UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, í samstarfi við UNRWA, WHO og samstarfsaðila munu á næstu vikum ráðast í bólusetningar-, næringar- og heilbrigðisátak á Gaza-ströndinni. Dagana 9. -18 nóvember stendur til að bólusetja 44 þúsund börn undir þriggja ára aldri sem vegna ástandsins hafa aldrei fengið grunnbólusetningu við hinum ýmsu sjúkdómum.
Átakið mun fara fram á 149 heilbrigðisstofnunum, 10 færanlegum heilbrigðisstöðvum og unnið af rúmlega 450 heilbrigðisstarfsmönnum sem þjálfaðir hafa verið af UNICEF. Tækifærið verður nýtt til að skima fyrir vannæringu meðal barna og meðhöndla vannærð börn.
Fyrir árásirnar á Gaza var bólusetningarhlutfall á svæðinu 98% en er í dag komið undir 70% með tilheyrandi sjúkdómshættu fyrir íbúa og sérstaklega vannærð og veikburða börn.
Árangur átaksins mun velta á viðvarandi vopnahléi og tryggðu öryggi fyrir mannúðarastarfsfólk. Önnur umferð átaksins af þremur mun svo fara fram í desember og janúar næstkomandi.

