Barnvæn sveitarfélög á Íslandi eru í dag orðin tíu talsins eftir mikla törn af viðurkenningaveitingum UNICEF á Íslandi á síðustu dögum í kringum Alþjóðadag barna. Þar höfum við gert víðreist og ferðast frá Hrunamannahreppi til Garðabæjar, þaðan til Vopnafjarðarhrepps og loks Mosfellsbæjar til að veita þessum glæsilegu sveitarfélögum langþráða viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög UNICEF.
„Það er sótt að réttindum barna víða um heim en á Íslandi erum við í sókn. Við hjá UNICEF á Íslandi erum stolt af árangri sveitarfélaganna við að lyfta upp röddum og áhrifum barna, samfélaginu öllu til framdráttar. Þegar ákvarðanir er varða líf fólks eru grundvallaðar á réttindum þá verður niðurstaðan betri fyrir öll. Íbúar og starfsfólk Barnvænna sveitarfélaga sjá það með eigin augum og þeirra árangur er vonandi öðrum hvatning,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Eftir viðurkenningarnar nú búa ríflega 37 þúsund börn, eða sem nemur 44% barna á Íslandi, í sveitarfélögum sem hlotið hafa viðurkenningu Barnvæn sveitarfélög.
Barnvænt hagsmunamat, móttökurými og bætt akstursþjónusta
Sem dæmi um aðgerðir sem sveitarfélögin hafa ráðist í þá tókum við saman brot af því besta hjá hverju og einu þeirra:
Hrunamannahreppur: Innleiddi nýja mannréttindastefnu sem byggir á Barnasáttmálanum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Svo tók Lýðheilsu- og æskulýðsnefnd sveitarfélagsins í notkun barnvænt hagsmunamat.
Garðabær: Útbúið var barnvænt móttökurými fyrir félags- og skólaþjónustu með það að markmiði að skapa meira næði og auka öryggistilfinningu barna og fjölskyldna sem nýta sér þjónustuna. Þá var einnig búinn til samskiptasáttmáli fyrir sveitarfélagið sem byggir m.a. á Barnasáttmálanum og er nýttur til að takast á við ýmis samskiptamál sem upp koma í starfi með börnum.
Vopnafjarðarhreppur: Frístundastarf var flutt í hentugra húsnæði sem hefur hlotið mjög jákvæðar viðtökur bæði barna og starfsfólks. Sveitarfélagið aðlagaði einnig skólabílaakstur í samstarfi við börn í sveitarfélaginu með það að markmiði að tryggja meiri samfellu í degi þeirra barna sem nýta sér aksturinn.
Mosfellsbær: Samstarf var hafið við Bergið Headspace til þess að tryggja börnum í Mosfellsbæ milliliðalausan og gjaldfrjálsan aðgang að ráðgjöf vegna depurðar, flókinna tilfinninga, sjálfsskaða, flókinna samskipta, andlegrar líðanar og fleira. Eins fékk ungmennaráðið 500 þúsund krónur til ráðstöfunar og ákvað að þessu sinni að nota þá í skemmtun fyrir ungmenni á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
Hvað er Barnvænt sveitarfélag?
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Verkefnið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. UNICEF á Íslandi hefur umsjón með verkefninu en verkefnið er stutt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Viðurkenningin gildir í þrjú ár en til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að þremur árum liðnum.
Hægt er að kynna sér Barnvæn sveitarfélög nánar hér á heimasíðu verkefnisins.
UNICEF á Íslandi óskar Vopnafirði, Garðabæ, Hrunamannahreppi og Mosfellsbæ hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.




