10. janúar 2023

Barn eða ungmenni lét lífið á 4 sekúndna fresti árið 2021

Áætlað að fimm milljónir barna undir fimm ára aldri hafi látið lífið það ár– Mörg dauðsföll sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir

Áætlað er að fimm milljónir barna undir fimm ára aldri hafi látið lífið á árinu 2021 samkvæmt nýrri skýrslu UN IGME (United Nations Inter-agency Group for Child Mortality Estimation) sem birt var í dag. Þar segir enn fremur að 2,1 milljónir barna og ungmenna á aldrinum 5-24 ára hafi látið lífið það ár og  1,9 milljón börn til viðbótar fæddust andvana. Mörg þessara dauðsfalla hefði verið hægt að koma í veg fyrir. 

„Á hverjum degi standa allt of margir foreldrar frammi fyrir þeir martröð að missa barn,“ segir Vidhya Ganesh, gagnagreiningastjóri hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. „Við ættum aldrei að sætta okkur við harmleiki sem þessa sem óumflýjanlega þegar hægt er að kom í veg fyrir að þeir eigi sér stað. Við getum vel náð árangri en til þess þarf raunverulegan pólitískan vilja og markvissa fjárfestingu í réttlátu aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir öll börn og konur.“

Mikill árangur náðst

Skýrslan sýnir einnig jákvæð teikn um lægri hættu á ótímabæru andláti í öllum aldurshópum á heimsvísu frá árinu 2000. Alþjóðlega hefur hlutfall barna sem láta lífið fyrir fimm ára aldur lækkað um 50 prósent frá upphafi aldarinnar og hjá eldri börnum hefur hlutfallið lækkað um 36 prósent. Hlutfall andvana fæddra barna lækkaði um 35 prósent á sama tíma. Þetta sýnir að árangur hefur náðst og er rakið til aukinnar fjárfestingar í að styrkja grunnheilbrigðiskerfi með þarfir kvenna, barna og ungmenna í huga.

Hægt á jákvæðri þróun frá 2010

Þó er bent á að verulega hægðist á þessum árangri frá árinu 2010 og 54 ríki munu að óbreyttu ekki ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er varðar dánartíðni barna undir fimm ára aldri. Skýrslan varar við því að ef ekki verður ráðist í tafarlausar aðgerðir til að bæta heilbrigðisþjónustu muni nærri 59 milljónir barna og ungmenna láta lífið fyrir árið 2030 og 16 milljónir barna fæðast andvana.

„Það er gríðarlegt ójafnrétti að lífslíkur barna ráðist einungis af því hvar þau fæddust í heiminum og þau búi ekki við réttindi til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu,“ segir Dr. Anshu Banerjee, yfirmaður Maternal, Newborn, Child and Adolescent Health and Ageing hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO). „Öll börn, alls staðar, þurfa á sterkri grunnheilbrigðisþjónustu að halda sem mætir þörfum þeirra og fjölskyldna þeirra.“

Heilbrigðisþjónusta er besta fjárfestingin

Í skýrslunni kemur fram að ástandið hvað þetta varðar sé verst í ríkjum Afríku neðan Sahara og í suðurhluta Asíu. Í Afríkuríkjunum (sub-Saharan Africa) fæddust aðeins 29 prósent allra barna í heiminum en þangað má rekja 56 prósent allra andláta barna undir fimm ára aldri árið 2021. Í Suður-Asíu er hlutfallið 26 prósent. Börn sem fæðast í ríkjum Afríku neðan Sahara eru fimmtánfalt líklegri til að deyja á fyrstu árum ævi sinnar en börn sem fæðast í Evrópu og Norður-Ameríku.

„Að baki þessum tölum eru milljónir barna og fjölskyldna sem búa ekki við réttindi sín til grunnheilbrigðisþjónustu,“ segir Juan Pablo Uribe, yfirmaður Health, Nutrition og Population hjá Alþjóðabankanum. „Við þurfum pólitískan vilja til að ráðast í bestu fjárfestingu sem ríki og samstarfsaðilar þeirra geta ráðist í, sem er í bættu heilbrigðiskerfi.“

 Ofangreinda skýrslu má lesa í heild sinni hér.

Um UN IGME

Var stofnað árið 2004 til að taka saman, halda utan um, bæta og deila gögnum um dánartíðni barna í heiminum. Stofnunin er leidd af UNICEF, WHO, World Bank og United Nations Department of Economic and Social Affairs, Population Division.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn