28. nóvember 2022

UNICEF fordæmir ofbeldisverk gegn börnum í Íran

„UNICEF fordæmir öll ofbeldisverk gegn börnum og krefst þess að tafarlaust verði látið af þeim í ljósi fregna að yfir 50 börn hafi látið lífið og enn fleiri særst í átökum innan Íran undanfarið.“ Þannig hefst yfirlýsing UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, vegna ástandsins í Íran.

„UNICEF hefur sömuleiðis þungar áhyggjur af áframhaldandi áhlaupum og leitum sem framkvæmdar hafa verið í skólum í landinu. Það er ófrávíkjanleg krafa að skólar séu öruggur staður fyrir börn. UNICEF hefur átt í beinum samskiptum við stjórnvöld í Íran og komið þessum áhyggjum á framfæri frá því fyrstu fregnir bárust af því að börn væru að láta lífið þar í landi.“

„Íran er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ber skylda til að virða, verja og viðhalda réttindum barna til lífs, einkalífs, skoðanafrelsis og friðsamlegra samkoma.“

„UNICEF brýnir fyrir stjórnvöldum að virða rétt allra barna til friðsamlegra samkoma– burtséð frá því hver eða hvaðan þau eru. Það sem barni er fyrir bestu ætti ávallt að vera í forgrunni allra aðgerða stjórnvalda sem bera að skapa öruggt umhverfi til að börn geti nýtt réttindi sín undir öllum kringumstæðum. Börn eiga að vera með fjölskyldum sínum, í samfélögum sínum og aldrei þar sem þau eru svipt þessum réttindum.“

„Við tökum enn á ný undir með Aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að „öryggissveitir haldi aftur af sér við óþarfa og óhóflega valdbeitingu í aðgerðum sínum.“ Börn og ungmenni þarf að vernda fyrir öllum þeim aðgerðum sem ógna lífi þeirra, frelsi, andlegri líðan og líkamlegri heilsu.“

„Of margir foreldrar hafa nú upplifað ólýsanlegan sársauka þess að missa barn í þessum átökum. Við vottum þeim öllum okkar dýpstu samúð, sem og ástvinum þeirra og nærsamfélögum.“

„UNICEF hefur starfað í Íran í nærri sjö áratugi við að styðja nauðsynlega þjónustu fyrir börn og unnið að réttindum þeirra til heilbrigðisþjónustu, næringar, menntun og barnavernd. Milljónir barna í Íran hafa notið góðs af þeirri vinnu og hún hjálpað þeim að dafna og blómstra sem einstaklingar á fullorðinsárum.“

„Íran er auðugt af ungu fólki og börnum sem þjóðin nýtur góðs af. Þarfir þeirra, langanir og velferð verður að vera sett í forgang undir öllum kringumstæðum.“

„UNICEF mun halda áfram vinnu sinni í landinu með viðeigandi stjórnvöldum, samstarfsaðilum og öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna til að styðja við og uppfylla réttinda allra barna og ungmenna í Íran.“

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn