20. nóvember 2025

400 milljónir barna búa við fátækt og skort á grunnþörfum

Ný skýrsla UNICEF varar við aukinni hættu fyrir börn þar sem alþjóðlegur niðurskurður til þróunaraðstoðar, átök og loftslagsbreytingar grafa undan aðgengi þeirra að lífsnauðsynlegri þjónustu.

Mynd: UNICEF/UNI711870/Luu Thu Huong

Eitt af hverjum fimm börnum, eða alls 417 milljónir barna, í lág- og millitekjuríkjum búa við alvarlegan skort á minnst tveimur grunnþörfum tengdum heilsu, þroska og velferð. Frá þessu er greint í árlegri flaggskipsskýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, State of the World‘s Children: Ending Child Poverty sem kom út í dag á Alþjóðadegi barna.

Skýrslan í ár byggir á gögnum frá yfir 130 lág- og millitekjuríkjum til að meta umfang fjölþættrar fátæktar með því að mæla skort í sex flokkum: Menntun, heilsu, húsnæði, næringu, hreinlætisaðstöðu og vatni. Greiningin sýnir að 118 milljónir barna búa við skort í þremur eða fleiri af þessum flokkum og 17 milljónir barna búa við skort í fjórum eða fleiri.

„Börn sem alast upp við fátækt og skort á nauðsynjum eins og góðri næringu, almennilegri hreinlætisaðstöðu og skjóli standa frammi fyrir alvarlegri ógn við heilsu sína og þroska,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Þetta þarf ekki að vera svona. Þegar ríkisstjórnir einsetja sér að uppræta barnafátækt með aðgerðum sem virka þá opna þær heim tækifæra fyrir börn.“

Hæsta tíðni fjölþættrar fátæktar meðal barna er í ríkjum suður af Sahara í Afríku og í Suður Asíu. Svo dæmi sé tekið þá búa 64% barna í Tjad við alvarlegan skort í tveimur eða fleiri flokkum.

Sýnt sig að vilji er allt sem þarf til árangurs

En alveg eins og Catherine Russell segir þá þarf þetta ekki að vera svona, það er alltaf von og árangur hefur sannarlega náðst með forgangsröðun og vilja til góðra verka.

Hlutfall barna sem býr við alvarlegan skort í þessum lág- og millitekjuríkjum lækkaði til að mynda úr 51% árið 2013 í 41% árið 2023. Árangur sem má að mestu rekja til þess að stjórnvöld settu réttindi barna í forgang í stefnumótun og efnahagsáætlunum sínum.

Í skýrslunni er dæmi tekið um Tansaníu. Þar náðist 46% lækkun á fjölþættri barnafátækt á tímabilinu 2000-2023. Árangur sem má að hluta rekja til ríkisstyrkja og valdeflingar efnaminni heimila til að taka sínar eigin fjárhagslegu ákvarðanir.

Annað dæmi er Bangladess þar sem 32% lækkun á fjölþættri barnafátækt náðist á sama tímabili, meðal annars vegna opinberra aðgerða um bætt aðgengi að menntun barna, rafmagni, aukin gæði húsnæðis og fjárfestingu í innviðum vatns- og hreinlætisþjónustu.

En UNICEF varar við því í skýrslunni að árangur hefur síðan staðið í stað m.a. sökum átaka, loftslagsbreytinga, náttúruhamfara, lýðfræðilegra breytinga, aukinna skulda ríkja og niðurskurðar ríkja til þróunaraðstoðar. Fátækt grefur undan og dregur úr heilsu barna, þroska, námsárangri –og þar með framtíðaratvinnumöguleikum, dregur úr lífslíkum og eykur tíðni geðrænna vandkvæða eins og þunglyndis og kvíða. Það er því mikið undir og mikið verk að tryggja velferð þessara barna sem búa við skort og fátækt.   

