26. september 2024

Frekari stigmögnun mun kalla hörmungar yfir börn í Líbanon

UNICEF hefur unnið að því að styðja við og vernda börn í Líbanon í 76 ár og mun hvergi hvika í því verkefni sínu núna.

„Öll frekari stigmögnun átaka núna mun hafa hörmungar í för með sér fyrir öll börn í Líbanon, en sérstaklega fjölskyldur í þorpum og bæjum í suðurhlutanum og í Beeka í austurhluta Líbanon sem þegar hafa neyðst til að flýja heimili sín,“ segir Ettie Higgins, fulltrúi UNICEF í Líbanon. Nú þegar hafa 50 börn látið lífið í hernaðaraðgerðum Ísrael í Líbanon síðustu daga og tugþúsundir neyðst til að flýja heimili sín. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er sem fyrr á vettvangi að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð og dreifa hjálpar- og sjúkragögnum auk annarra nauðsynja til fjölskyldna í neyð og á flótta.

UNICEF hefur ítrekað kallað eftir því að árásum verði hætt, dregið verði úr stigmögnun átaka og að aðilar beggja vegna virði skyldur sínar gagnvart alþjóðlegum mannúðarlögum og tryggi öryggi barna, óbreyttra borgara og nauðsynlegra innviða.

Auk þess að tryggja hundrað tonn af hjálpargögnum nú þegar hefur UNICEF komið upp 87 neyðarskýlum fyrir fólk á flótta og vinnur að því að dreifa mat, vatni og nauðsynjum til fólks. Síðan í október síðastliðnum hafa rúmlega 112 þúsund einstaklingar neyðst til að flýja heimili sín í Líbanon.

UNICEF hefur unnið að því að styðja við og vernda börn í Líbanon í 76 ár og mun hvergi hvika í því verkefni sínu núna.

Síðustu dagar hafa verið þeir verstu í 18 ár í Líbanon og UNICEF kallar eftir því að ofbeldinu linni áður en afleiðingarnar verða enn verri fyrir börn og fjölskyldur í landinu.


Fleiri
fréttir

05. desember 2025

Barnasáttmálinn orðinn hluti af menningu Réttindaskóla og -frístunda 
Lesa meira

02. desember 2025

Barnvæn sveitarfélög, betri sveitarfélög?
Lesa meira

28. nóvember 2025

Ofbeldi gegn mæðrum er líka ofbeldi gegn börnum 
Lesa meira
Fara í fréttasafn