09. júní 2017

Dagur rauða nefsins á RÚV

Yfir 200 manns koma fram í sneisafullum skemmti- og söfnunarþætti í beinni útsendingu á RÚV. Grínistar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarmenn búa saman til ógleymanlegt kvöld og skora um leið á fólk að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.

9. júní 2017

Dagur rauða nefsins hjá UNICEF nær hámarki í kvöld í sneisafullum skemmti- og söfnunarþætti í beinni útsendingu á RÚV. Útsendingin hefst strax að loknum kvöldfréttum klukkan 19:40 og munu grínistar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarmenn búa saman til ógleymanlegt kvöld og skora um leið á fólk að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF. Á degi rauða nefsins síðastliðin ár hafa þúsundir Íslendinga bæst í hóp heimsforeldra.

Yfir tvö hundruð manns koma fram í þættinum. Meðal þeirra eru Kött Grá Pje sem flytur lag dags rauða nefsins, Sturla Atlas sem hannaði rauða nefið í ár, Danshópurinn Grrrrls, Páll Óskar, Improv Ísland og íslenska karlalandsliðið í fótbolta. Hugleikur Dagsson frumflytur endurgerð á laginu „Hvar er draumurinn?“ með Sálinni hans Jóns míns ásamt nýju boy-bandi hans Never2L8, og frumflutt verður splunkunýtt remix sem Helgi Sæmundur og Auður gerðu af laginu Skólarapp en í atriðinu koma fram fleiri en 20 rapparar.

Auk þess verður sýnt frá ferð Sigríðar Thorlacius til Bangladess þar sem hún kynnti sér aðstæður barna og baráttu UNICEF fyrir velferð þeirra og réttindum. Innslög frá Gísla Einarssyni í Írak verða enn fremur í þættinum.

Aðalkynnar kvöldsins eru þau Gísli Marteinn Baldursson og Halla Oddný Magnúsdóttir en þau Sigyn Blöndal, Andri Freyr Viðarsson og Björg Magnúsdóttir munu standa vaktina í símaveri Vodafone. Dagskrárgerð er í höndum Egils Eðvarðssonar. Þá munu um fimmtíu sjálfboðaliðar svara í símann í símaverinu á meðan á þættinum stendur.

Saga Garðarsdóttir og Dóra Jóhannsdóttir eru grínstjórar dagsins og Tjarnargatan framleiðir grínefnið. Þar á bæ hefur fólk setið við langt fram á nætur að klippa grín og glens.

Orri Freyr Rúnarsson, hjá Tjarnargötunni, segir að það hafi aldrei verið spurning um annað en að taka þátt. „Um leið og okkur bauðst að leggja málefninu lið og vinna með Sögu, Dóru og UNICEF sögðum við strax já. Þetta er auðvitað búin að vera mikil vinna en mjög skemmtileg og það er gaman að geta loksins deilt þessu með áhorfendum,“ segir hann.

Auglýsingastofan Jónsson og Le‘macks vann að markaðsátaki dagsins og það eru Vodafone, Lindex á Íslandi og Kvika sem greiða kostnaðinn vegna framleiðslu og markaðssetningar.

Með átakinu vill UNICEF skemmta fólki og vekja um leið athygli á að heimsforeldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn. Þetta verður skemmtun sem sannarlega skiptir máli. UNICEF hvetur alla landsmenn til að horfa á þáttinn og taka þátt í baráttunni fyrir velferð barna.

Hér er stikla fyrir þáttinn: https://www.youtube.com/watch?v=Rtee-ZKx56A

Fleiri
fréttir

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira

11. apríl 2024

Þrjár ungar stúlkur létu lífið undan ströndum Grikklands
Lesa meira
Fara í fréttasafn