Menu

Metþátttaka grunnskóla í UNICEF-hreyfingunni

Hreyfingin er réttindafræðsluverkefni UNICEF á Íslandi og í ár fræðast börnin um skólastarf við neyðaraðstæður.

Hressir nemendur í Víkurskóla tóku þátt í UNICEF - hreyfingunni í ár. 

3. júlí 2017

Aldrei hafa fleiri grunnskólar skráð sig til leiks í UNICEF-hreyfingunni. Tæplega þrjátíu grunnskólar og yfir sjö þúsund grunnskólanemar um allt land taka þátt í vor og næsta haust. Hreyfingin er réttindafræðsluverkefni UNICEF á Íslandi og í ár fræðast börnin um skólastarf við neyðaraðstæður.

Annað árið í röð leggur Ævar Þór Benediktsson, einnig þekktur sem Ævar vísindamaður, UNICEF lið við gerð fræðslumyndar sem börnin horfa á. Ævar fékk aðstoð Héðins Halldórssonar, sem starfar fyrir UNICEF með sýrlenskum börnum á flótta í Líbanon, og í myndinni eru sagðar sögur fimm barna sem flúið hafa átök í heimalöndum sínum. Börnin eiga það sameiginlegt að vilja mennta sig og fá sum þeirra aðstoð UNICEF til þess.

Myndin var sýnd á RÚV á degi rauða nefsins þann 9. júní síðastliðinn. Smelltu hér til að horfa á myndina. 

Menntun skiptir máli – líka í neyðaraðstæðum

 

UNICEF vinnur að því um allan heim að veita börnum menntun. Um 60 milljón börn á grunnskólaaldri ganga ekki í skóla í heiminum og stór hluti þeirra býr í löndum þar sem neyðarástand ríkir. Það geta verið stríð, ofsóknir, hungur, sjúkdómsfaraldrar eða náttúruhamfarir eins og flóð, eldgos, jarðskjálftar og þurrkar. 

„Menntun skiptir ekki einungis máli fyrir framtíð barnanna heldur skapar skólinn öryggi fyrir börn í neyð og veitir þeim fastan punkt í tilverunni,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur er hér á Íslandi, tryggir öllum börnum rétt til menntunar óháð uppruna þeirra eða aðstæðum.

Efst í hugum fólks við neyðaraðstæður er að útvega vatn, mat og húsaskjól og þessi atriði eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg, en það er líka mikilvægt fyrir börn að upplifa öryggi og hugarró. Skólinn veitir börnum jafnframt tilgang og von um betri framtíð.

Nemendur í 1.-7. bekk í Kleppjárnsreykjadeild Grunnskóla Borgarfjarðar tóku þátt í UNICEF-hreyfingunni þann 24. maí síðastliðinn. Nemendur söfnuðu áheitum hjá fjölskyldu og vinum og fóru svo á milli stöðva og unnu verkefni. Í boði var að mæla ákveðið magn af vatni og flytja á milli staða, synda, reikna rúmmál klifurgrindar, lesa fyrir vin, hoppa í snú-snú, skjóta á körfu og skrifa skilaboð um mikilvægi náms.