24. september 2025

Ebólafaraldur í Kongó: UNICEF dreifir bóluefnum

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er nú að flytja nærri 45 þúsund skammta af bóluefni við ebólaveirunni til Kasai-héraðs í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. UNICEF vinnur nú hörðum höndum að því ásamt stjórnvöldum og samstarfsaðilum að auka viðbragð við útbreiðslu ebólaveirunnar og vernda börn og fjölskyldur.

Síðan ebólafaraldri var formlega lýst yfir hafa 47 grunuð og staðfest tilfelli komið upp, þar af fjórtán meðal barna. 25 einstaklingar hafa þegar látið lífið, þar af tólf börn.

„Hver skammtur sem við afhendum er skref í átt að því að tryggja öryggi barna og fjölskyldna þeirra,“ segir John Agbor, fulltrúi UNICEF í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

„Bóluefni eru öflugustu verkfærin sem við eigum í þessari baráttu gegn ebólaveirunni sem stjórnvöld fara fyrir. En börn þurfa einnig læknisaðstoð ef svo fer að þau verði veik og stuðning til að takast á við áföll, örugg svæði til að læra og leika sér og leiðbeiningar fyrir fjölskyldur um hvernig best er að verjast sjúkdómnum.“

Auk þess að útvega og dreifa bóluefnum er UNICEF einnig að styðja þessi síðastnefndu atriði sem ekki síður eru mikilvæg. Veita stuðning við sjúklinga og heilbrigðisþjónustuna, barnvæn svæði og fræðslu fyrir fjölskyldur. Sérhæfð teymi eru svo að veita sálrænan stuðning og barnavernd.

Þetta er sextándi ebólafaraldurinn í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongo síðan vírusinn var fyrst uppgötvaður árið 1976. Sá síðasti var einmitt í Kasai árin 2008-2009. Þetta er eitt viðkvæmasta hérað landsins þar sem heilbrigðisinnviðir eru veikburða, aðgengi að hreinu drykkjarvatni takmarkað, skortur á lyfjum og fullnægjandi hreinlætisaðstöðu sem setja börn og fjölskyldur í aukna áhættu.


Fleiri
fréttir

24. september 2025

Ebólafaraldur í Kongó: UNICEF dreifir bóluefnum
Lesa meira

23. september 2025

Barnaréttindavaktin fundaði með talsmönnum barna á Alþingi
Lesa meira

17. september 2025

Fordæmir fjögurra ára menntaútlegð unglingsstúlkna í Afganistan
Lesa meira
Fara í fréttasafn