07. október 2022

Birgðastöð UNICEF afgreitt 480 þúsund tonn af hjálpargögnum á þessu ári

Stærsta mannúðarvöruhús veraldar í Kaupmannahöfn, fagnar 60 ára afmæli sínu – Teymisstjórar UNICEF á Íslandi heimsóttu vöruhúsið á dögunum

Alþjóðleg birgðastöð UNICEF í Kaupmannahöfn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fagnar þessa dagana 60 ára afmæli Alþjóðlegu birgðastöðvar sinnar í Kaupmannahöfn. Um er að ræða stærsta mannúðarvöruhús í heiminum sem sér um dreifingu lífsbjargandi hjálpargagna til verkefna UNICEF um allan heim. Starfsemin þar og afköstin hafa aldrei verið meiri en á síðustu árum enda mannúðarkrísum farið fjölgandi.

Þörfin aldrei meiri

„Þörfin fyrir mannúðaraðstoð fyrir börn hefur aldrei verið meiri og starfsemi Alþjóðlegu birgðastöðvar UNICEF því aldrei mikilvægari,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF.  „Í okkar huga er besta leiðin til að halda upp á þessi tímamót sú að auka enn við verkefni okkar til að ná að dreifa mikilvægum hjálpargögnum til allra barna sem aðstoða þau að lifa af neyðarástand hvar sem það skapast. UNICEF er stjórnvöldum og íbúum Danmerkur afar þakklátt fyrir mikilvægt starf og stuðning í þágu verkefna UNICEF og erum við full bjartsýni fyrir næstu 60 ár af því samstarfi.“

Það sem af er þessu ári hafa 480 þúsund tonn af hjálpar- og neyðargögnum verið send frá vöruhúsinu í Kaupmannahöfn. Þar af rúmlega 1.400 vöruflutningabílar með rúmlega 10.400 tonn af hjálpargögnum vegna stríðsins í Úkraínu.

Í Covid-19 sá Alþjóðlega birgðastöðin um að útvega, flytja og útfæra dreifingu fyrir COVAX-samstarfið, sem var alþjóðlegt átak sem miðaði að því að gera bóluefni við Covid-19 aðgengileg í efnaminni ríkjum. Frá því að fyrsta sendingin fór út í febrúar 2021 hefur Birgðastöðin tryggt örugga afhendingu 1,7 milljarða skammta af Covid-19 bóluefnum til 146 ríkja og landsvæða. Vel yfir milljón sprautunála, kælibúnaðar fyrir efnin og hlífðarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Mögnuð upplifun að sjá starfsemina

Teymisstjórar UNICEF á Íslandi heimsóttu Birgðastöðina í Kaupmannahöfn á dögunum en í gegnum það fara meðal annars hjálpargögn sem keypt eru á vef okkar Sannargjafir.is auk þess sem mánaðarleg framlög Heimsforeldra og þeirra sem gefa í neyðarsafnanir gera UNICEF kleift að bregðast skjótt við í neyðarástandi sem kallar á afhendingu mikils magns hjálpargagna með skömmum fyrirvara.

Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi, segir það hafa verið magnaða upplifun að sjá starfsemi vöruhússins.

„Það var magnað að sjá með eigin augum hversu tæknilegt vöruhúsið er, hversu mikil nýsköpun fer þar fram og hversu hratt er hægt að bregðast við þegar neyðarástand skapast. Á þeim stutta tíma sem ég var þarna þá var verið að pakka allskyns vörum til að senda til Pakistan, Afganistan og Afríkuhornsins. Þarna er unnið hratt og skipulega allan sólarhringinn, alla daga til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir lífsnauðsynlegum hjálpargögnum fyrir börn í neyð. Hjálpargögnum sem meðal annars fólk hér á landi hefur tryggt börnum með kaupum á Sönnum gjöfum, sem Heimsforeldrar eða með stuðningi við neyðarsafnanirnar okkar, og færum við þeim öllum hjartans þakkir.“

Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri UNICEF á Íslandi, segir að Heimsforeldrar og öll þau sem styðja UNICEF með framlögum geti verið stolt af því sem þau leggja af mörkum og fer í gegnum vöruhúsið.

„Neyðargögn berast á áfangastað innan við 72 klukkustundum frá því að neyð skellur á en það er meðal annars þökk sé framlögum Heimsforeldra að það er mögulegt. Vöruhúsið er að mestu sjálfvirkt sem gerir ferlið mjög skilvirkt því hér skiptir hver mínúta máli. Framlög Heimsforeldra eru gífurlega mikilvæg og nauðsynleg í viðbrögðum UNICEF við neyð og í langtímaverkefnum samtakanna. Vöruhúsið er eitt dæmi um hversu öflugir Heimsforeldrar eru í að bæta líf allra barna um allan heim.“

Birgðastöðin hóf starfsemi sína árið 1962 og voru skrifstofur og vöruhúsið– sem í dag er stærsta mannúðarvöruhús veraldar– gjöf frá dönskum stjórnvöldum til UNICEF á sínum tíma.

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn