Eftir 500 daga undir umsátursástandi hefur borgin Al Fasher í Norður-Darfur í Súdan orðið miðpunktur þjáningar barna, þar sem vannæring, sjúkdómar og ofbeldi kosta börn lífið á hverjum degi. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fjallar um hörmungarástand barna í Al Fasher í tilkynningu í dag.
Að minnsta kosti 600.000 manns – þar af helmingur börn – hafa verið hrakin á flótta frá Al Fasher og nærliggjandi flóttamannabúðum á síðustu mánuðum. Innan borgarinnar eru áætlað að 260.000 almennir borgarar, þar af 130.000 börn, séu enn föst í víglínu umsátursástands í borginni. Án aðgangs að neyðaraðstoð í meira en 16 mánuði.
„Við erum vitni að hrikalegri hörmung – börn í Al Fasher eru að svelta á meðan lífsnauðsynleg næringarþjónusta UNICEF er hindruð,“ sagði Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Að hindra mannúðaraðgang er alvarlegt brot á réttindum barna, og líf þeirra hangir á bláþræði. UNICEF heldur áfram að krefjast þess að fá tafarlausan og fullan aðgang að borginni. Að lengra vopnahlé verði gert svo hægt sé að ná til allra barna sem þurfa á hjálp að halda. Börn verða ávallt að njóta verndar og hafa aðgang að lífsnauðsynlegri aðstoð.“´
Ógn og dauði sem verður að stöðva
Síðan umsátrið um Al Fasher hófst í apríl 2024 hafa staðfestar tilkynningar borist um rúmlega þúsund morð og alvarleg brot gegn börnum í Al Fasher. alvarleg brot gegn börnum verið staðfest, þar af morð og limlestingar á rúmlega þúsund börnum
Í þessari viku bárust fregnir af enn einu fjöldamorðinu, þar sem sjö börn létu lífið í árás á Abu Shouk flóttamannabúðirnar, sem staðsettar eru í útjaðri Al Fasher.
Í Al Fasher hefur umsátur uppreisnarhersins RSF algjörlega lokað fyrir birgðaleiðir. Heilbrigðisstofnanir og hreyfanleg næringarteymi hafa neyðst til að stöðva þjónustu þar sem birgðir eru uppurnar og engar nýjar geta borist inn, sem skilur eftir um 6.000 börn með alvarlega bráða vannæringu (SAM) án meðferðar. Án næringarfæðis og læknismeðferðar standa þessi börn frammi fyrir margfalt aukinni hættu á dauða.
Heilbrigðis- og menntastofnanir hafa verið undir stöðugum árásum, þar sem 35 sjúkrahús og 6, þar á meðal nýburasjúkrahúsið Al Fasher Saudi Maternal Teaching Hospital sem var sprengt meira en tíu sinnum. Í janúar var heilbrigðismiðstöð fyrir vannærð börn í Abu Shouk-búðunum eyðilögð í sprengjuárás, með þeim afleiðingum að þúsundir barna voru svipt nauðsynlegri næringarmeðferð.
Börn svelta og bráðavannæring breiðist út
Á sama tíma breiðist bráðavannæring hratt út. Yfir 10.000 börn í Al Fasher hafa fengið meðferð við alvarlegri bráðavannæringu síðan í janúar, sem er nær tvöföldun miðað við sama tíma í fyrra. Nú hafa þó birgðir klárast og þjónustan stöðvast. Nýjustu fregnir greina frá að minnsta kosti 63 dauðsföllum – flest meðal kvenna og barna – úr vannæringu á einni viku.
Ástandið í nærliggjandi héruðum er einnig áhyggjuefni að sögn UNICEF; í júlí mældist bráðavannæring meðal 34,2% barna í Mellit-héraði – sem hýsir marga flóttamenn frá Al Fasher – sem er hæsta hlutfall frá upphafi núverandi borgarastyrjaldar í Súdan í apríl 2023.
Í ofanálag bætist svo versti kólerufaraldur í Súdan í áratugi. Síðan í júlí 2024 hafa verið skráð yfir 96.000 grunuð tilfelli og 2.400 dauðsföll á landsvísu, þar af nær 5.000 tilfelli og 98 dauðsföll í Darfur einu. Í yfirfullum flóttamannabúðum í kringum Tawila, Zamzam og Al Fasher eru vannærð börn nú sérstaklega viðkvæm fyrir banvænum og vatnsbornum smitsjúkdómum.
UNICEF endurtekur ákall sitt til stjórnvalda í Súdan og allra annarra aðila málsins um að tryggja varanlegan, óhindraðan og öruggan aðgang að börnum hvar sem þau eru í Súdan, þar á meðal:
- Tafarlaust og varanlegt mannúðarhlé í Al Fasher og öðrum átakasvæðum.
- Óhindraðan aðgang fyrir afhendingu næringarfæðu, lyfja, hreins vatns og annarra nauðsynja.
- Endurreisn og samfellu í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila á verst settu svæðunum.
- Vernd almennra borgara, þar á meðal barna, og vernd mikilvægra borgaralegra innviða í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög.