21. maí 2025

Búðu til pláss– fyrir ársfund UNICEF á Íslandi 

Ársfundur UNICEF á Íslandi fór fram í dag –Ársskýrslan 2024 komin út – Fjáröflunartekjur námu 727 milljónum króna – Framlög landsnefndar UNICEF á Íslandi í heimsklassa 

Stjórn UNICEF á Íslandi skipa: Auður Tinna Aðalbjarnadóttir, Edda Hermannsdóttir, formaður stjórnar, Guðrún Pétursdóttir, Gunnar Helgason, Hjörleifur Pálsson, varaformaður stjórnar, Tatjana Latinovic, Hjördís Freyja Kjartansdóttir og Brynjar Bragi Einarsson, áheyrnarfulltrúi ungmennaráðs. Á myndinni er einnig Jón Magnús Kristjánsson, fráfarandi stjórnarmaður, og Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri. Á myndina vantar Bjarna Ármannsson. Mynd: UNICEF/Laufey

Í dag fór ársfundur UNICEF á Íslandi fram þar sem uppgjör ársins 2024 var birt auk þess sem ársskýrsla landsnefndarinnar kom út. Á árinu fögnuðum við 20 ára afmæli landsnefndar UNICEF á Íslandi og var árið því bæði viðburðaríkt og fullt af metnaðarfullum verkefnum. Hápunktur þessara stóru verkefna var án vafa söfnunarþátturinn Búðu til pláss, sem sýndur var í beinni útsendingu á RÚV, Stöð 2 og í Sjónvarpi Símans þann 6. desember síðastliðinn, þar sem ríflega 2.000 nýir Heimsforeldrar skráðu sig sem mánaðarlega styrktaraðila UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.  

Stuðningur Heimsforeldra í heimsklassa  

Heildartekjur UNICEF á Íslandi á árinu 2024 voru 849 milljónir og þar af voru söfnunartekjur 727 milljónir. Tæp 68% af heildartekjum komu frá Heimsforeldrum sem í árslok 2024 voru 24 þúsund talsins.  

Framlag landsnefndarinnar til verkefna UNICEF er hæst allra landsnefnda miðað við höfðatölu og er það ómetanlegum stuðningi Heimsforeldra, almennings og fyrirtækja að þakka. Einnig eigum við sem fyrr einn mesta fjölda Heimsforeldra allra landsnefnda í heiminum miðað við höfðatölu. 

Stærstum hluta, eða tæpum 489 milljónum króna, var varið til reglubundins hjálparstarfs UNICEF í þeim löndum þar sem þörfin er mest. Tæpri 31 milljón var varið til neyðar- og uppbyggingarverkefna, tæpum 79 milljónum króna var varið til verkefna innanlands, við réttindagæslu, réttindafræðslu og innleiðingu barnvænna sveitarfélaga, í góðu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið. 

Fjáröflun: Mikill stuðningur við börn á Gaza 

Árið 2024 var því miður erfitt fyrir börn víða um heim. Milljónir barna upplifðu hungur, ofbeldi og ótta og nauðungarflutninga vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara. Að vanda stóð UNICEF á Íslandi fyrir mörgum neyðarsöfnunum á árinu til að bregðast við og styðja verkefni og viðbragð UNICEF í þágu barna í Palestínu, Úkraínu, Súdan, Sýrlandi, Jemen og Afganistan. Á árinu söfnuðust rúmlega 28,3 milljónir króna í neyðarsafnanir en rúmlega 81% gáfu landsmenn í neyðarsöfnun okkar fyrir börn á Gaza-strönd Palestínu.  

Landsmenn héldu áfram að styðja við réttindi og velferð barna með kaupum á Sönnum gjöfum við hin ýmsu tilefni á árinu en þar söfnuðust ríflega 17.2 milljónir króna. Landsnefndin fór einnig af stað með nýja fjáröflunarleið, Loftslagsloforð UNICEF, sem sniðin er að litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og gefur þeim vettvang og tækifæri til að styðja við velferð og réttindi barna tengd loftslagsmálum um allan heim.  

