24. nóvember 2023

Aldrei meiri verðhækkun í sögu Sannra gjafa!

Jákvæðasta verðhækkun sem þú finnur á Svörtum föstudegi – Borgaðu meira með bros á vör og láttu gott af þér leiða – Sannargjafir.is

UNICEF á Íslandi tekur að vanda þátt í tilboðsdögunum miklu Black Friday og Cyber Monday með Sönnum gjöfum. Við förum að sjálfsögðu ótroðnar slóðir og ákveðum að þessu tilefni með því að bjóða meðal annars upp á sögulega mikla verðhækkun á vörum á vef okkar, sannargjafir.is.

Aldrei meiri verðhækkun á Svörtum föstudegi

Í dag á Svörtum föstudegi nýtum við tækifærið til að vekja athygli á mikilvægi þeirra lífsbjargandi hjálpargagna sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, útvegar börnum í neyð um allan heim með því að hækka verðið á 50 pökkum af næringarríku jarðhnetumauki um 100%. Þessi sögulega mikla verðhækkun hjá UNICEF á Íslandi erum við handviss um að sé svo jákvæð að viðskiptavinir munu greiða hana með bros á vör, enda málstaðurinn sannarlegu verðugur og mikilvægur. Það sýnir mátt Sannra gjafa enda leitun að öðru eins ekki-tilboði á Black Friday.

Næringarríkt jarðhnetumauk er notað til að meðhöndla börn með alvarlega vannæringu og með aðeins þremur pökkum af því á dag í fáeinar vikur getur vannært barn náð bata.

Svo því sé haldið til haga þá er auðvitað aðeins um táknræna hækkun að ræða og er upphæðin sem greidd er aukalega í tilefni þessa tilboðs nýtt til að útvega enn fleiri hjálpargögn fyrir börn í neyð.

Enginn afsláttur af kærleika og hlýju

Í tilefni Cyber Monday, mánudaginn 27. nóvember, verður síðan 0% afsláttur af Hlýja pakkanum á Sannargjafir.is sem inniheldur meðal annars tvö sett af hlýjum vetrarfatnaði fyrir börn og fjögur hlý teppi. Vetraraðstoð UNICEF er stórt verkefni sem miðar að því að tryggja m.a. börnum í búðum fyrir flóttafólk nauðsynlega vernd fyrir veturinn. Við gefum nefnilega engan afslátt af réttindum barna og það er engin ástæða til að gefa afslátt af hlýju og kærleika nú þegar líður að jólum.

Við hvetjum því öll til að kíkja við á vef Sannra gjafa í dag og næstu daga fram að jólum til að láta gott af sér leiða með mikilvægu framlagi til starfsemi UNICEF í þágu barna um allan heim. Sannar gjafir eru fallegt mótvægi gegn neyslumenning nútímans og umhverfisvænn kostur í vali á hugulsömum gjöfum handa fólki sem erfitt getur verið að finna jólagjafir fyrir.

Sannar gjafir eru gjöf sem aldrei gleymist.  

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn