Málþing UNICEF á Íslandi, Rauða krossins á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofu um stöðu og velferð barna á flótta fór fram í Norræna húsinu í gær að viðstöddu fjölmenni. Umræður voru virkilega góðar en meðal þess sem fjallað var um voru möguleg áhrif þeirra umfangsmiklu breytinga sem stjórnvöld hafa gert og boðað á þjónustu við fólk á flótta undanfarna mánuði. Öll sem tóku til máls á þinginu lýstu áhyggjum sínum af þessum breytingum og óttast afleiðingar þeirra á börn og ítreka að ætíð skuli standa styrkan vörð um velferð barna í viðkvæmri stöðu.
Óljós útfærsla og breytingar sem ekki eru börnunum fyrir bestu
Breytingarnar sem um ræðir eru að samningar við sveitarfélög, sem hafa þjónustað umsækjendur um alþjóðlega vernd, voru ekki endurnýjaðir fyrr á þessu ári. Fjölskyldum var áður forgangsraðað í þjónustu sveitarfélaga því þar er öll nauðsynleg þjónusta fyrir hendi og sérhæfðir málsstjórar sem tryggðu velferð þeirra. Samkvæmt nýju fyrirkomulagi verður öll þjónusta sem áður var á höndum sveitarfélaga nú á vegum Vinnumálastofnunar. Afleiðingin hefur meðal annars verið sú að tugir barna voru teknir úr leikskólum, börn á skólaaldri fara ekki lengur á frístundaheimili og hafa ekki aðgang að tómstundum. Þetta hafa UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofa gagnrýnt og þrátt fyrir að stjórnvöld hafi boðað aðgerðir til að koma til móts við börn bólar enn ekkert á þeim og óljóst með öllu að svo stöddu hvers eðlis þær aðgerðir verða.
Stjórnvöld ákváðu sömuleiðis að endurnýja ekki samning Vinnumálastofnunar við Rauða krossinn um félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hann rann því út í byrjun sumars.
Í farvatninu eru svo boðaðar breytingar á samræmdri mótttöku flóttafólks sem komið er með dvalarleyfi. Tilgangur þeirrar þjónustu er m.a. að tryggja að fólk á flótta fengi stuðning til að skapa sér nýtt líf á Íslandi. Sveitarfélög hafa sinnt þeirri þjónustu með samningi við ríkið. Samkvæmt áformum stjórnvalda sem voru kynnt fyrr í sumar stendur til að breyta þeirri þjónustu, en aftur er ekki ljóst hvað felst í þeim breytingum og hvaða áhrif þær munu hafa á börn.
Loks eru það áform um að útbúa svokallaða brottfararmiðstöð á landamærunum. Það yrði líka mikil breyting og ekki ljóst hvað stendur til að gera til að tryggja öryggi og velferð barna í þeim aðstæðum.
Áhrifamikil reynslusaga, réttindi barna og sjónarhorn þeirra sem með málin fara
Á málþinginu heyrðum við áhrifamikla reynslusögu frá Hadiu Rahman, nema frá Afganistan í Háskóla Íslands, þar sem hún lýsti hvað hún og fjölskylda hennar þurftu að ganga í gegnum til að komast frá heimalandinu til Íslands og þær áskoranir sem hún stóð frammi fyrir við komuna til landsins.
Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi, fór yfir réttindi barna á flótta með vísan í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Hilma Sigurðardóttir og Vilborg Pétursdóttir frá Reykjanesbæ fóru yfir reynslusögur af starfi sínu með fjölskyldum með flóttamannabakgrunn.
Pallborðsumræðum stýrði svo Eva Bjarnadóttir hjá UNICEF en í pallborði voru þau María Ingibjörg Kristjánsdóttir, félagsþjónustufulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Páll Ólafsson, framkvæmdarstjóri Farsældarsviðs hjá Barna- og fjölskyldustofu, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis hjá Velferðasviði Reykjanesbæjar, Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna og fjölskylduteymis hjá Velferðasviði Reykjanesbæjar og Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdarstjóri Barnaheilla.
Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi:
„Það eru blikur á lofti. Á síðustu mánuðum hafa stjórnvöld gert breytingar á þjónustu við fólk sem hingað hefur flúið. Frekari breytingar á þjónustunni eru í farvatninu. Alltaf þegar ákvarðanir er varða þennan málaflokk eru teknar þarf að muna að verið er að taka ákvarðanir er snerta örlög fólks. Fólks sem margt hvert hefur upplifað hörmungar. Misst ástvini. Misst heimili sín. Og í þessum hópi eru börn. Okkur ber sem manneskjum, sem samfélagi, að standa sérstakan vörð um velferð þeirra.“
Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri Farsældarsviðs hjá Barna- og fjölskyldustofu:
„Farsæld barna er fyrir öll börn á Íslandi, líka börn á flótta og börn sem hafa fengið hæli. Við megum ekki gleyma því að þetta eru börn á sérlega viðkvæmum stað – börn sem ákvarðanir stjórnvalda geta haft mikil og alvarleg áhrif á ef við vöndum okkur ekki. Við berum ábyrgð á öllum börnum ekki bara sumum.“
Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi:
„Öll börn hafa sömu þörf fyrir öruggt heimili, menntun, heilsuvernd og félagsleg tengsl. Sveitarfélög eru best búin til þess að sinna þessum grunnþörfum barna í þeirra nærumhverfi, og við eigum halda áfram að veita þjónustuna þar í stað þess að búa til kerfi til hliðar við samfélagið fyrir sum börn.”
Auk góðra gesta og fjölmennis í sal var streymt beint frá viðburðinum og er hægt að horfa á þetta mikilvæga og áhugaverða málþing í heild sinni hér.