Áframhald var á góðu samstarfi okkar við hin ýmsu fyrirtæki á Íslandi og stuðningi þeirra við bæði verkefni landsnefndarinnar og UNICEF um allan heim. Færum við Rauðás ehf, BM Vallá, Lindex, Alvotech, Controlant, Tennin, Kviku banka, IKEA, Krónunni, Toyota á Íslandi, Smáralind og öllum þeim fjölmörgu öðrum fyrirtækjum og samstarfsaðilum sem studdu UNICEF á Íslandi á árinu kærar þakkir fyrir framlag þeirra til barna um allan heim.  

Búðu til pláss: Friðarferð og sögulegur sjónvarpsþáttur 

Sá stuðningur var hvergi meira áberandi en þegar við fórum af stað með friðarferðina Búðu til pláss. Við tölum um „friðarferð“ í þessu samhengi enda er það meira viðeigandi í okkar tilfelli en að tala um herferð. Auglýsinga- og kynningarátakið var unnið í samstarfi við Brandenburg til að auka vitund landsmanna á starfi UNICEF og fjölga í hópi Heimsforeldra. Aðalauglýsing friðarferðarinnar var unnin í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Sensor, leikstýrt af Erlendi Sveinssyni, framleidd af Kára Úlfssyni og komu 20 börn að gerð hennar sem aðalleikarar og fluttu ljóðið Pláss eftir Braga Valdimar Skúlason. Af þessu tilefni var einnig framleitt og gefið út lagið Gefðu þeim pláss, við texta úr áðurnefndu ljóði, sem flutt var af DíSU og Memfismafíunni og má finna það fallega og hugljúfa lag á Spotify. 

Skilaboð Búðu til pláss voru einföld; Búðu til pláss í hjartanu þínu fyrir öll börn, sama hver þau eru og í hvaða aðstæðum þau kunna að vera. Þetta kjarnar að okkar mati fullkomlega þá afstöðu sem allir Heimsforeldrar taka með því að styrkja UNICEF.  

Yfirskriftin að „Búa til pláss“ opnaði líka á fleiri möguleika, meðal annars í samstarfi við hin ýmsu fyrirtæki sem bjuggu til pláss í verslunum sínum, almannarými og auglýsingum til að vekja athygli á kynningarefni átaksins.  

Friðarferðin náði svo sem fyrr segir hápunkti sínum með samnefndum sögulegum sjónvarpsviðburði þann 6. desember þar sem þjóðin bjó sannarlega til pláss í hjartanu sínu fyrir öll börn og hjálpaði okkur að ná markmiði okkar í Heimsforeldraskráningum. Fá RÚV, Sýn og Síminn sérstakar þakkir fyrir sögulegt samstarf sitt við okkur til að láta þáttinn verða að veruleika.

 

Innanlandsverkefni: Réttindi barna ofar öllu 

Árið var viðburðaríkt í innanlandsstarfi UNICEF á Íslandi. Stórum áfanga var náð þegar Réttindaskólum á leikskólastigi var ýtt úr vör eftir nokkurra ára þróunarstarf. UNICEF og Barna- og fjölskyldustofa stofnuðu til tímamótasamstarfs um útgáfu handbókar um innleiðingu laga um samþættingu þjónustu fyrir börn. Samstarf við börn og ungmenni um málefni sem eru þeim hugleikin hélt áfram og yfir tvö þúsund starfsmenn sveitarfélaga fengu barnaréttindafræðslu. 

Á árinu var samningur UNICEF á Íslandi og mennta- og barnamálaráðuneytisins um innleiðingu Barnasáttmálans í sveitarfélögum, skólum og frístund framlengdur. Samningurinn er hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Barnasáttmálans.  

Heildarfjöldi sveitarfélaga sem innleiddu Barnasáttmálann í samstarfi við UNICEF á árinu voru 23 og þar af tvö sveitarfélög, Akureyri og Kópavogur, sem hafa fengið viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga og endurnýjað hana. Búist er við að 5 – 8 ný sveitarfélög hljóti viðurkenningu á árinu 2025. Rúmlega helmingur barna á Íslandi býr nú í sveitarfélagi sem innleiðir Barnasáttmálann í samstarfi við UNICEF. 

