Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Kitty van der Heijden, varaframkvæmdastjóri UNICEF, undirrituðu í síðustu viku samning um 50 milljóna króna framlag á ári frá íslenskum stjórnvöldum í jafnréttissjóð UNICEF næstu fjögur árin. Ísland er eitt af fjórum ríkjum sem styrkja jafnréttissjóðinn.
Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins segir að íslensk stjórnvöld, sem hafa styrkt sjóðinn frá árinu 2022, hafi ákveðið að nær tvöfalda stuðning sinn við sjóðinn, sem heldur úti verkefnum sem miða að því að auka jafnrétti og valdeflingu stúlkna, með sérstaka áherslu á menntun stúlkna og aukið aðgengi þeirra að tækni- og raungreinum. Stuðningur Íslands hefur meðal annars verið nýttur til að styrkja verkefnin Skills4Girls og Power4Girls en þau miða gagngert að því að valdefla stúlkur og veita þeim haldbæra þjálfun og þekkingu í tækni-og raungreinum, lífsleikni og fræðslu um kynbundið ofbeldi. Þannig náði Skills4Girls verkefnið í Bólivíu til 1,8 milljóna ungmenna, þar af 930 þúsund stúlkna. Power4Girls er tilraunaverkefni í Líbanon þar sem áhersla er lögð á þjálfun fyrir líbanskar stúlkur og stúlkur á flótta.
Stuðningur utanríkisráðuneytisins er sérstaklega mikilvægur verkefnum UNICEF í þágu valdeflingar stúlkna á tímum þar sem niðurskurður efnameiri ríkja til þróunarsamvinnu hefur aukist til muna. Við undirritunina sagði Kitty van der Heijden: „Umfang niðurskurðarins og hraði breytinganna veldur truflun og töfum á þróunaraðstoð, en það setur milljónir barna í hættu. Framlag Íslands til jafnréttissjóðsins er því sérstaklega mikilvægt. Það gerir okkur kleift að halda þeim verkefnum áfram sem eru að sýna árangur. Þetta er viðurkenning á því góða starfi sem unnið er á vettvangi og við erum afskaplega þakklát.“
Með Skills4Girls verkefninu vinnur UNICEF nú að því að styðja við stúlkur í yfir 20 löndum með það markmið að ná til 11,5 milljóna unglingastúlkna fyrir árið 2025.
Á heimasíðu UNICEF má lesa nánar um verkefnin.
Fréttina í heild sinni má lesa á vef utanríkisráðuneytisins.