17. október 2022

UNICEF sendi hvatningu á öll sveitarfélög: Tryggja þarf virkt ungmennaráð

Þátttaka barna og ungmenna þarf að vera merkingarbær, ekki aðeins til skrauts.

Frá ráðstefnu UNICEF um þátttöku barna í síðasta mánuði.

UNICEF á Íslandi sendi á dögunum öllum sveitarfélögum landsins erindi þar sem stjórnendur eru hvattir til að tryggja virka þátttöku barna með virkum ungmennaráðum.

 Á haustdögum stóð UNICEF á Íslandi fyrir ráðstefnu um þátttöku barna og tækifæri þeirra til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Markmiðið var að bjóða starfsfólki sveitarfélaga og skóla að koma og fræðast um fjölbreyttar þátttökuleiðir fyrir börn. Á ráðstefnunni var lögð áhersla á mikilvægi þess að allt fullorðið fólk fái fræðslu um réttindi barna og að við tileinkum okkur barnaréttindanálgun í öllum okkar störfum en það er það sem bæði innanlandsverkefni UNICEF, Barnvæn sveitarfélög og Réttindaskólar leggja mikla áherslu á. 

Önnur áhrifarík þátttökuleið fyrir börn sem einnig var fjallað um á ráðstefnunni eru ungmennaráð sveitarfélaga. Ungmennaráð geta verið gífurlega áhrifamikil ef vel er að þeim staðið og þau fá þann stuðning sem þarf til þess að þátttaka þeirra sé merkingarbær en ekki aðeins til skrauts. Samkvæmt æskulýðslögum ber sveitarfélögum að hlutast til um að ungmennaráð séu stofnuð og að þau séu ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir. Að mörgu er að huga ef virkja á öflugt ungmennaráð sem hefur raunveruleg tækifæri til þess að hafa áhrif á málefni bæjarins, þau þurfa stuðning, upplýsingar og utanumhald og þá þurfa allir aðilar innan stjórnsýslunnar að vera meðvitaðir um tilvist þess og tilgang. Í kjölfarið á ráðstefnunni sendi UNICEF á Íslandi út erindi til allra sveitarfélaga landsins þar sem þau eru hvött til þess að tryggja framangreint.  

Það er von okkar að sem allra flest sveitarfélög og menntastofnanir taki þátt í átakinu og yfirfari hvaða leiðir standa börnum til boða til þess að hafa raunveruleg áhrif og bæti úr. 

Hér fyrir neðan má sjá erindið sem sent var á öll sveitarfélög:

 

 „Erindi: Tækifæri barna til áhrifa og ungmennaRÁÐ TIL RÁÐAMANNA

Reykjavík, 28. september 2022

Með þessu erindi vill UNICEF á Íslandi hvetja sveitarfélagið til að fjölga tækifærum barna til áhrifa innan sveitarfélagsins með stofnun ungmennaráðs, ef það hefur ekki þegar verið gert, eða með því að efla starf ungmennaráðs í samræmi við ráð ungmenna til ráðamanna. 

Réttur barna til þátttöku í stefnumótun og ákvörðunartöku

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi árið 2013. Samkvæmt honum á barn rétt á því að taka þátt í ákvörðunum sem það varðar og stjórnvöldum ber skylda til þess að skapa barnvænar leiðir til þátttöku. Árið 2021 samþykktu stjórnvöld stefnu um Barnvænt Ísland og er þátttaka barna fyrsta markmið þeirrar stefnu. Frá árinu 2007 hafa sveitarfélög átt, samkvæmt lögum, að hlutast til um stofnun ungmennaráðs og hefur yfir helmingur sveitarfélaga gert það. Enn skortir því á samráð og tækifæri barna til raunverulegra áhrifa í sveitarfélögum. 

UNICEF á Íslandi hefur stutt við Barnvæn sveitarfélög í því að efla ungmennaráð og auka samráð við börn. Þann 15. september sl. stóð UNICEF fyrir fjölmennri ráðstefnu fyrir starfsfólk sveitarfélaga um leiðir til þess að efla þátttöku barna. Í aðdraganda ráðstefnunnar birtu fjölmiðlar grein ungmennaráða Reykjanesbæjar og Akureyrar þar sem fulltrúar ráðanna ítrekuðu nauðsyn þess að styðja enn betur við ungmennaráð um allt land. 

Ráð ungmenna til ráðamanna

Vorið 2022 stóð UNICEF á Íslandi fyrir vinnustofum fyrir ungmennaráð í sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Haldnar voru fimm vinnustofur um merkingabæra þátttöku barna í Reykjavík, á Flúðum, Egilstöðum og Akureyri. Á vinnustofunum settu ungmennaráðin saman tólf ráð til ráðamanna til þess af efla ungmennaráð sveitarfélaga.

  1. Ungmennaráð skal vera upplýst um það sem fram undan er í sveitarfélaginu. 
  2. Mál sem varða börn og ungmenni skulu vera lögð fyrir ungmennaráð áður en ákvarðanir eru teknar. Önnur mál má einnig senda til umsagnar til ungmennaráðs.   
  3. Tryggja þarf aðgengi ungmennaráðs að upplýsingum á barnvænu máli.  
  4. Tryggja þarf ungmennaráði fræðslu, m.a. um rétt barna til þátttöku, hvernig stjórnsýsla sveitarfélagsins virkar og þjálfun í því að nýta rödd sína. 
  5. Bera þarf virðingu fyrir börnum og ungmennum og hugmyndir þeirra skulu teknar alvarlega.  
  6. Ungmennaráð ættu að fá fleiri tækifæri til þess að koma inn á bæjarstjórnarfundi og eiga áheyrnarfulltrúa í nefndum og ráðum.  
  7. Kynna þarf starf ungmennaráðsins betur bæði fyrir börnum og fullorðnum.  
  8. Ungmenni ættu að fá greitt fyrir fundarsetu með sama hætti og aðrir.  
  9. Fundartímar, t.d. hjá ráðum og nefndum, þurfa að henta börnum. Passa þarf að börnin sem sækja eiga fundinn séu ekki í skóla eða með aðrar skuldbindingar á fundartíma.  
  10. Sveitarfélög ættu að tryggja eftirfylgni. Ungmennaráð ætti að fá að vita hvaða áhrif þátttaka þeirra hafði og ef hugmyndir þeirra voru ekki framkvæmdar þarf að útskýra hvers vegna.  
  11. Mikilvægt er að ráðamenn séu heiðarlegir, ekki bara „næs“.  
  12. Verkefni sem snúa að börnum og ungmennum ættu að vera vel fjármögnuð.  

 Það er skýr réttur barna að hafa áhrif á málefni sem þau varðar. UNICEF á Íslandi skorar því á sveitarfélag þitt að auka tækifæri barna til áhrifa í sveitarfélaginu. Ýmist með því að stofna ungmennaráð, ef það hefur ekki þegar verið gert, eða efla starf ungmennaráðsins í samræmi við ráð ungmenna til ráðamanna. “

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn