18. nóvember 2022

Stjörnum prýtt Réttindalið óskar eftir liðsauka

Þegar kemur að réttindum barna erum við ÖLL í sama liði – Vertu með í Réttindaliði UNICEF og taktu afstöðu gegn fordómum, mismunun og réttindabrotum

Meðal liðsmanna í Réttindaliðinu. Samsett mynd/Baldur Kristjánsson

Nýtt kynningarátak UNICEF á Íslandi í tilefni af Alþjóðadegi barna hófst í morgun með frumsýningu á áhrifamiklu myndbandi sem er framleitt í samstarfi við Hannes Þór Halldórsson, leikstjóra og fyrrverandi landsliðsmarkvörð og Hannes Þór Arason, kvikmyndaframleiðanda. Með átakinu vill UNICEF, í aðdraganda Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, vekja athygli á réttindum barna og skera upp herör gegn fordómum, mismunun og réttindabrotum.    

  

Hægt er að horfa á myndbandið hér.   

  

UNICEF á Íslandi fékk til liðs við sig fjölbreyttan hóp talsmanna á Íslandi, bæði úr röðum barna og fullorðinna, til að varpa ljósi á mikilvægi fjölbreytileika, jafnréttis og þátttöku. Meðal þeirra sem koma fram í myndbandinu eru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sandra Sigurðardóttir landsliðskona í knattspyrnu, Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, fótboltastjarnan og pólski landsliðsmaðurinn Robert Lewandowski, Aníta Briem, leikkona, Mars Proppé, hinseginaktívisti, Anna Sonde úr Antirasistunum, Vilhjálmur Hauksson, fréttamaður á KrakkaRÚV, Sigríður Eyþórsdóttir, tónlistarkona og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður á RÚV svo fáein séu nefnd.     

Í ár er Alþjóðadegi barna fagnað sama dag og Heimsmeistaramót karla í knattspyrnu hefst. Með myndbandinu minnir UNICEF sérstaklega á 2. grein Barnasáttmálans sem kveður á um að ÖLL börn séu jöfn og sendir mikilvæg skilaboð til heimsins um að við þurfum öll að vera í sama liði, Réttindaliðinu, til að tryggja réttindi barna.      

„Það var frábært að fá að taka þátt í þessu verkefni með UNICEF. Tímasetning þessa átaks er viðeigandi þar sem mikið hefur verið fjallað um mannréttindi í aðdraganda HM í knattspyrnu. Þó svo að fólk kunni að skiptast í fylkingar á knattspyrnuvellinum þá getum við öll verið sammála um að vera í sama liði þegar kemur að réttindum barna,“ segir Hannes Þór Halldórsson, leikstjóri myndbandsins.    

Frá tökum myndbandsins á Ægissíðu. Mynd: Baldur Kristjánsson

Andsvar við bakslagi í réttindabaráttu     

Alþjóðadagur barna er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, útbreiddasta mannréttindasáttmála heims. Ein af lykilstoðum Barnasáttmálans er bann við mismunun og þar er skýrt tekið fram að stjórnvöldum beri að vernda öll börn gegn hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, kynhneigðar, þjóðernis, fötlunar, fátæktar, tungumáls eða trúar. Raunin er þó sú að mismunun gegn börnum er útbreidd og heimsfaraldur COVID-10 afhjúpaði djúpt misrétti innan samfélaga um allan heim enn frekar.      

„Við getum, og við verðum, að grípa til aðgerða og gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda börn gegn mismunun og gefa öllum börnum tækifæri til að rækta hæfileika sína og vera virkir þátttakendur í samfélaginu sínu. Barnasáttmálinn var samþykktur af þjóðarleiðtogum heimsins fyrir rúmum þrjátíu árum til að standa vörð um réttindi barna og nú er það í okkar höndum að halda þeirri vinnu áfram. Við vonum því að sem flestir taki undir ákall okkar og heiti því að koma fram við öll börn af virðingu,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.    

  

Réttindaliðið skorar á stjórnvöld, fyrirtæki og þjóðina alla     

Þekking á réttindum barna er grundvöllur þess að réttindi barna séu virt.  Öflugasta vopnið gegn fordómum, hatursorðræðu og mismunun er fræðsla og upplýstar samræður. Samhliða myndbandinu er UNICEF á Íslandi í undirskriftasöfnun á heimasíðu sinni þar sem fólk er hvatt til að ganga í „Réttindaliðið“ og þannig taka skýra afstöðu gegn fordómum og mismunun og með réttindum allra barna.    

  

Undirskriftir verða svo afhentar íslenskum stjórnvöldum með áskorun um að:     

  • Stjórnvöld efli mannréttindafræðslu í samfélaginu öllu með markvissum hætti;    
  • Fyrirtæki og félagasamtök verði talsmenn jafnræðis og fjölbreytileika;    
  • Almenningur taki þátt í því að vernda börn gegn hvers kyns mismunun og fordómum.   

  ÞÚ getur skráð þig í Réttindaliðið hér.    

  

„Þetta er mitt lið“ – Mynd: Baldur Kristjánsson

Upplýsingar um myndband:   

Ábyrgðaraðili: UNICEF á Íslandi 

Leikstjórn: Hannes Þór Halldórsson 

Framleiðsla: Hannes Þór Arason 

Kvikmyndataka: Baltasar Breki Samper 

Ljósmyndir: Baldur Kristjánsson 

Lýsing: Stefán Freyr Margrétarson 

Hár og förðun: Anna Kristín Óskarsdóttir 

Hljóð á setti: Árni Gylfason 

Aðstoð við framleiðslu: Úlfur E. Arnalds 

Eftirvinnsla: Trickshot 

Grafík: Kristján U. Kristjánsson 

Hljóðeftirvinnsla: Birgir Tryggvason 

  

Verkefnið er meðal annars stutt af áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt og með kynningar- og fræðslustyrk frá Utanríkisráðuneytinu. Þess ber að nefna að fjöldi fólks lagði okkur lið með ríkulegum afslætti og/eða gaf vinnu sína við að gera myndbandið enda yrði það ekki að veruleika án þess. Einnig þökkum við KSÍ innilega fyrir afnot af Laugardalsvellinum við tökur á myndbandinu. Stuðningurinn er ómetanlegur.  

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn