13. janúar 2026

UNICEF: Það er enn verið að drepa börn á Gaza þrátt fyrir vopnahlé

Yfirlýsing frá James Elder, talsmanni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eftir heimsókn á Gaza-ströndina.

Börn að leik í einni af kennslumiðstöðvum UNICEF í Bader-skólanum í Deir al Balah.

„Það er búið að drepa rúmlega hundrað börn á Gaza síðan vopnahléi var komið á. Það jafngildir því að um ein stúlka eða drengur séu drepin á hverjum degi. Í vopnahléi,“ segir James Elder, talsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu sem hann flutti á blaðamannafundi í dag eftir enn eina heimsóknina á Gaza-ströndina.

„Það eru enn yfirþyrmandi aðstæður á Gaza og það að lifa af er ástæðum háð. Það hefur vissulega dregið úr sprengju- og skotárásum í þessu vopnahléi, en þær hafa ekki stoppað.“

„Það sem heimsbyggðin kallar nú „rólegheit“ væri álitin krísa annars staðar í heiminum. Því miður virðist sem vopnahléið á Gaza hafi haft óvænta hliðarverkun: Palestínsk börn á Gaza eru nú úr augsýn heimsbyggðarinnar.“

Elder bendir á að frá upphafi vopnahlés í október hafi UNICEF skrásett tilkynningar um minnst 60 drengi og 40 stúlkur sem látið hafi lífið á Gaza síðan þá. Og það séu aðeins staðfestar opinberar tölur. Raunverulegur fjöldi sé að líkindum mun meiri. Hundruð barna hafa særst að auki.

„Ég settist niður með einu þessara barna á dögunum. Hin níu ára gamli Abib Al Rahman var að safna eldivið með vinum sínum í Khan Younis þegar loftárás var gerð. Hann fékk sprengjubrot í augað og þar situr þetta málmstykki enn.“

„Á sama tíma og þessar árásir halda áfram eru enn strangar takmarkanir á því hversu mikið af nauðsynjum og hjálpargögnum má flytja til Gaza.“

„En það er mikilvægt að taka fram að vopnahléið hefur gert okkur kleift að ná raunverulegum og jákvæðum árangri á ákveðnum svæðum:

·       Í heilbrigðismálum hafa UNICEF og samstarfsaðilar aukið grunnheilbrigðisþjónustu, þar á meðal bólusetningar, sérstaklega í norðurhlutanum þar sem þjónusta hefur verið lítil sem engin.

·       Bætt hreinlætisráðstafanir. UNICEF notar allt frá vinnudýrum til jarðýtna til að fjarlægja þúsundir tonna af úrgangi í hverjum mánuði.

·       Það hefur verið rigningatíð og afar kalt á Gaza undanfarið en þökk sé undirbúningi UNICEF fyrir veturinn höfum við afhent milljón hitateppi og hundruð þúsund flíkur af vetrarfatnaði.

·       Við höfum bætt við rúmlega 70 næringarmiðstöðvum víðs vegar um Gaza og nú er ekki lengur hungursneyð.

„Tvö ár af stríði hafa gert líf fyrir börn á Gaza ólýsanlega erfitt. Börn lifa í ótta og enn á eftir að vinna á þeim sálræna skaða sem orðið hefur. Þau sár verða dýpri og munu þurfa lengri tíma til að gróa eftir því sem þetta ástand dregst á langinn.“

„Vopnahlé sem hægir á sprengjunum er árangur, en vopnahlé sem heldur áfram að kosta börn lífið er hreinlega ekki nóg.“

„Það er löngu tímabært að búa til raunverulegt öryggi úr þessu vopnahléi: Opna aðgengi fyrir lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð í stórum stíl, stórauka rýmingu í læknisfræðilegum tilgangi og gera þetta að augnablikinu sem dráp á börnum hættir raunverulega á Gaza.“

Fleiri
fréttir

13. janúar 2026

UNICEF: Það er enn verið að drepa börn á Gaza þrátt fyrir vopnahlé
Lesa meira

09. janúar 2026

Þúsund daga þjáning barna í Súdan
Lesa meira

05. janúar 2026

Helmingur barna vannærður
Lesa meira
Fara í fréttasafn