Mynd: UNICEF/UNI692361/Ijazah

19% barna í heiminum lifa á 382 krónum á dag

Tekjufátækt var einnig skoðuð enda dregur hún m.a. úr aðgengi að mat, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þannig kom í ljós að samkvæmt nýjustu tölum búa rúmlega 19% allra barna á heimsvísu við alvarlega tekjufátækt og lifa á innan við 3 Bandaríkjadölum á dag. (eða jafngildi 382 króna). Nærri 90% þessara barna koma frá ríkjum sunnan Sahara í Afríku og Suður-Asíu.

Bakslag hátekjuríkja

Skýrslan lítur einnig til 37 hátekjuríkja sem sýna að 50 milljónir barna, eða 23% allra barna í þessum ríkjum búa við hlutfallslega tekjufrátækt –sem þýðir að heimili þeirra er með töluvert lægri tekjur en meirihluti heimila í því landi.

En á meðan fátækt hefur minnkað að meðaltali um 2,5% í þessum hátekjuríkjum á árunum 2013-2023 þá hefur þróunin víða staðnað og í einhverjum tilfellum orðið bakslag. Í Frakklandi, Sviss og Bretlandi hefur barnafátækt til dæmist aukist um 20 prósent. Í Slóveníu tókst aftur á móti að draga úr fátækt um rúmlega fjórðung, með öflugu fjölskyldubótakerfi og lágmarkslaunalögum.

Hér má sjá yfirlit yfir tekjufátækt barna í hátekjuríkjum á tímabilinu 2013-2023. Ísland er með sjötta lægsta hlutfall þeirra 37 sem skoðuð voru.

Þess ber að geta að í skýrslunni má sjá að Ísland er á meðal þeirra þjóða þar sem hlutfall barna sem alast upp við tekjufátækt er hvað lægst meðal hátekjuríkja. Mælist aðeins minni í Kýpur, Noregi, Finnlandi, Slóveníu og Danmörku.

Í skýrslunni State of the World‘s Children 2025 er varpað ljósi á að hægt er að uppræta barnafátækt og lögð áhersla á mikilvægi þess að setja réttindi barna, eins og þau eru skilgreind í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, í forgrunn allrar stefnumótunar, löggjafar og aðgerða sem miða að því að draga úr fátækt. Meðal annars með því að:

·        Gera það að forgangsatriði þjóðar að uppræta barnafátækt

·        Setja þarfir barna í efnahagsstefnu og fjárlög ríkja.

·        Efla félagsverndarþjónustu þar á meðal með beinum fjárhagsstuðningi við fjölskyldur.

·        Bæta aðgengi að nauðsynlegri grunnþjónustu á borð við menntun, heilbrigðisþjónustu, vatn, hreinlætisþjónustu, næringu og húsnæði.

·        Tryggja mannsæmandi störf fyrir foreldra.

 

Niðurskurður á framlögum þjóða gerir illt verra

Skýrslan í ár kemur í kjölfarið á ákvörðun fjölmargra stórríkja að skera verulega niður í framlögum sínum til alþjóðlegrar þróunaraðstoðar. The Lancet hefur greint frá því að þessi niðurskurður til þróunaraðstoðar, sem UNICEF hefur margítrekað varað við, geti haft þær afleiðingar að 4,5 milljónir barna undir 5 ára aldri deyi fyrir árið 2030.

„Of mörg börn bjuggu þegar við skort á grunnþörfum áður en þessi niðurskurður til þróunaraðstoðar hótaði því að gera illt verra,“ segir Russell. „Þetta er ekki tíminn til að hörfa. Nú er tíminn til að byggja á þeim árangri sem náðst hefur í þágu barna í gegnum árin. Stjórnvöld og fyrirtæki geta það með því að auka fjárfestingu í lykilþjónustu fyrir börn. Tryggja heilsu þeirra, vernd og velferð. Að fjárfesta í börnum er fjárfesting í heilbrigðari og friðsælli framtíð fyrir alla.“

 

Hægt er að nálgast skýrsluna State of the World‘s Children: Ending Child Poverty í heild sinni hér.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2025

400 milljónir barna búa við fátækt og skort á grunnþörfum
Lesa meira

14. nóvember 2025

Fellibylurinn stóri í Filippseyjum hefur áhrif á 1,7 milljón barna
Lesa meira

10. nóvember 2025

Bólusetja börn á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn