28. janúar 2026

UNICEF ætlar að gefa hundruð þúsunda barna á Gaza tækifæri til að læra

UNICEF setur aukinn kraft í menntaverkefnið Back to Learning sem mun gefa 336.000 börnum tækifæri til að læra og veita þeim sálræna aðstoð.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, tilkynnti í gær að aukinn kraftur yrði nú settur í menntaverkefni þeirra fyrir börn á Gaza. Back to Learning-verkefnið felur í sér að reyna að gefa 336.000 börnum undir fimm ára aldri tækifæri til að læra og fá sálræna aðstoð í öruggum barnvænum svæðum og kennslurýmum.

„Þetta er ekki eitthvað sem má bara líta á sem einhvern lúxus sem gaman væri að hafa,“ segir James Elder, talsmaður UNICEF. „Þetta er neyðarástand.“

Nærri tvö og hálft ár af árásum á skóla á Gaza hafa ógnað menntun og framtíð heillar kynslóðar. Sextíu prósent barna á skólaaldri á Gaza hafa í dag ekkert aðgengi að persónulegri menntun. Rúmlega 90 prósent skóla hafa verið skemmdir eða gjöreyðilagðir. Og rúmlega 335 þúsund börn undir fimm ára aldri eiga nú á hættu að lenda eftirá í þroska þar sem algjört hrun hefur orðið á barnaþjónustu.

„Fyrir þetta stríð var læsi meðal íbúa Gaza með því hæsta sem það gerist í heiminum. Stolt íbúa var bundið menntun þeirra og knúði áfram þrautseigju og framfarir heilu kynslóðanna. Þessi arfleifð er í hættu í og sætir árás,“ segir Elder.

Upplifi mennsku bernskunnar aftur

UNICEF, í samstarfi við samstarfsaðila á Gaza og menntamálaráðuneyti Palestínu, hefur því hafið átakið „Back to Learning“. Nálgunin verður að sögn Elders einföld; Að fjölga fjölþjónustu- og kennslumiðstöðvum og gefa börnum tækifæri til náms og fá sálræna aðstoð og stuðning.

„Við erum að vinna með menntamálaráðuneyti Palestínu, UNRWA og öllum samstarfsaðilum okkar til að tryggja að börn geti snúið aftur í öruggt skólaumhverfi eins fljótt og auðið er. UNICEF er nú þegar að halda úti og styrkja rúmlega 100 kennslusvæði á Gaza sem gefa börnum færi á að lesa, skrifa og reikna. En síðast en ekki síst, stað til að leika sér, anda og upplifa mennsku bernskunnar aftur,“ segir Elder.

Lærdómur ER lífsbjörg

„Sumir gætu spurt sig: Af hverju erum við að leggja áherslu á menntun þegar fjölskyldur eiga ekki mat, vatn og skjól? Í fyrsta lagi þá er ekkert annaðhvort-eða í þessu og eitt útilokar ekki annað. UNICEF hefur sem dæmi afhent milljón hitateppi, hundruð þúsunda vetrarklæða, opnað rúmlega 70 næringarmiðstöðvar víðs vegar um Gaza og vinna okkar við að koma vatns- og skólpmálum aftur í gang eru enn meðal forgangsverkefna.“

„Í öðru lagi af því að á Gaza ER lærdómur lífsbjörg. Þessar miðstöðvar eru örugg svæði á landsvæði sem oft er óaðgengilegt og hættulegt. Þar eru veittar mikilvægar upplýsingar, þær tryggja rútínu, tengja börn við heilbrigðis-, næringar- og verndarþjónustu. Þessar kennslumiðstöðvar hafa einnig almennileg klósett og stað til að þvo hendur sínar- það verður ekki það sama sagt um tjöldin sem mörg þessara barna búa í.“

Elder segir að nú þegar talað sé um uppbyggingu og bata Gaza séu skilaboð UNICEF hins vegar skýr. Börn þurfi að vera í forgrunni allra slíkra áætlana og verkefna. Nær helmingur íbúa Gaza er undir 18 ára.

Kostnaður á við það sem heimsbyggðin eyðir í kaffi á klukkutíma

„Að koma einu barni í kennslumiðstöð UNICEF kostar um 280 Bandaríkjadali á ári (innsk. Eða sem nemur 34.000 kr.). Þá er sálrænn stuðningur meðtalinn. Til að ná til 336 þúsund barna á þessu ári þarf UNICEF nauðsynlega sem nemur 86 milljónum dala. Það er um það bil það sem heimsbyggðin eyðir í kaffi á klukkustund eða tveimur á degi hverjum,“ segir Elder. 

„Back to Learning-verkefnið“ snýst ekki bara um það að lifa af. Það snýst um að verja það sem mun knýja framtíð Gaza. Og verkefnið brúar bilið þar til skólar á Gaza komast aftur í gagnið og öll börn geti fengið formlega menntun í alvöru skólastofum í framtíðinni. Í augnablikinu snýst „Back to Learning“ um að viðhalda þessum loga. Að gefa börnum rútínu, virðingu og stefnu á ný. Það er þannig sem von verður hagnýt og framtíð er endurbyggð.“

Styrktu neyðarsöfnun UNICEF á Gaza í dag.

Hringdu í 907-3014 og gefðu 3.000 krónur.

– Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102015 / Kennitala: 481203-2950

– Við tökum einnig við styrkjum í gegnum AUR appið í númerið: 123 789 6262 eða @unicef.

Fleiri
fréttir

28. janúar 2026

UNICEF ætlar að gefa hundruð þúsunda barna á Gaza tækifæri til að læra
Lesa meira

23. janúar 2026

UNICEF fær loks að færa börnum á Gaza leikföng
Lesa meira

13. janúar 2026

UNICEF: Það er enn verið að drepa börn á Gaza þrátt fyrir vopnahlé
Lesa meira
Fara í fréttasafn