20. júní 2023

Alþjóðadagur flóttafólks: Sögulegur fjöldi barna á flótta

43,3 milljónir barna á flótta í árslok 2022 – Alþjóðasamfélagið verður að gera betur

Fjölskylda í Hagarka-flóttamannabúðunum í Sómalíu.

Í árslok 2022 voru 43,3 milljónir barna á flótta í heiminum og hafa þau aldrei verið fleiri. Stríðsátök, þurrkar, náttúruhamfarir og annars konar áföll setja börn í mikla hættu og ógna rétti þeirra til menntunar, heilbrigðisþjónustu, næringar, öryggis og barnæsku. Mörg þessara barna hafa aldrei þekkt annað en líf á flótta fjarri heimkynnum sínum. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna varpar í dag ljósi á stöðu þessara barna á Alþjóðadegi flóttafólks.

Fjöldi barna sem neyðst hafa að flýja heimili sitt, hvort heldur sem er innan lands eða utan heimalandsins, hefur tvöfaldast síðasta áratuginn og fjöldinn vaxið miklu hraðar en viðbragð alþjóðasamfélagsins til að bregðast við og tryggja öryggi þeirra.

Nú síðast í liðinni viku fengum við þær skelfilegu fregnir að um hundrað börn á flótta voru um borð í bát sem hvolfdi undan ströndum Grikklands. Báturinn var að flytja fólk sjóleiðina til Evrópu og er talið að á bilinu 500-700 manns hafi verið um borð.

Neyðin er því mikil og börnin einn allra viðkvæmasti hópurinn á meðal þeirra sem neyðast til að flýja átök og aðrar hörmungar.

Skortur á pólitískum vilja til að gera betur

Af þeim 43,3 milljónum barna sem voru á flótta í árslok 2022 voru nærri 60% á vergangi innan heimalandsins vegna átaka. Og það sem verra er, þá er tímabil fólksflótta sífellt að lengjast. Flest börn sem eru á flótta í dag munu verja allri barnæsku sinni á vergangi ef fram heldur sem horfir með loftslagsbreytingar og hamfarahlýnun.

„Það þarf miklu öflugri pólitískan vilja til að taka á helstu orsökum fólksflótta og gera mun betur í að veita langtímalausnir í þágu velferðar barna á flótta,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

„Þegar fjöldi barna á flótta á heimsvísu eru orðinn á við mannfjölda ríkja á borð við Alsír, Argentínu eða Spánar, þá krefst það viðbragða frá alþjóðasamfélaginu í réttu hlutfalli við vandann. Við höfum séð sjálfbærar breytingar verða þegar stjórnvöld fjárfesta almennilega í aðlögun og þátttöku barna og fjölskyldna á flótta. Með samvinnu getum við tryggt öryggi þeirra, heilsu, menntun og vernd,“ bætir Russell við. 

Í tilefni Alþjóðadags fólks á flótta sendir UNICEF ákall til stjórnvalda allra þjóða um að skilja ekkert barn eftir með því meðal annars að: 

  • Að viðurkenna börn á flótta eða í leit að hæli sem börn fyrst og fremst með öllum þeim réttindum til verndar, aðlögunar og þátttöku sem því tilheyrir.
  • Að veita örugga og löglegar leiðir fyrir börn til að ferðast, leita hælis og sameinast fjölskyldum á ný.
  • Tryggja að ekkert barn sé haft í haldi vegna stöðu þess sem manneskja í leit að hæli eða vernd eða þau send úr landi án þess að tryggt sé í einu og öllu að það sé barninu fyrir bestu.
  • Efla grunnstoðir í menntakerfinu, heilbrigðiskerfi, barnavernd og félagsmála til að tryggja þátttöku og aðlögun barna á flótta án mismununar.
Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn