03. október 2025

Berfætt, banhungruð og særð börn í grjótmulningum Gaza-borgar

James Elder, talsmaður UNICEF, talar frá Gaza-borg

James Elder flutti áhrifamikið ávarp frá Gaza-borg á blaðamannafundi í Genf í dag. Myndin er frá fyrri sendiförum Elders til Gaza. Mynd: UNICEF/UNI544731/Alhaw

Eftirfarandi er þýðing og samantekt á ávarpi James Elder, talsmanns UNICEF, á blaðamannafundi í dag þar sem hann er staddur Gaza-ströndinni.

 

„Í Gaza-borg búa en tugir þúsunda barna. Berfætt börn ýta hjólastólum ömmu sinnar og afa í gegnum grjótmulning og rústir. Börn sem misst hafa útlim, erfiða í gegnum rykið. Mæður bera börn sem blæðir úr hræðilegum útbrotum. Hvert sem litið er hrökkva börn við undan látum frá linnulausum loftárásum. Þau horfa til himins að fylgjast með skothríðinni.“

„Spurningin sem ég er spurður hvert sem ég fer í Gaza-borg: Hvert get ég farið þar sem er öruggt að vera?

„Og svarið er það sama og það hefur verið í nærri tvö ár. Hvergi.

„Það er hvergi öruggt að vera á Gaza-ströndinni.

„En þrátt fyrir það þá hefur 200 þúsund óbreyttum borgurum í dag verið sagt að yfirgefa Gaza-borg, til viðbótar við þau 400 þúsund sem neyðst hafa til að flýja suður nú þegar. Á einu sjúkrahúsi í Gaza-borg sem ég heimsótti í gær er tekið á móti 60-80 börnum á hverjum einasta degi vegna vannæringar og veikinda.

„Gjörgæsludeild fyrir nýbura á Al Helou-sjúkrahúsinu er yfirfullt. Það sjúkrahús varð fyrir árás í síðustu viku.

„Rökfræðin sem íbúar Gaza búa við er bæði hrottaleg og mótsagnarkennd. Norðrinu hefur verið lýst sem óvinveittu landsvæði: Þau sem eftir hafa stöðu grunaðra. Höfum eitt alveg á hreinu. Að gefa út og skipa almennum borgurum að rýma svæði gerir það ekki að verkum að þau sem eftir eru missi skyndilega réttindi sín til verndar sem almennir borgarar.

„Suðrið, hið svokallaða „örugga svæði“ er líka dauðagildra. Al-Mawasi, sem nú er eitt þéttbýlasta svæði jarðar, er hryllilega ofsetið og svipt grunnforsendum lífsafkomu. Áttatíu og fimm prósent fjölskyldna búa innan tíu metra frá opnum frárennslisskurðum, dýraúrgangi, sorphaugum, stöðnu vatni eða nagdýrafaraldri. Tveir þriðju hafa engan aðgang að sápu. Ég talaði við tugi manna í Gaza-borg sem allir sögðu hið sama: Þau hafa ekki peninga til að flytja; ekkert pláss né tjöld til að setja upp, og að suðrið sé líka hættulegt.

„Í raun er hugmyndin um „örugg svæði“ í suðri fáránleg — sprengjum er varpað af himnum af kaldranalegum fyrirsjáanleika. Skólar sem nýttir eru sem bráðabirgðaskjól eru reglulega lagðir í rúst. Tjöld sem reist eru á auðum svæðum veita enga vörn gegn sprengjubrotum. Og þau verða gjarnan alelda í loftárásum.

„Fyrir tveimur dögum hitti ég börn á Nasser-sjúkrahúsinu sem hafa lamast, brunnið eða misst útlimi eftir beina árás á tjöld, allt um það bil klukkan tvö að nóttu til. Nokkrum dögum fyrr, á Al Aqsa-sjúkrahúsinu, hitti ég mörg börn sem höfðu verið skotin af fjórþyrludrónum.

„Þegar heimurinn venst og normaliserar þetta ofbeldis- og neyðarástand þá er eitthvað verulega mikið að. Styrkur alþjóðalaga felst ekki í orðum á pappír, heldur í ákvörðun ríkja um að framfylgja þeim.

„Á sama tíma hefur staðan fyrir mæður og nýbura aldrei verið verri.

„Í Nasser eru sjúkrahúsgangarnir þaktir konum sem nýlega hafa fætt börn. Í sex ferðum mínum til Gaza hef ég aldrei séð þetta svona. Nýbakaðar mæður og viðkvæmir nýburar liggja á gólfinu. Þrjú fyrirburabörn deila einu súrefnistæki — hvert barn andar í tuttugu mínútur áður en það víkur fyrir því næsta. Fyrirburi, Nada, sem var á gjörgæslu í 21 dag, er útskrifuð og liggur nú úti á ganginum með móður sinni. Nada vegur tvö kíló, minna en helming af því sem hún ætti að vega.

„Konur missa fóstur á þreytandi göngu frá norðri til suðurs. Læknar óttast að vetrarveirur hafi komið fyrr en venjulega. Skýrslur greina frá því að 1.000 ungabörn hafi verið drepin á undanförnum tveimur árum, og við vitum ekki hve mörg til viðbótar hafa dáið úr sjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir.

„Á meðan framkvæma framlínu- og heilbrigðisstarfsmenn hið ómögulega. UNICEF og samstarfsaðilar okkar halda áfram að útvega vannærðum börnum í Gaza-borg næringarfæði, á sama tíma og viðgerðir eru gerðar á vatnslínum víðs vegar um Gaza; veitt er fjárhagsaðstoð; áfallahjálp; og afhent lífsnauðsynleg tæki fyrir nýbura á sjúkrahúsum, geðheilbrigðisstuðningur og sorphreinsun. En þar til allar hindranir eru fjarlægðar af flutningi og dreifingu mannúðaraðstoðar mun framboð lífsbjargandi aðstoðar áfram vera hörmulega ófullnægjandi.

„Fréttamenn í þessum fjölmiðlasal hafa í tugi skipta hlustað á UNICEF flytja skýrslur hér frá því að við‘ sáum fyrst eyðilegginguna á Gaza. Síðan þá höfum við greint frá stríðinu gegn börnum, hungursneyð og mænusótt. Alltaf og aðeins með vísan í gögn og staðreyndir. Samt hafa hlutirnir bara versnað með hverjum deginum.

„Allir bera einhverja ábyrgð á þessu, en það er aðeins eitt fórnarlamb. Í gær, dag og á morgun eru það Börn í Palestínu.

---

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza.


Fleiri
fréttir

03. október 2025

Berfætt, banhungruð og særð börn í grjótmulningum Gaza-borgar
Lesa meira

24. september 2025

Ebólafaraldur í Kongó: UNICEF dreifir bóluefnum
Lesa meira

23. september 2025

Barnaréttindavaktin fundaði með talsmönnum barna á Alþingi
Lesa meira
Fara í fréttasafn