17. mars 2023

Stigvaxandi átök og loftslagshamfarir ógna milljónum barna á Mið-Sahel svæðinu 

UNICEF gefur úr nýja velferðarviðvörun vegna ástandsins

Hin tæplega tveggja ára gamla Marie Glorieuse Tschesso fær sér vatnssopa og næringarríkt jarðhnetumauk á næringarmiðstöð UNICEF í Benín.

Tíu milljónir barna í þremur ríkjum á Mið-Sahel svæðinu í Afríku - Búrkína Fasó, Malí og Níger - eru í brýnni þörf fyrir mannúðaraðstoð vegna stigvaxandi átaka. Þetta eru tvöfalt fleiri börn en árið 2020, samkvæmt nýrri velferðarviðvörun (e. Child Alert) frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í dag. Hátt í 4 milljónir barna í nágrannalöndum ríkjanna eru einnig í hættu þar sem átök milli vopnaðra hópa og þjóðaröryggissveita teygja sig yfir landamærin. 

„Börn lenda í auknum mæli á milli í vopnuðum átökum, sem fórnarlömb aukinna hernaðarátaka eða sem skotmörk vopnaðra hópa,“ segir Marie-Pierre Poirier, svæðisstjóri UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku. 

Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna voru þrisvar sinnum fleiri börn drepin í Búrkína Fasó á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 en á sama tímabili árið 2021. Flest barnanna létust af völdum skotsára í árásum á þorp eða vegna heimatilbúinna sprengja eða sprengileifa.  

Sumir vopnaðir hópar víðsvegar um Malí, Búrkína Fasó og í auknum mæli í Níger, nota aðferðir sem fela í sér umsátur um bæi og þorp og vinna skemmdarverk á vatnskerfum. Vopnaðir hópar sem eru á móti menntun brenna og ræna skóla vísvitandi. Yfir 8,300 skólum hefur verið lokað í löndunum þremur ýmist vegna beinna árása, að kennarar hafa flúið, foreldrar voru á vergangi eða of hræddir til að senda börn sín í skóla.  

Heimsforeldrar fjárfesta í neyðaraðgerðum á svæðinu 

Það er ekki nóg með að vopnaðir hópar ógni í auknum mæli réttindum barna til lífs, öryggis og menntunar. Mið-Sahel er eitt af þeim svæðum á jörðinni sem verður hvað verst úti vegna loftslagskrísunnar. Hitastig í Sahel hækkar 1,5 sinnum hraðar en meðaltal heimsins og úrkoma þar er óreglulegri og ákafari. Þessi mikla úrkoma veldur flóðum sem eyðileggja uppskeru og menga takmarkaðar vatnsauðlindir. Sem dæmi má nefna að árið 2022 skemmdust 38 þúsund heimili í Níger í verstu flóðum síðustu ára.  

UNICEF er á vettvangi og með samstarfsaðilum höfum við ná að veita börnum og fjölskyldum í Mið-Sahel lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð. Sem dæmi um árangur ársins 2022 má nefna: 

  • Nærri 365.000 börn á svæðinu fengu geðheilbrigðisþjónustu og sálrænan stuðning; 
  • 1,2 milljónir börnum tryggð formleg eða óformleg menntun; 
  • 1,1 milljón barna hafa verið bólusett gegn mislingum; 
  • Yfir 446.000 börn og konur fengu grunnheilbrigðisþjónustu;  
  • 674.000 börn undir fimm ára aldri fengu meðferð við alvarlegri rýrnun;  
  • Nærri 820.000 manns fengu aðgang að öruggu vatni til drykkjar og heimilisnota.   

UNICEF sendir út neyðarkallið nú þar sem ástandið er grafalvarlegt en mannúðaraðstoð til að takast á við það verulega vanfjármögnuð. Stórauka þarf framlög til neyðaraðgerða og loftlagsaðlögunar ríkjanna.  

„Umfang neyðarinnar í Mið-Sahel og í auknum mæli í nágrannalöndunum krefst brýnna mannúðaraðgerða sem og sveigjanlegrar langtímafjárfestingar í nauðsynlegri félagsþjónustu sem mun hjálpa til við að styrkja félagslega samheldni, sjálfbæra þróun og tryggja börnum betri framtíð,“ segir Marie-Pierre Poirier. 

Heimsforeldrar UNICEF taka þátt í þessari mikilvægu fjárfestingu og tryggja að UNICEF er til staðar fyrir börnin í Mið-Sahel. Hægt er að taka þátt með því að skrá sig sem Heimsforeldri hér.  

Fleiri
fréttir

08. júlí 2024

Yfirlýsing UNICEF vegna árása í Úkraínu
Lesa meira

03. júlí 2024

10 ár af neyð: Gleymdu börnin í Mið-Afríkulýðveldinu
Lesa meira

01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn