21. maí 2025

Að búa til pláss í 20 ár

Edda Hermannsdóttir, formaður stjórnar UNICEF á Íslandi, skrifar:

Í yfir 20 ára hafa Íslendingar aukið velferð barna í gegnum landsnefnd UNICEF sem fagnaði því stórafmæli á síðasta ári. Hugsjónastarf nokkurra framtakssamra einstaklinga hefur breyst í umfangsmikið innanlandsstarf og kröftuga fjáröflun sem bætir hag barna um allan heim. Á þessum tíma hafa kjarnaframlög frá almenningi og fyrirtækjum á Íslandi numið rúmum 6 milljörðum króna sem ráðstafað hefur verið til verkefna UNICEF og hefur Ísland oftar en ekki státað af hlutfallslega flestum Heimsforeldrum miðað við höfðatölu.

Bættur heimur með Heimsforeldrum

Hvert einasta framlag skiptir UNICEF máli en Heimsforeldrar skipa þar stóran sess. Í árslok 2024 voru Heimsforeldrar 24.000 talsins sem skiluðu 573 milljónum krónum í velferð barna af 849 milljón króna tekjum samtakanna í heild. Góður árangur náðist í samstarfi við Brandenburg þegar við hleyptum af stað nýju kynningarátaki með það að markmiði að bæði auka vitund Íslendinga á starfi UNICEF og fjölga Heimsforeldrum. Friðarferðin Búðu til pláss hefur fengið verðskuldaða athygli og náði bæði augum og eyrum. Hún náði hámarki sínu með sögulegum sjónvarpsviðburði á aðventunni þar sem allar sjónvarpsstöðvarnar héldu sameiginlegan söfnunarþátt enda sameiginlegt markmið okkar allra að huga að litla fólkinu okkar. Það hefur aldrei verið jafn skemmtilegt að svara í síma og þetta kvöld þegar yfir 2000 Heimsforeldrar bættust í hóp okkar mikilvægustu mánaðarlegu styrktaraðila. Átakið og söfnunarþátturinn eru ein stærstu og metnaðarfyllstu verkefni í 20 ára sögu landsnefndarinnar og vil ég fyrir hönd hennar færa öllum sem komu að gerð þáttarins, friðarferðarinnar, samstarfsaðilum og nýjum Heimsforeldrum okkar bestu þakkir.

Óvissutímar koma niður á börnum

Síðustu ár hafa verið krefjandi í alþjóðlegu samhengi þar sem heimsfaraldur, stríðsrekstur, há verðbólga og ólga í viðskiptaumhverfi koma niður á öllum, þar af verst á börnum. Það hefur því aldrei verið jafn mikilvægt að halda fjáröflun áfram af miklum krafti. Farsælt fyrirtækjasamstarf hefur verið heillavænlegt þar sem bæði fyrirtæki og landsnefndin hafa sameinað krafta sína í ákveðnum málum og í lok síðasta árs var haldinn áhugaverður fundur um hvernig fyrirtæki geta haft áhrif á börn í sínum rekstri. Hvernig horfa fyrirtæki á innkaup og aðfangakeðjur með hag barna í huga. Við munum halda þessu samtali áfram og halda áfram að vinna með fyrirtækjum að fjáröflun og vinna að betra umhverfi og lífi fyrir börn.

Öflugt innanlandsstarf

Ísland er ekki aðeins með heimsmet í Heimsforeldrum heldur er horft til okkar sem fyrirmyndar þegar kemur að öflugu innanlandsstarfi. Í árslok vann UNICEF með 119 leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum að innleiðingu Barnasáttmálans í starf sitt. Yfir 17.000 börn stunda nám í Réttindaskóla og -frístund og rúmlega helmingur barna á Íslandi býr í sveitarfélagi sem ýmist er eða vinnur að því að verða Barnvænt sveitarfélag. Við erum stolt af þessari vinnu og við þetta má bæta að landsnefndin fræðir þúsundir starfsmanna sveitarfélaga, skóla og frístundaheimila um Barnasáttmálann og réttindi barna.

Búum áfram til pláss

Í tvo áratugi hafa tugþúsundir landsmanna búið til pláss í hjartanu sínu fyrir réttindi og velferð milljóna barna um allan heim. Þessi stuðningur á heimsmælikvarða sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, nýtur er til marks um það traust sem almenningur, fyrirtæki og íslensk stjórnvöld bera til stofnunarinnar til að skila raunverulegum árangri í þágu barna og samfélaga. Í 20 ár höfum við í landsnefnd UNICEF á Íslandi aldrei tekið þessu trausti og stuðningi sem sjálfsögðum hlut og gert allt sem í okkar valdi stendur til að standa undir því. Við munum halda áfram að starfa af heilindum, fagmennsku, eldmóð og skilvirkni til að tryggja að eins mikið af hverri krónu sem gefin er til UNICEF skili sér til verkefna í þágu barna um allan heim þar sem þörfin er mest.

Án Heimsforeldra, stuðnings einstaklinga, fyrirtækja og íslenskra stjórnvalda og öflugrar landsnefndar væri ekkert af þessu mögulegt.

-------

Pistillinn birtist í ársskýrslu UNICEF á Íslandi fyrir árið 2024.

Fleiri
fréttir

21. maí 2025

Búðu til pláss– fyrir ársfund UNICEF á Íslandi 
Lesa meira

21. maí 2025

Búum til pláss fyrir framtíðina
Lesa meira

21. maí 2025

Að búa til pláss í 20 ár
Lesa meira
Fara í fréttasafn