Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, skrifar:
Nýjar tölur UNICEF sýna svart á hvítu það sem við vitum en lítum oft undan: heimilisofbeldi er ekki einkamál fullorðinna. Það er ofbeldi sem börn búa við og bera með sér út í lífið. Það er ofbeldi sem mótar samfélög framtíðarinnar.
Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst í vikunni liggur nú í fyrsta sinn fyrir rannsókn eftir heimssvæðum á því hversu algengt er að börn búi hjá móður sem hefur orðið fyrir líkamlegu, kynferðislegu eða andlegu ofbeldi maka á síðustu tólf mánuðum. Niðurstöðurnar eru skelfilegar. Eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum – um 610 milljónir barna – búa við slíkar aðstæður.
Þetta eru ekki tölur á blaði. Þetta eru börn sem sofna og vakna við ógn og óöryggi. Börn sem læra af eigin reynslu að valdbeiting sé hluti af daglegu lífi. Börn sem bera þögnina og skömmina sem ekki tilheyrir þeim.
Heilu heimshlutarnir lifa í skugga ofbeldis
Greining UNICEF sýnir að misrétti og félagslegar aðstæður skipta sköpum. Í Eyjaálfu býr rúmlega helmingur barna hjá móður sem hefur orðið fyrir ofbeldi á síðasta ári. Í Afríku sunnan Sahara er hlutfallið 32 prósent, eða 187 milljónir barna. Í Mið- og Suður-Asíu verða 29 prósent barna fyrir slíkri reynslu – sem gerir svæðið að því sem leggur mestan fjölda inn í heildartöluna, samtals 201 milljón barna.
Hvert sem litið er, í öllum heimshlutum, þá blasir við að ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt heilbrigðisvandamál, mannréttindabrot og bein ógn við velferð barna.
Börn bera afleiðingarnar alla ævi
Rannsóknir sýna að þegar konur búa við ofbeldi eru börn þeirra mun líklegri til að verða fyrir líkamlegri eða andlegri refsingu. Þau upplifa ekki aðeins ótta heldur smitast af honum. Þau læra að sambönd byggist á yfirráðum en ekki virðingu. Og þau bera þessi sár með sér inn í fullorðinsárin – bæði sem fórnarlömb eða gerendur.
Þetta er vítahringur sem við höfum siðferðilega skyldu til að rjúfa.
Ákall um fjárfestingu í forvörnum
UNICEF kallar eftir því að ríki og samfélög horfist í augu við vandann og bregðist við af heilindum. Það verður að fjárfesta í sannreyndum lausnum til að binda enda á ofbeldi gegn konum og börnum. Lausnirnar eru nefnilega þekktar – en þær krefjast pólitísks vilja. Þær fela m.a. í sér samhæfðar aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum og börnum, öfluga þjónustu fyrir þolendur, forvarnir sem virka og að uppræta skaðleg viðhorf.
Það að búa við ofbeldi er mótandi reynsla sem engin ætti að þurfa að upplifa. Engin móðir og ekkert barn. Þess vegna ber okkur skylda til að tryggja að öll börn – hvar sem þau búa – alist upp í öruggu umhverfi þar sem ofbeldi er undantekning, ekki normið.
Því hvers konar heimur er það þegar heimilið er hættulegasti staðurinn fyrir hundruð milljóna barna?

