29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna

Nær öll börn undir eins árs aldri fengu bólusetningar á síðasta ári

Hin 29 ára gamla Sangay kemur með nýfæddan son sinn í gegnum skóginn til að láta bólusetja hann á þjónustumiðstöð þorpinu þeirra í Bútan. Ef þjónustumiðstöðin hefði ekki verið til staðar hefði hún þurft að leggja á sig tveggja tíma göngu að næstu heilsugæslu til að fá bólusetningu fyrir barnið. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem stjórnvöldum í Bútan er óskað sérstaklega til hamingju með frábæra frammistöðu í bólusetningarátaki barna á síðasta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Bútan fyrir árið 2023 tókst að bólusetja 99,6% barna undir eins ár aldri með þremur skömmtum af grunnbóluefnum sem verndar þau gegn fimm sjúkdómum. Það eru barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, lifrarbólgu B og influenzae sjúkdómi.

„Þessi árangur er afrakstur stuðnings og skuldbindingar stjórnvalda í Bútan og samstarfsaðila sem gerðu það að forgangsmáli að bólusetja börn. Heilbrigðisstarfsfólk gekk klukkustundum saman við erfiðar aðstæður til að ná til barna á afskekktum svæðum ríkisins. Bútan státar einnig af öflugu neti heilbrigðisþjónustu með 51 sjúkrahús, 184 heilsugæslur og 552 þjónustumiðstöðvar sem auðvelduðu bólusetningarátakið,“ segir í yfirlýsingu Andreu James, fulltrúa UNICEF í Bútan.

Með aðstoð UNICEF komu Bútanar upp búnaði til að viðhalda svokallaðri kaldri keðju til að geyma, flytja og dreifa bóluefnum við rétt hitastig. Þetta var mögulegt að stórum hluta vegna fjármögnunar frá stjórnvöldum í Japan, þróunarbanka Asíu og bólusetningabandalagsins Gavi sem ráðist var í þegar heimsfaraldur COVID-19 geisaði.

Fjölmörgum sjúkdómum verið útrýmt

Eftir 50 ára starf í Bútan hefur UNICEF átt langt og farsælt samstarf við stjórnvöld í konungsríkinu um að bólusetja börn. Á síðasta ári útvegaði UNICEF 685.500 bóluefnaskammta og hefur þjálfað 1.449 heilbrigðisstarfsmenn og tæknifólk í köldu keðjunni til að meðhöndla búnað og bólusetja börn.

„Til að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur mun UNICEF halda áfram að veita heilbrigðisráðuneytinu stuðning og vinna með heilbrigðisstarfsfólki til að ná til allra barna,“ segir James í tilkynningunni.

Og afraksturinn er augljós. Skipulagðar bólusetningar í Bútan síðustu 45 árin hafa upprætt fjölmarga sjúkdóma, þar á meðal mænusótt, mislinga, rauða hunda og lifrarbólgu hjá börnum undir fimm ára aldri.

„Gott fordæmi og árangur Bútan er ljós vonar fyrir önnur ríki og sönnun þess að hægt er að ná til allra barna með lífsbjargandi bólusetningum.“

Nú stendur yfir alþjóða bólusetningarvikan þar sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, minnir á mikilvægi bólusetninga fyrir öll börn.
Öll börn eiga rétt á bólusetningum gegn lífshættulegum sjúkdómum og þar skiptir mánaðarlegur stuðningur Heimsforeldra höfuðmáli. Svo hægt sé að ná til allra barna í afskekktum fjallahéruðum Bútan sem og um allan heim. Komdu í hóp Heimsforeldra í dag.

Fleiri
fréttir

15. maí 2024

Óásættanlegt að litið sé á saklaus börn sem fórnarkostnað í stríði
Lesa meira

13. maí 2024

UNICEF bregst við mannskæðum hamfaraflóðum í Afganistan
Lesa meira

09. maí 2024

Yfirlýsing framkvæmdastjóra UNICEF vegna hernaðaraðgerða og lokun landamæra Rafah
Lesa meira
Fara í fréttasafn