UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur loks fengið leyfi til að flytja afþreyingar- og tómstundagögn inn á Gaza til að dreifa til barna. Þetta eru jákvæð tíðindi eftir rúmlega tvö ár af takmörkunum og banni við hjálpargögnum sem ekki eru álitin lífsnauðsynleg fyrir íbúa á Gaza. Tómstundapakkar UNICEF eru hins vegar mikilvægir fyrir menntun, velferð og þrautseigju barna og frá 15. janúar hafa 5.168 slíkir pakkar fengið að fara inn á Gaza-ströndina og koma þeir rúmlega 375 þúsund börnum til góða.
„Fyrir ung börn um allan heim, líka á Gaza, er leikur ekki lúxus. Í gegnum leik þróa börn og læra tungumálið, hreyfingu, að leysa vandamál og styrkja tilfinningalega félagsfærni,“ segir Ted Chaiban, aðstoðarframkvæmdastjóri mannúðar- og birgðamála hjá UNICEF, sem heimsótti Gaza í vikunni.
„Þessi tómstunda- og afþreyingargögn munu hjálpa til við að skapa öruggara og skipulagðara barnvænt svæði þar sem börn geta fundið rútínu, tjáð tilfinningar sínar og haldið áfram að læra þrátt fyrir neyðaraðstæður. Nú þurfum við bara að fá leyfi til að flytja inn önnur menntagögn og Early Childhood Development-hjálpargögn svo hægt sé að tryggja rúmlega 300 þúsund börnum grunnmenntun.“
Börn á Gaza verða að fá að halda áfram að læra, þroskast og dafna þrátt fyrir allar þær hörmungar stríðs sem þau eru látin þola.
Sjá einnig:
Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza.
Pistill Birnu: Hvernig hjálpargögn komast (ekki) til Gaza.