Réttindaskólum á leikskólastigi var formlega ýtt úr vör á árinu eftir nokkurra ára þróunarstarf í samstarfi við 15 leikskóla í þremur sveitarfélögum, rannsakendur í leikskólafræðum frá Háskóla Íslands og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Í lok árs vann UNICEF með 119 leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum að innleiðingu Barnasáttmálans. Þar af höfðu 56 hlotið viðurkenningu Réttindaskóla og -frístundar og 63 sem vinna að viðurkenningu. Samtals 17.237 börn á aldrinum 1 – 15 ára sækja nú nám í Réttindaskóla og -frístund, eða rúmlega 30% grunnskólabarna landsins og 12% leikskólabarna. 

Hér er aðeins stiklað á stóru í starfi síðasta árs og hvetjum við öll til að lesa nánar um uppgjör, afrakstur og árangur ársins hjá landsnefnd UNICEF á Íslandi í nýútkominni ársskýrslu okkar sem nálgast má hér.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

Landsnefnd UNICEF á Íslandi fagnaði 20 ára starfsafmæli í fyrra. Þessi yngsta landsnefnd UNICEF í heiminum er fyrir löngu búin að skapa sér sérstöðu, hér heima og erlendis, og því var vel við hæfi að fagna tímamótunum með krafti á öllum vígstöðvum: fjáröflun, réttindafræðslu, kynningar- og málsvarastarfi. Slagkraftur liðins árs hvíldi á dýrmætu framlagi svo margra, sem bjuggu til pláss fyrir málstað UNICEF, hvert á sinn hátt. Þið vitið hver þið eruð og við þökkum frá hjartarótum. Við fögnum árangrinum sem náðist en það veitir heldur ekki af; árið 2024 var versta árið fyrir börn í tæplega 80 ára sögu UNICEF. Landsnefndin heldur ótrauð áfram og upp á við, í samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki og stjórnvöld, til að ná árangri fyrir börn og réttindi þeirra. 

 

Stjórn UNICEF á Íslandi  

Aðalfundur UNICEF á Íslandi var haldinn samdægurs ársfundinum. Breytingar á skipan stjórnar voru þær að Bjarni Ármannsson, fjárfestir, kom nýr inn í stjórn í stað Jóns Magnúsar Kristjánssonar, bráðalæknis.  Edda Hermannsdóttir er áfram formaður stjórnar og Hjörleifur Pálsson varaformaður. 

Stjórn UNICEF á Íslandi er nú þannig skipuð: 

Auður Tinna Aðalbjarnadóttir, lögfræðingur 

Bjarni Ármannson, fjárfestir 

Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Íslandsbanka 

Guðrún Pétursdóttir, lífeðlisfræðingur 

Gunnar Helgason, rithöfundur og leikari 

Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður Festi 

Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri 

Tatjana Latinovic, framkvæmdastjóri hugverkadeildar Össurar 

Auk þeirra skipar ungmennaráð UNICEF einn fulltrúa í stjórn og formaður ungmennaráðs hefur áheyrnarrétt. 

Á ársfundinum voru Jóni Magnúsi, Hjördísi Freyju Kjartansdóttur, stjórnarfulltrúa ungmennaráðs og Brynjari Braga Einarssyni, formanni ungmennaráðs og áheyrnarfulltrúa í stjórn færðar þakkir fyrir ötult starf þeirra í þágu landsnefndar UNICEF og réttinda barna. 

 -------------- 

Ársskýrslu UNICEF á Íslandi fyrir árið 2024 má nálgast hér. 

Fleiri
fréttir

21. maí 2025

Búðu til pláss– fyrir ársfund UNICEF á Íslandi 
Lesa meira

21. maí 2025

Búum til pláss fyrir framtíðina
Lesa meira

21. maí 2025

Að búa til pláss í 20 ár
Lesa meira
Fara í fréttasafn