Föstudaginn 19. september hittust fulltrúar félagasamtakanna í Barnaréttindavaktinni og talsmenn barna á Alþingi á morgunfundi í Smiðju. Á fundinn mættu talsmenn barna úr fjórum þingflokkum; Halla Hrund Logadóttir kom fyrir hönd Framsóknar, Guðmundur Ari Sigurjónsson fyrir Samfylkinguna, Bryndís Haraldsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og María Rut Kristinsdóttir fyrir Viðreisn.
Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri Innanlandsteymis UNICEF á Íslandi, stýrði fundinum. Hjördís Freyja Kjartansdóttir, ungmenni í stjórn UNICEF á Íslandi, hélt gott erindi þar sem hún brýndi fyrir talsmönnum barna mikilvægi þess að börn taki þátt í ákvarðanatöku í málum sem þau varðar, ásamt því að minna öll á hvað börn eru stór og fjölbreyttur hópur.
Tótla I. Sæmundsdóttir fór að lokum yfir fjölmörg mál sem talsmenn barna hafa náð í gegn á Alþingi, ásamt þeim málum sem varða börn og eru á dagskrá í vetur. Fundurinn endaði á góðu samtali um samstarfið milli talsmanna barna og Barnaréttindavaktarinnar og þau verkefni sem framundan eru á þessum þingvetri.
Við þökkum öllum þeim sem komu á fundinn kærlega fyrir þátttökuna og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.