18. nóvember 2021

Snælandsskóli og Háaleitisskóli Ásbrú hljóta viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF

Í aðdraganda Alþjóðadags barna þann 20. nóvember næstkomandi er það UNICEF á Íslandi sannur heiður að tilkynna að tveir grunnskólar, Snælandsskóli í Kópavogi og Háaleitisskóli Ásbrú í Reykjanesbæ, hafa nú í vikunni hlotið viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF.

18. nóvember 2021 Í aðdraganda Alþjóðadags barna þann 20. nóvember næstkomandi er það UNICEF á Íslandi sannur heiður að tilkynna að tveir grunnskólar, Snælandsskóli í Kópavogi og Háaleitisskóli Ásbrú í Reykjanesbæ, hafa nú í vikunni hlotið viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF. Þá hlýtur Laugalækjarskóli í Reykjavík sömuleiðis endurmatsviðurkenningu, sem veitt er Réttindaskólum sem uppfyllt hafa kröfur verkefnisins þremur árum frá því að hafa hlotið Réttindaskólaviðurkenningu.

Réttindaskólaverkefnið snýst um að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðina í allt starf og ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi. Markmiðið er að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

Hvatning til lýðræðislegra vinnubragða í skólastarfinu

Snælandsskóli er fyrsti skólinn í Kópavogi til að hljóta viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Ásamt Snælandsskóla hljóta viðurkenningu frístundaheimilið Krakkaland og félagsmiðstöðin Ígló. Innleiðingarferli þeirra hófst árið 2020 og segir skólastjórinn viðurkenninguna mikilvæga hvatningu fyrir starfið.

Magnea Einarsdóttir, skólastjóri Snælandsskóla:

„Það er stefna Snælandsskóla að skólastarf í Snælandsskóla einkennist af góðum skólabrag sem grundvallast á gagnkvæmu trausti og virðingu í öllum samskiptum. Áhersla er lögð á að hver og einn þroski hæfileika sína á eigin forsendum. Í Snælandsskóla er unnið að heilbrigðum lífsháttum í sátt við náttúru og umhverfi.“

„Snælandsskóli hefur langa hefð fyrir því að vera Grænfánaskóli, Heilsueflandi skóli og við styðjumst við Olweusar–áætlunina í forvörnum gegn einelti. Réttindaskólaverkefni UNICEF bætir við mannréttindavinkli sem tekur utan um öll hin verkefnin og stefnu skólans um góðan skólabrag og er um leið hvatning til að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð í skólastarfinu.“

Mikilvægt að öll börn þekki sinn rétt

Háaleitisskóli Ásbrú er fyrsti skólinn á Suðurnesjum til að hljóta Réttindaskólaviðurkenningu. Hófust þau handa við innleiðingu verkefnisins eftir undirritun samninga við UNICEF á Íslandi í janúar 2020. Skólastjórinn kveðst stoltur af viðurkenningunni.

Friðþjófur Helgi Karlsson, skólastjóri Háaleitisskóla Ásbrú:

„Við erum afar stolt af því að fá viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Nemendur og starfsfólk skólans hafa unnið ötullega að því að ná því markmiði síðustu misseri að ákvæði Barnasáttmálans séu samofin inn í allt daglegt skólastarf. Það ber að þakka þeim allt þeirra óeigingjarna og góða starf sem leitt hefur til þessarar viðurkenningar. Það er mikilvægt að öll börn þekki rétt sinn og séu efld til virkrar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Raddir barna eru mikilvægar fyrir framþróun hvers samfélags og mikilvægt að grundvallar mannréttindum þeirra sé mætt í öllu skólastarfi. Börnunum og samfélaginu öllu til heilla.“

Endurmat á góðu starfi

Laugalækjarskóli og félagsmiðstöðin Laugó hlutu fyrst viðurkenningu sem Réttindaskóli- og réttindafélagsmiðstöð UNICEF í maí 2018. Nú eru þau að hljóta viðurkenningu á ný eftir endurmat en til að hljóta slíka viðurkenningu þarf Réttindaskóli að hafa unnið áfram markvisst að réttindum barna í skólastarfinu, gera nýja aðgerðaáætlun, fylgja henni eftir og sýna fram á raunverulegar breytingar fyrir börn. Endurmatsviðurkenning er veitt þeim Réttindaskólum- frístund- félagsmiðstöð sem uppfyllt hafa þessar kröfur að þremur árum liðnum frá fyrri viðurkenningu.

Jón Páll Haraldsson, skólastjóri Laugalækjarskóla:

„Réttindaskólaverkefnið er leið til þess að efla börn í samfélaginu og til að efla samfélag barna. Að standast endurmat á verkefninu er viðurkenning til Laugalækjarskóla fyrir að vera á góðri leið.“

Réttindafræðsla valdeflir börn og fullorðna

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

„Við erum ótrúlega stolt og ánægð að fá að veita verðskuldaðar viðurkenningar til skóla, frístunda– og félagsmiðstöðva í Kópavogi, Reykjavík og Suðurnesjum. Að baki hverri viðurkenningu liggur mikil vinna, mikið samráð barna og starfsmanna og vilji allra til að breyta til hins betra. Fræðsla um réttindi barna valdeflir jafnt börn og fullorðna til að vera lýðræðislegri, sjálfsöruggari, opnari og meira skapandi. Í mínum huga er ekki hægt að hugsa sér betra veganesti út í lífið.“

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn