06. febrúar 2023

Neyðarsöfnun UNICEF fyrir Sýrland vegna jarðskjálfta

Mörg hundruð látið lífið og slasast – Börn í Sýrlandi þurfa á stuðningi þínum að halda

Björgunarmaður ber ungan dreng úr rústum byggingar í Dana í Sýrlandi eftir jarðskjálftana. Mynd: Aaref Watad/AFP

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur hafið neyðarsöfnun vegna afleiðinga jarðskjálfta að stærðinni 7.8 sem varð í Tyrklandi og Sýrlandi í nótt. Söfnun UNICEF nær til Sýrlands og landamæraaðstoðar í Gaziantep þar sem mikill fjöldi flóttafólks heldur til við erfiðar aðstæður.

Tölur látinna og særðra hækka með hverjum klukkutímanum en ljóst að mörg hundruð eru látin og þúsundir særð í Sýrlandi og Tyrklandi. Í Sýrlandi er ástandið metið verst í Aleppo og Latakia, fregnir hafa borist af skemmdum í Hama en ekki hafa borist af fregnir af stöðu mála í Homs og syðri landsvæðum enn sem komið er.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Sýrlands

Ástandið í Sýrlandi var fyrir afar viðkvæmt og neyðin þar mikil. Ljóst er að áhrif hamfaraskjálfta sem þessa mun koma harðast niður á börnum og viðkvæmum hópum sem nú þegar glíma við hápunkt vetrarhörkunnar í landinu í þokkabót.

Angela Kearney, fulltrúi UNICEF í Sýrlandi, var í Aleppo þegar jarðskjálftinn varð:

„Tölur særðra og látinna hækka sífellt. Hér er upplausnarástand og skelfing meðal fólks og barna. Skólum hefur verið lokað og suma er verið að nota sem neyðarskýli.“

Vettvangsteymi UNICEF í Sýrlandi er í þessum skrifuðu orðum að meta aðstæður og er frekari tíðinda að vænta af stöðunni og viðbragði UNICEF síðar í dag.

Sem stendur hafa stjórnvöld í Tyrklandi ekki óskað eftir neyðaraðstoð og beinist ákall þeirra fyrst og fremst að leit og björgun að svo stöddu.

Erfiðar aðstæður í Sýrlandi fyrir skjálftann

Nokkrar staðreyndir um Sýrlandi fyrir jarðskjálftann:

  • Stríð staðið yfir í tæp 12 ár.
  • Rúmlega 14,6 milljónir einstaklinga, þar af 6,5 milljónir barna, þurfa á mannúðaraðstoð.
  • 6,9 milljónir einstaklinga, þar af 3 milljónir barna, eru á vergangi innan landsins eftir að hafa neyðst til að flýja heimili sín.
  • Milljónir Sýrlendinga hafa flúið yfir landamærin til nágrannaríkja og  víðar og búa í flóttamannabúðum.
  • Fyrir hamfarirnar áætlaði UNICEF að þurfa 328,5 milljónir dala til að mæta þörfum sýrlenskra barna.
  • Mest er þörfin fyrir mannúðaraðstoð vegna vatns og hreinlætisverkefna (WASH), heilbrigðismála– þar á meðal til að tækla útbreiðslu kóleru), og vegna menntamála.

UNICEF hefur frá upphafi stríðs og allar götur síðan 1970 verið á vettvangi í Sýrlandi til að tryggja velferð og réttindi barna þar í landi. Unnið að því að tryggja börnum skjól, menntun, næringu og heilbrigðisþjónustu. Nú standa Sýrlendingar frammi fyrir enn einni áskoruninni og sem fyrr mun UNICEF standa við bakið á sýrlenskum börnum. Til þess þurfum við þinn stuðning.

Sendu SMS-ið STOPP í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 krónur.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102040 kennitala: 481203-2950

Nánar hér:
Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Sýrlands

Fleiri
fréttir

02. desember 2025

Barnvæn sveitarfélög, betri sveitarfélög?
Lesa meira

28. nóvember 2025

Ofbeldi gegn mæðrum er líka ofbeldi gegn börnum 
Lesa meira

26. nóvember 2025

Fjögur sveitarfélög bætast í hóp Barnvænna sveitarfélaga UNICEF 
Lesa meira
Fara í fréttasafn