13. ágúst 2021

Ástandið í Afganistan versnar dag frá degi

Að minnsta kosti 27 börn hafa látið lífið og 136 börn hafa særst síðastliðna sólarhringa vegna aukinna átaka og framrás Talíbana í Afganistan. Yfir 400 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og eru nú á flótta víðsvegar um landið, helmingur þeirra börn.

Kabúl; 9 og 12 ágúst 2021:
Átökin milli afganska stjórnarhersins og Talíbana hafa farið stígvaxandi með aukinni ásókn þeirra síðarnefndu á síðastliðnum misserum. Stjórnarherinn í Afganistan á sífellt erfiðara með að stöðva þungann í árásum Talíbana og á innan við viku hafa þeir náð 11 héraðshöfuðborgum á sitt vald, nú síðast borgunum Kandahar og Herat sem eru tvær fjölmennustu borgir Afganistan á eftir höfuðborginni, Kabúl.

Að minnsta kosti 27 börn hafa látið lífið og 136 börn hafa særst síðastliðna sólarhringa vegna aukinna átaka og framrás Talíbana í Afganistan. Yfir 400 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og eru nú á flótta víðsvegar um landið, helmingur þeirra börn. UNICEF varar við ástandinu í Afganistan.

„Til að bæta ofan á þessa skelfilegu stöðu sem komin er upp í Afganistan þá hefur UNICEF einnig miklar áhyggjur af þeim fregnum að börn séu nú í auknum mæli ráðin til þess taka þátt í átökum með vopnuðum hópum. Börn eiga ekki að líða fyrir versnandi átök á bernskuárum sínum. Svo lengi sem átökin geisa í Afganistan þá er réttur barna til að þroskast og dafna í hættu; framtíð þeirra er stefnt í voða. Öll börn eiga rétt á vernd og friði núna“, segir í fréttatilkynningu UNICEF frá 9.ágúst.

Fyrir framrás Talíbana var áætlað að u.þ.b. 18,4 milljónir einstaklinga í landinu, þar af 9,8 milljónir barna þyrftu á nauðsynlegri mannúðaraðstoð að halda. Matvælaóöryggi hefur aukist til muna vegna mikilla þurrka undanfarið, sem ýtir enn frekar undir þörf á mannúðaraðstoð. 13% aukning hefur verið á börnum undir fimm ára aldri sem þjást af bráða vannæringu. Með áframhaldandi átökum má reikna með að fjöldi einstaklinga sem þurfi á mannúðaraðstoð að halda muni aukast til muna.

UNICEF á vettvangi í Afganistan
UNICEF og samstarfsaðilar reyna að koma til móts við brýnustu þarfir á vettvangi meðal annars með því að veita meðferð við bráða vannæringu, tryggja aðgang að öruggu og hreinu vatni, veita heilbrigðisþjónustu og byggja upp afköst starfsmanna í verndarstörfum.

Heimsforeldrar UNICEF á Íslandi hjálpa börnum um allan heim á hverjum einasta degi og gera UNICEF kleift að bregðast við þegar neyðarástand skapast eins og í Afganistan. Hægt er að skrá sig sem Heimsforeldri UNICEF hér.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn