02. maí 2025

Tveir mánuðir af aðstoðarbanni á Gaza: „Fjölskyldur berjast fyrir lífi sínu“

Yfirlýsing frá Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF.

 „Í tvo mánuði hafa börn á Gaza-svæðinu orðið fyrir linnulausum loftárásum á sama tíma og þau hafa verið svipt lífsnauðsynlegum vörum, þjónustu og heilbrigðisþjónustu. Með hverjum degi sem líður undir algjöru banni við innflutningi neyðaraðstoðar eykst hættan á hungri, sjúkdómum og dauða – ekkert réttlætir þetta,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu í dag.

„Fjölskyldur berjast fyrir lífi sínu. Þær eru innilokaðar og geta ekki flúið til að leita sér öryggis. Landið sem þær ræktuðu hefur verið eyðilagt. Hafið sem þær veiddu í er nú með takmörkunum. Bakarí eru að loka, vatnsframleiðsla minnkar og hillur verslana eru nánast tómar. Mannúðaraðstoð hefur verið eina líflína barna, en nú er hún við það að klárast.“

„Á síðasta mánuði hafa yfir 75 prósent heimila greint frá versnandi aðgengi að vatni – þau hafa ekki nægilegt drykkjarvatn, geta ekki þvegið sér um hendur þegar þarf og neyðast oft til að velja á milli þess að fara í sturtu, þrífa eða elda.“

„Bóluefni eru að klárast hratt og smitsjúkdómar breiðast út – sérstaklega vatnsborin niðurgangssýking, sem nú stendur fyrir 1 af hverjum 4 tilvikum sjúkdóma sem skráð eru á Gaza. Flest þessara tilvika eru hjá börnum undir fimm ára aldri, sem eru í lífshættu.“

„Vannæring er einnig að aukast. Yfir 9.000 börn hafa verið lögð inn til meðferðar vegna bráðrar vannæringar frá ársbyrjun. Hundruð annarra barna sem þurfa brýna meðferð hafa ekki aðgang að henni vegna óöryggis og flótta.

„Alþjóðleg mannúðarlög krefjast þess að yfirvöld tryggi að íbúar undir þeirra stjórn fái mannúðlega meðferð. Þetta felur ekki aðeins í sér mat, lyf og nauðsynlegar birgðir, heldur einnig að tryggt sé hreinlæti og almenn heilbrigðisaðstaða. Öllum aðilum átaka ber að leyfa og auðvelda hraða og óhindraða afhendingu mannúðaraðstoðar. Þeir verða einnig að heimila öllum viðeigandi stofnunum Sameinuðu þjóðanna að sinna verkefnum sínum til hagsbóta fyrir íbúana.

„UNICEF er áfram á Gaza-svæðinu og gerir sitt besta til að styðja og vernda börn. En aðstoðarbannið og meira en átján mánaða stríð eru að ýta börnum á Gaza yfir brúnina. Við ítrekum kröfu okkar um að aðstoðarbannið verði afnumið, að viðskiptaaðföng fái aðgang að Gaza, að gíslum verði sleppt og að öll börn verði vernduð.“

Fleiri
fréttir

02. maí 2025

Tveir mánuðir af aðstoðarbanni á Gaza: „Fjölskyldur berjast fyrir lífi sínu“
Lesa meira

15. apríl 2025

Tveggja ára martröð í Súdan: Fjöldi barna í neyð tvöfaldast
Lesa meira

07. apríl 2025

Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag 
Lesa meira
Fara í fréttasafn