27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð

Helmingur íbúa Jemen þurfa á mannúðaraðstoð að halda – Ófremdarástand kemur verst niður á börnum

Hin sjö mánaða gamla Tharwat Fawaz fær stuðning frá móður sinni á Al Sadaqa-sjúkrahúsinu í Aden þar sem hún fékk læknisaðstoð vegna alvarlegrar bráðavannæringar.

„UNICEF og samstarfsaðilar okkar munu halda áfram að veita lífsbjargandi mannúðaraðstoð í Jemen og tryggja að börn sem upplifað hafa svo miklar þjáningar eygi von um bjartari daga og betri framtíð,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Níu ár eru nú síðan blóðug borgarastyrjöld hófst í Jemen sem enn sér ekki fyrir endann á. UNICEF áætlar að helmingur íbúa, eða 18,2 milljónir einstaklinga og þar af nær 10 milljónir barna, þurfi á mannúðaraðstoð að halda.

Þó átök hafi ekki farið stigvaxandi síðan í apríl 2022 og dregið hafi úr mannfalli víðs vegar um landið er staðan viðkvæm og enn engin viðvarandi pólitísk lausn til staðar.

Áframhaldandi stuðningur nauðsynlegur

Og verst er staðan í næringarmálum barna þar sem rúmlega 2,7 milljónir barna glíma við bráðavannæringu og 49 prósent barna undir fimm ára aldri glíma við vaxtarskerðingu og langvinna vannæringu. Ástand sem getur haft óafturkræf og skaðleg áhrif á þroska og velferð barna til frambúðar.

UNICEF stefnir á að meðhöndla minnst 500 þúsund börn við alvarlegri bráðavannæringu á árinu 2024 til að draga úr dánartíðni barna undir fimm ára aldri. En til að tryggja börnum Jemen von um um bjartari daga og betri framtíð þarf áframhaldandi og aukinn stuðning og skuldbindingu frá samstarfsaðilum og alþjóðasamfélaginu að sögn Russell. Stuðningurinn síðustu níu ár hefur að hennar sögn hjálpað við að bjarga lífi, vernda og bæta líf og velferð kvenna og barna. En áframhaldandi stuðningur er nauðsynlegur til uppbyggingar á þolgæðum jemenskrar þjóðar til að takast á við þau áföll og skaða sem langvarandi stríð hefur valdið á innviðum og grunnþjónustu landsins.

Svona getur þú hjálpað

Vissir þú að sem Heimsforeldri UNICEF tryggir þú að Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hafi bolmagn til að bregðast við neyðaraðstæðum sem þessum og sinna langtímauppbyggingum í samfélögum sem standa utan kastljóss heimsbyggðarinnar hverju sinni. Heimsforeldrar eru mikilvægasti stuðningur við réttindi barna í heiminum.

Skráðu þig núna og komdu í hóp Heimsforeldra strax í dag.

Við minnum einnig á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Jemen sem staðið hefur frá upphafi núverandi átaka. Styrktu hér.


Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn