09. janúar 2026

Þúsund daga þjáning barna í Súdan

„Ástandið hefur farið versnandi á hverjum degi af þeim þúsund sem liðnir eru af þessum ósköpum.“ –Yfirlýsing Edouard Beigbeder, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. – Hrollvekjandi tímamót í blóðugri borgarastyrjöld Súdan.

„Frá því átök hófust í apríl 2023 hefur Súdan orðið að stærstu og skelfilegustu mannúðarhörmungum veraldar. Milljónir barna berjast fyrir lífi sínu, alþjóðalög eru þverbrotin af stríðandi fylkingum og lífsnauðsynleg mannúðaraðstoð fær ekki að berast á átakasvæði. Ástandið hefur farið versnandi á hverjum degi af þeim þúsund sem liðnir eru af þessum ósköpum.“ Þannig hefst harðorð yfirlýsing Edouard Beigbeder, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, á þessum hrollvekjandi tímamótum í blóðugri borgarastyrjöld Súdan.

Átta börn drepin í vikunni

„Á þessu ári er gert ráð fyrir því að 33,7 milljónir einstaklinga, um tveir þriðju allra íbúa, muni þurfa mannúðaraðstoð. Helmingurinn börn. Aðgengi fólks að neyðaraðstoð er takmarkað á stórum landsvæðum sem enn eykur á neyð þess. Enn er verið að drepa börn og særa. Bara í þessari viku voru átta börn drepin í árás í Al Obeid í Norður-Kordofan.“

„Rúmlega 5 milljónir barna hafa neyðst til að flýja heimili sín. Það jafngildir fimm þúsund börnum á dag síðan átök hófust. Mörg hafa neyðst til að flýja ítrekað. Milljónir súdanskra barna eru í hættu á að vera beitt kynferðisofbeldi, sem kerfisbundið er verið að beita sem vopni í þessu stríði. Börn allt niður í eins árs eru meðal þolenda.“

Ótti, hungur og missir

„Áætlað er að 21 milljón íbúa muni standa frammi fyrir bráðafæðuóöryggi á árinu. Hungursneyð hefur þegar verið lýst yfir í Al Fasher og Kadugli og 20 landsvæði í Darfur og Kordofan eru í hættu. Í Norður-Darfur er þungamiðja vannæringarkrísu Súdan. Nærri 85 þúsund börn fengu meðferð við alvarlegri bráðavannæringu þar frá janúar til nóvember á síðasta ári. Eitt barn á sex mínútna fresti. Á átakasvæðum er hrun heilbrigðiskerfisins, vatnsskortur, útbreiðsla smitsjúkdóma og skortur á grunnþjónustu síst til að bæta ástandið.“

„Að baki öllum þessum tölum eru líf sem einkennast af ótta, hungri og missi. Stríðið heldur áfram að ræna börn öryggi, heilsu og von.“

Þurfa varanlegan frið – þolir enga bið

„Þrátt fyrir ótrúlega hættulegar aðstæður og takmarkanir á aðgengi þá heldur lífsbjargandi aðstoð UNICEF áfram að berast börnum hvar sem mögulegt er. UNICEF og samstarfsaðilar eru að afhenda neyðaraðstoð, meðhöndla alvarlega vannæringu, bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum, útvega hreint vatn, vernd og sálrænan stuðning þar sem hægt er.“

„Þessar aðgerðir halda lífi í börnum við erfiðustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér. En þetta er þó fjarri því nóg. Til þess skortir varanlegt, tryggt og öruggt aðgengi, fullnægjandi fjármögnun og vopnahlé. Mannúðaraðstoð getur bjargað lífum en getur aldrei komið í staðinn fyrir öryggið sem aðeins friður getur veitt.“

„UNICEF kallar sem fyrr eftir því að átökum verði tafarlaust hætt, vopnahléi verði komið á og varanlegum frið. Að stríðandi fylkingar virði skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlegum mannúðarlögum, verndi almenna borgara, hætti árásum á mikilvæga borgaralega innviði og tryggja öruggt og viðvarandi aðgengi mannúðaraðstoð um allt land.“

„Börn í Súdan eru ekki tölfræði. Þau eru hrædd, á flótta og svöng. En þau eru líka ákveðin, úrræðagóð og óbugandi. Á hverjum degi leggja þau sig fram við að læra, leika og vona. Á meðan þau bíða eftir að heimsbyggðin bregðist við. Það er siðferðisleg nauðsyn að binda enda á þessi átök. Það þolir enga bið.ׅ“

Þú getur styrkt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Súdan hér.

Hringdu í 907-3015 og gefðu 3.000 krónur.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög er: 701-26-102020 Kennitala: 481203-2950.


Fleiri
fréttir

09. janúar 2026

Þúsund daga þjáning barna í Súdan
Lesa meira

05. janúar 2026

Helmingur barna vannærður
Lesa meira

10. desember 2025

200 milljónir barna þurfa mannúðaraðstoð á næsta ári en ríki draga úr framlögum
Lesa meira
Fara í fréttasafn