20. nóvember 2017

Fyrstu Réttindaskólar á Íslandi hlutu viðurkenningu UNICEF í dag

Í tilefni af alþjóðlegum degi barna og afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hlutu fyrstu Réttindaskólar UNICEF á Íslandi viðurkenningu. Það voru fulltrúar í réttindaráðum Flataskóla og Laugarnesskóla sem tóku við viðurkenningum við hátíðlega athöfn í Flataskóla í morgun. Auk skólanna tveggja hlutu frístundaheimilin Krakkakot og Laugarsel einnig viðurkenningu sem Réttindafrístund.

Í tilefni af alþjóðlegum degi barna og afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hlutu fyrstu Réttindaskólar UNICEF á Íslandi viðurkenningu. Það voru fulltrúar í réttindaráðum Flataskóla og Laugarnesskóla sem tóku við viðurkenningum við hátíðlega athöfn í Flataskóla í morgun. Auk skólanna tveggja hlutu frístundaheimilin Krakkakot og Laugarsel einnig viðurkenningu sem Réttindafrístund.

„Það er yndislegt að finna hvernig vinnan í tengslum við Réttindaskólaverkefnið er farið að leka um allan skólann. Orðræðan er byrjuð að breytast, sem er frábært,“ segir Ólöf S. Sigurðardóttir skólastjóri Flataskóla um Réttindaskólaverkefnið.

Stjórn athafnarinnar var í höndum barna og afhentu börn úr Flataskóla skilaboð til ráðamanna. Það var Ævar Þór Benediktsson, einnig þekktur sem Ævar vísindamaður, sem tók við skilaboðunum og lofaði að koma þeim til skila þegar ný ríkisstjórn verður tekin við í landinu.

„Við erum afar stolt af skólunum og frístundaheimilunum sem tóku þátt í þessu verkefni með okkur, þau sýndu og sönnuðu að réttindamiðuð nálgun skilar sannarlega góðum árangri fyrir bæði börn og fullorðna. Við hlökkum til að vinna með fleiri skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum að réttindum barna,“ segir Nílsína L. Einarsdóttir, sem leitt hefur Réttindaskólaverkefnið fyrir hönd UNICEF.

UNICEF hlaut styrk frá Menntamálaráðuneytinu til að þróa verkefnið og er afar þakklátt fyrir samstarfið.

Viðhorfskannanir meðal barna og fullorðinna í Réttindaskólunum sýna þá þróun sem hefur orðið frá upphafi verkefnisins fyrir ári síðan. Niðurstöðurnar benda til afar jákvæðra áhrifa verkefnisins á þekkingu skólasamfélagsins á mannréttindum barna. Börnin þekkja réttindi sín betur og vita að þau verða ekki tekin frá þeim, jafnvel þótt þau geri eitthvað af sér. Þá eru fleiri börn sem segja fullorðna fólkið spyrja þau álits um hvernig hægt sé að gera skólann og frístundaheimilið þeirra betra.

„Nær hvert einasta barn í Réttindaskólunum þekkir nú Barnasáttmálann og mikill meirihluti þeirra telur sig geta nefnt fjórar greinar sáttmálans,“ segir Nílsína og leggur áherslu á að börn sem þekki réttindi sín verði færari í að láta vita ef brotið er á réttindum þeirra.

“Við upphaf verkefnsins taldi aðeins um helmingur barnanna að réttindin í Barnasáttmálanum ættu við um þau, en ári síðar hefur hlutfallið hækkað í 80 prósent. Markverðastur munur er ef til vill á fjölda barna sem taldi að þau gætu misst réttindi sín ef þau gerðu eitthvað af sér. Ári eftir að verkefnið hófst vita um 70 prósent þeirra að réttindin verða ekki tekin af þeim, sama hvað. Þessi þekking hefur gríðarlegt forvarnargildi fyrir börn og gleðjumst við mikið yfir þessum góðu niðurstöðum,” segir Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastýra innanlandsstarfs UNICEF.

Skólarnir þurfa að uppfylla fimm forsendur Réttindaskóla UNICEF, sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sjá meira um forsendurnar hér.

  1. Þekking á réttindum barna - 42. grein Barnasáttmálans.
  2. Barna- og ungmennalýðræði – 12. grein Barnasáttmálans.
  3. Eldmóður fyrir réttindum barna – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
  4. Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
  5. Samstarf – 2., 3. og 6. grein Barnasáttmálans.

UNICEF á Íslandi heldur utan um innleiðingu Réttindaskólans og hefur þegar verið opnað fyrir umsóknir frá nýjum skólum sem vilja taka þátt á heimasíðu UNICEF á Íslandi. Rannsóknir á áhrifum Réttindaskóla erlendis, hafa sýnt fram á jákvæðar breytingar á skólabrag, börn urðu betri í að standa vörð um eigin réttindi og vellíðan þeirra jókst.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn