06. ágúst 2025

Átakanlegar sögur frá Súdan: „Börn orðin lítið nema skinn og bein“

Sheldon Yett, fulltrúi UNICEF í Súdan, lýsir upplifun sinni af nýlegri heimsókn.

Börn og mæður fá heilbrigðisþjónustu í Abu Senon heilsugæslumiðstöðinni í Aj Jazirah. Mynd: UNICEF/UNI842699/Isamaldeen

„Síðustu viku ferðaðist ég frá Port Súdan til Aj Jazeera og Khartoum-fylkja og varð vitni að áhrifum þessarar krísu – stærstu mannúðarkrísu heims – á börn og fjölskyldur.

„Í ferðinni sá ég heimili, hús og byggingar sem höfðu verið eyðilögð. Ég sá vöruhús UNICEF í Khartoum orðin að rústum. Mannúðaraðstoðin sem þar var geymd hefur verið eyðilögð. Ég sá rótlaus samfélög og börn sem höfðu neyðst til að flýja og búa nú í yfirfullum hverfum.

„Ég hitti mæður sem höfðu gengið langar vegalengdir í leit að öryggi og heilbrigðisstarfsfólk sem sinnti veikum og vannærðum einstaklingum við erfiðar og hættulegar aðstæður. Ég sá líka hvernig teymi okkar og samstarfsaðilar unnu sleitulaust – oft við hættulegar og ófyrirsjáanlegar aðstæður – til að halda áfram að veita lífsbjargandi aðstoð.

„Ég heimsótti Jebel Aulia, eitt af tveimur héruðum í Khartoum-fylki sem talin eru í mestri hættu á hungursneyð.

„Í Jebel Aulia og Khartoum-héruðunum búa 37% þeirra sem glíma við vannæringu í fylkinu. Þessi héruð eru einnig þau sem verst hafa orðið fyrir barðinu á áframhaldandi átökum, ofbeldisverkum og aðgangshindrunum. Ég varð vitni að því beint hvernig börn hafa takmarkaðan, en þó vaxandi, aðgang að hreinu vatni, mat, heilbrigðisþjónustu og námi. Vannæring er mjög algeng og mörg barnanna eru orðin lítið meira en skinn og bein. Börn og fjölskyldur búa oft í litlum, skemmdum eða ófullgerðum byggingum. Vegirnir eru þröngir, leðjukenndir og illfærir – versna með áframhaldandi rigningatíð.

„Kólera hefur breiðst hratt út í þessu hverfi. Þær fáu heilbrigðis- og næringarstöðvar sem enn starfa þar eru yfirfullar.

„Við og samstarfsaðilar okkar gerum allt sem í okkar valdi stendur. Öryggisástandið er ótryggt en hefur batnað. Eftir margra mánaða vinnu höfum við loksins aðgang að samfélaginu og höldum áfram að styðja við heilbrigðis- og næringarþjónustu, vatns- og hreinlætisverkefni og dreifingu lífsnauðsynlegra birgða þar sem þörfin er mest. Við erum líka að skapa örugg svæði fyrir börn til að læra, leika og vinna úr áföllum. En umfangið er yfirþyrmandi og við og samstarfsaðilar okkar erum að vinna á mörkum getu okkar.

„Þetta á því miður við um allt landið, þar sem ástandið versnar hratt. Börn deyja úr hungri, sjúkdómum og beinu ofbeldi. Þau hafa verið svipt þeirri þjónustu sem gæti bjargað lífi þeirra.

„Þetta er ekki ímyndun. Þetta eru yfirvofandi hörmungar. Við erum á barmi óafturkræfs skaða fyrir heila kynslóð barna – ekki vegna þess að okkur skortir þekkingu eða úrræði til að bjarga þeim – heldur vegna þess að við, saman sem alþjóðasamfélag, grípum ekki til aðgerða í þeim mæli sem þessi krísa kallar á. Við verðum að fá aðgang að þessum börnum.

„Vegna nýlegra fjárveitingaskerðinga hafa margir samstarfsaðila okkar í Khartoum-fylki og víðar í Súdan neyðst til að draga úr starfsemi sinni. Við reynum að bæta upp það sem við getum – en við getum ekki gert þetta ein.

„Við þurfum fjármagn og stöðugan aðgang til að geta hraðað aðstoð þar sem við höfum nú loksins aðgang. Sögulegur fjöldi barna barna sem er að fá meðferð við bráðavannæringu í Jebel Aulia og stórum svæðum í Aj Jazeera sýnir skýrt hversu gríðarleg þörfin er.

„Við verðum að auka við lífsbjargandi þjónustu fyrir börn og það hratt. Til þess þurfum við öruggt og stöðugt aðgengi að börnunum, hvar sem þau eru.

„Þetta er sérstaklega mikilvægt á þeim svæðum sem liggja á átakasvæðum og eru enn algjörlega lokuð fyrir hjálp – á borð við Al Fasher, Dilling og Kadugli. Hver dagur án aðgengis að þessum svæðum setur líf barna í aukna hættu.

„Eins og ein móðir sagði við okkur: „Frá því stríðið hófst hefur dóttir mín lokað sig af í þögn og ég finn hjarta hennar slá af ótta.“

„Orð hennar eru hrollvekjandi áminning um þau ósýnilegu sár sem þetta stríð skilur eftir á börnum í Súdan.

„Í þessari ferð, ári eftir að ég hóf störf í Súdan, hef ég séð það versta sem stríð getur gert – og það besta sem mannkynið getur gert til að bregðast við. Börn í Súdan eru þrautseig. Þau hafa þolað stríð í yfir tvö ár. En þau geta ekki lifað án aðstoðar.

„Við köllum áfram eftir frið. Og á meðan átök vara, verðum við öll að gera allt sem við getum til að styðja börn – við megum ekki láta þau gjalda mest fyrir þetta stríð.

„Heimsbyggðin má ekki líta undan. Ekki núna.“

Fleiri
fréttir

06. ágúst 2025

Átakanlegar sögur frá Súdan: „Börn orðin lítið nema skinn og bein“
Lesa meira

05. ágúst 2025

Hungur, sjúkdómar og ofbeldi ógna lífi barna í Súdan
Lesa meira

08. júlí 2025

Stöðvum hel­víti á jörðu
Lesa meira
Fara í fréttasafn