasáttmálans árið 1989. Rannsóknir sýna okkur að þau börn sem fá tækifæri til merkingabærrar og réttindamiðaðrar þátttöku eru líklegri en börn sem fá ekki slík tækifæri, til þess að halda áfram lýðræðislegri þátttöku sinni þegar þau eldast. Íslensk sveitarfélög hafa gripið þessa rótæku hugmynd og hlaupið með hana. Það er einmitt þar sem Barnvæn sveitarfélög skara fram úr. Þátttaka barna og áhrif þeirra á starfsemi sveitarfélaga er mun meiri hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hafið formlega innleiðingu á lögum um Barnasáttmálann með stuðningi UNICEF, en hjá þeim sveitarfélögum sem ekki hafa stigið það skref.

44% barna á Íslandi búa í Barnvænu sveitarfélagi

Barnvæn sveitarfélög er alþjóðlegt verkefni UNICEF sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga frá árinu 1996. Á Íslandi hófst innleiðing verkefnisins árið 2016 og síðan hefur þátttakendum fjölgað hægt og rólega og taka nú 23 sveitarfélög þátt í verkefninu. Mikil uppskera hefur orðið á síðastliðnu ári hjá þeim sveitarfélögum sem hafa lengi stefnt að því að hljóta viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög, en átta sveitarfélög hlutu slíka viðurkenningu á árinu. Það eru: Reykjanesbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Akranes, Hafnarfjörður, Hrunamannahreppur, Garðabær, Vopnafjarðarhreppur og Mosfellsbær. Fyrir höfðu Akureyri (2020) og Kópavogur (2021) hlotið viðurkenningu. Á Íslandi eru því 10 viðurkennd Barnvæn sveitarfélög og í þeim búa samanlagt 44% barna á Ísland.

Sveitarfélög veita íbúum sínum mikilvæga nærþjónustu og Barnvæn sveitarfélög rýna þessa þjónustu með börnum, út frá réttindum barna. „Að verða Barnvænt sveitarfélag styrkir ákvarðanatöku og þjónustu með því að setja þarfir og réttindi barna í forgang, skapa meiri þátttöku barna og bæta líðan þeirra. Það eykur jafnframt samvinnu, traust og jákvæða ímynd sveitarfélagsins sem betri staðar til búsetu til fjölskyldur,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, aðspurð um það hvers vegna sveitarfélög ættu að gerast Barnvæn sveitarfélög og bætir við: „Það hefur skipt okkur hér í Hrunamannahreppi mjög miklu máli að eiga gott samstarf við UNICEF varðandi innleiðingu Barnvæns sveitarfélags. Þar höfum við m.a. fengið stuðning frá starfsfólki, gátlista, mælitæki og reglubundið mat í öllu ferlinu sem hefur gert okkur sem litlu sveitarfélagi kleift að ná þessum árangri.”

Mikilvægt að raddir barna heyrist

Til svara spurningunni sem sett er fram í titli greinarinnar: Eru Barnvæn sveitarfélög betri sveitarfélög? Barnvæn sveitarfélög taka upplýstari ákvarðanir en þau sveitarfélög sem vinna ekki markvisst með börnum að ákvörðunartöku. „Þetta ferli allt hefur gert okkur meðvitaðri um að börn hafa rödd og skoðanir og að það er mikilvægt að sú rödd fái að heyrast,” segir Aldís og heldur áfram: „Það er átak að breyta vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð lengi en með þeim ferlum sem hafa verið settir upp og þeirri meðvitund sem við öll verðum að tileinka okkur um málaflokkinn er ljóst að við stefnum öll í sömu átt, í átt að betra samfélagi fyrir börn og ungmenni, fyrir alla.”

Um leið og við hjá UNICEF á Íslandi óskum þeim sveitarfélögum sem hlutu viðurkenningu á árinu innilega til hamingju með áfangann, hvetjum við þau sveitarfélög sem hafa ekki þegar hafið innleiðingu Barnvænna sveitarfélaga að stökkva á vagninn til þess að gera ykkar sveitarfélag betra sveitarfélag!

Mælir heilshugar með verkefninu

„Ég mæli heilshugar með því að öll sveitarfélög taki þátt í þessu verkefni með það fyrir augum að verða Barnvæn sveitarfélög. Þetta ferli hefur verið mjög skemmtilegt og fræðandi og öllum hvatning sem að verkefninu hafa komið,” segir Aldís að lokum.

Frekari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.barnvaensveitarfelog.is einnig tekur Marín Rós Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri Barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF á Íslandi við fyrirspurnum á marin@unicef.is

Fleiri
fréttir

02. desember 2025

Barnvæn sveitarfélög, betri sveitarfélög?
Lesa meira

28. nóvember 2025

Ofbeldi gegn mæðrum er líka ofbeldi gegn börnum 
Lesa meira

26. nóvember 2025

Fjögur sveitarfélög bætast í hóp Barnvænna sveitarfélaga UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn