15. apríl 2025

Tveggja ára martröð í Súdan: Fjöldi barna í neyð tvöfaldast

„Súdan er stærsta mannúðarkrísa heims í dag, en fær ekki athygli heimsins. Við megum ekki yfirgefa börnin í Súdan.“

Nú eru tvö ár síðan núverandi borgarastyrjöld hófst í Súdan og nú þegar þriðja ár þessa blóðuga stríðs er hafið hefur fjöldi barna sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda tvöfaldast– úr 7,8 milljónum í upphafi árs 2023 upp í 15 milljónir í dag.

Án tafarlausra aðgerða gæti hin skelfilega mannúðarkrísa í Súdan orðið að enn stærra hörmungarástand. Ofbeldi gegn börnum, hungursneyð og sjúkdómar aukast hratt. Flótti heldur áfram að raska lífi fólks, mannúðarsamtök eiga erfiðara með að ná til fjölskyldna, fjármögnun dregst saman og regntíminn frá maí til október – sem oft leiðir til flóða og aukinnar vannæringar og sjúkdómahættu – nálgast.

„Tvö ár af ofbeldi og flótta hafa rústað lífi milljóna barna um allt Súdan. Þörfin fyrir aðstoð heldur áfram að fara fram úr því sem hægt er að veita,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Með regntímann á næsta leiti verður enn erfiðara að ná til barna sem þegar glíma við vannæringu og sjúkdóma. Ég hvet alþjóðasamfélagið til að nýta þetta mikilvæga tækifæri og stíga inn fyrir börnin í Súdan.“

Súdan stendur nú frammi fyrir stærstu mannúðar- og barnaflóttakreppu heims. Helmingur þeirra rúmlega 30 milljóna sem þurfa á aðstoð að halda í ár eru börn. Átökin hafa hrakið nær 15 milljónir einstaklinga á flótta innan lands og yfir landamæri. Meira en helmingur þeirra eru börn, og næstum eitt af hverjum þremur er undir fimm ára aldri. Þar sem möguleikar skapast til að snúa aftur eru ósprungin sprengiefni og skert aðgengi að grunnþjónustu stórhætta fyrir börnin. Hungursneyð breiðist út, bólusetningar dragast saman og um 90% barna eru utan skóla.

Staðan í Súdan í dag:

  • Fjöldi alvarlegra mannréttindabrota gegn börnum hefur aukist um 1000% á tveimur árum.
  • Þar sem slík brot voru áður takmörkuð við svæði á borð við Darfúr, Bláníl og Suður-Kordófan, hafa átökin nú leitt til þess að staðfest hafa verið alvarleg brot í meira en helmingi héraða Súdans. Algengustu brotin eru manndráp og limlestingar, barnarán og árásir á skóla og sjúkrahús. Svæðin með flest brot síðustu tvö ár eru Darfúr, Khartoum, Aljazeera og Suður-Kordófan.
  • Hungursneyð ríkir nú þegar á að minnsta kosti fimm stöðum. Fimm önnur svæði eru við hungurmörk og 17 í áhættuhópi. Með regntímann á næsta leiti eru sjö þessara svæða einnig viðkvæm fyrir flóðum – sex í Darfúr og eitt í Norður-Kordófan. Árin 2022–2024 átti um 60% árlegra innlagna vegna alvarlegrar vannæringar (SAM) sér stað á regntímanum. Ef það mynstur heldur áfram gætu allt að 462.000 börn þjáðst af SAM frá maí til október á þessu ári.
  • Faraldur sjúkdóma mun líklega aukast. Á árinu 2024 voru greind 49.000 kólerutilfelli og yfir 11.000 tilfelli beinbrunasóttar – 60% þeirra höfðu áhrif á mæður og börn. Þessir faraldrar versna af völdum regntímans – mengun vatns, lélegs hreinlætis og aukinnar tilfærslu fólks.
  • Aðgengi mannúðarsamtaka að börnum versnar vegna ákafra átaka og takmarkana eða stjórnsýsluhindrana frá yfirvöldum eða vopnuðum hópum. Árið 2024 seinkaði um  60% hjálpargagnasendinga UNICEF þar sem ekki var hægt að tryggja öryggi á vettvangi. Þó engar sendingar hafi verið felldar niður eða aflýst, höfðu þessar tafir áhrif á aðstoð við börn í brýnni þörf.

Fjármagn af skornum skammti

Fjármögnun lífsnauðsynlegrar þjónustu er í lágmarki og gæti stöðvað mikilvæga heilbrigðis-, næringar-, menntunar- og verndarþjónustu fyrir börn og fjölskyldur – og kostað mannslíf. UNICEF áætlar fjárþörf vegna verkefna í Súdan um 1 milljarð Bandaríkjadala á árinu 2025. Eða upphæð sem jafngildir tæplega 9.800 krónum á hvern einstakling á árinu- eða 26 krónur á dag. Hingað til hefur UNICEF aðeins 266,6 milljónir dollara til ráðstöfunar, mestmegnis frá 2024, og aðeins 12 milljónir dala hafa borist á þessu ári.

 UNICEF á vettvangi við hættulegar aðstæður

Á árinu 2024 veittu UNICEF og samstarfsaðilar sálfræðilega aðstoð, menntun og vernd fyrir 2,7 milljónir barna og umönnunaraðila í Súdan, náðu til yfir 9,8 milljóna barna og fjölskyldna með hreinu drykkjarvatni, skimuðu 6,7 milljónir barna fyrir vannæringu og veittu 422.000 barna lífsbjargandi meðferð vegna vannæringar. UNICEF leggur áfram áherslu á lífsbjargandi aðgerðir á átakasvæðum og styður einnig við flóttafólk og móttökusamfélög á öruggari svæðum með nauðsynlega þjónustu og stuðningi.

„Súdan er stærsta mannúðarkrísa heims í dag, en fær ekki athygli heimsins. Við megum ekki yfirgefa börnin í Súdan. Við höfum þekkinguna og vilja til að auka stuðning okkar – en við þurfum aðgengi og stöðuga fjármögnun. Umfram allt þurfa börn í Súdan að þessum hryllilegu átökum ljúki,“ segir Catherine Russell að lokum.

Fleiri
fréttir

15. apríl 2025

Tveggja ára martröð í Súdan: Fjöldi barna í neyð tvöfaldast
Lesa meira

07. apríl 2025

Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag 
Lesa meira

02. apríl 2025

322 börn verið drepin á Gaza síðan vopnhlé var rofið
Lesa meira
Fara í fréttasafn