12. maí 2025

Hætta á hungursneyð meðal barna á Gaza

UNICEF og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) vara við hamfaraástandi í næringarmálum á Gaza í nýrri skýrslu – 71 þúsund börn og rúmlega 17 þúsund mæður í hættu vegna bráðavannæringar.

Barn skimað fyrir vannæringu í Al Farooq-búðunum á Gaza. Mynd: UNICEF/UNI792681/Eleyan

Íbúar á Gaza standa frammi fyrir hungursneyð þar sem árásir hafa færst í aukana, landamærahlið eru enn lokuð fyrir allri neyðaraðstoð og matur er af hættulega skornum skammti. Hungur og vannæring hafa aukist verulega síðan öll aðstoð var stöðvuð 2. mars síðastliðin og umtalsverður mannúðarárangur vopnahlésins fyrr á árinu er að engu orðinn.

Verður of seint ef bíða á eftir hungursneyð

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Samþættu flokkunarkerfi matvælaöryggis (IPC), eru 470.000 manns á Gaza að glíma við hamfaraástand af hungri (IPC stig 5), og allir íbúar búa nú við bráða matvælaóöryggi. Skýrslan spáir einnig að u.þ.b. 71.000 börn og rúmlega 17.000 mæður þurfi bráðameðferð við vannæringu. Í upphafi árs 2025 áætluðu stofnanir að 60.000 börn þyrftu slíka meðferð.

„Fjölskyldur á Gaza eru að svelta meðan maturinn sem þær þurfa er fastur við landamærin. Við getum ekki komið honum til þeirra vegna árása og algjörs banns við mannúðaraðstoð sem var sett á í byrjun mars,“ segir Cindy McCain, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). „Það er brýnt að alþjóðasamfélagið grípi tafarlaust til aðgerða svo aðstoð komist aftur til Gaza. Ef við bíðum þar til hungursneyð er staðfest, verður það of seint fyrir marga.“

Alvarlegur matarskotur

IPC-skýrslan spáir því að áframhald árása, áframhaldandi alger landlokun og skortur á nauðsynjum til lífsviðurværis gætu ýtt undir matvælaóöryggi, bráðavannæringu og dánartíðni yfir mörk hungursneyðar á næstu mánuðum.

Langflest börn á Gaza búa við alvarlegan matarskort, samkvæmt staðfestingu frá 17 stofnunum Sameinuðu þjóðanna og frjálsum félagasamtökum í IPC-skýrslunni. Í bland við mjög takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og skort á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu er gert ráð fyrir hraðri aukningu í bráðri vannæringu í Norður-Gaza–, Gaza– og Rafah–héruðunum.

„Hætta á hungursneyð kemur ekki allt í einu. Hún þróast á stöðum þar sem aðgangur að mat er hindraður, heilbrigðiskerfi eru lömuð og börn eru skilin eftir án nauðsynlegrar aðstoðar til að lifa af. Hungur og bráðavannæring eru daglegt líf barna um allt Gaza-svæði,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Við höfum ítrekað varað við þessari þróun og köllum enn á ný á alla aðila að koma í veg fyrir hörmungar.“

Tugþúsundir tonna af matvælaaðstoð bíða afhendingar

Landamærahlið inn á Gaza hafa verið lokuð í yfir tvo mánuði – lengsta tímabilið sem íbúar hafa nokkru sinni upplifað – sem hefur valdið því að matvælaverð á mörkuðum hefur rokið upp og gerir þann litla mat sem til er óaðgengilegan fyrir flestar fjölskyldur.

Á sama tíma eru meira en 116.000 tonn af matvælaaðstoð – sem duga til að fæða eina milljón manns í allt að fjóra mánuði – þegar staðsett við mannúðaraðstoðarsvæði landamæra, tilbúin til afhendingar. Hundruð bretta með lífsnauðsynlegri næringarmeðferð eru einnig í biðstöðu til afhendingar. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru tilbúnar að vinna með öllum hagsmunaaðilum og samstarfsaðilum í matvælaöryggi til að koma þessum birgðum inn og dreifa þeim um leið og landamæri opnast fyrir aðstoð sem byggist á mannúðarsjónarmiðum.

Birgðir að þrotum komnar

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og UNICEF eru áfram á vettvangi í Gaza tilbúnar að afhenda lífsnauðsynlega aðstoð í samræmi við mannúðarreglur.

WFP kláraði síðustu birgðir sínar 25. apríl til að styðja við mötuneyti fyrir fjölskyldur. Nær mánuði fyrr lokuðu öll þau 25 bakarí sem WFP styður þar sem hveiti og eldunareldsneyti var uppurið. Í sömu viku kláruðust matarbirgðir WFP fyrir fjölskyldur – með skömmtum sem duga í tvær vikur. UNICEF heldur áfram að veita vatn og bráðnauðsynlega næringarþjónustu, en birgðir til forvarna gegn vannæringu eru uppurnar og birgðir til meðferðar við bráðri vannæringu eru í algjörri lágmarki.

UNICEF og WFP skora á alla aðila að setja þarfir óbreyttra borgara í forgang og leyfa tafarlausa innkomu mannúðaraðstoðar til Gaza og standa við skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.

Fleiri
fréttir

12. maí 2025

Hætta á hungursneyð meðal barna á Gaza
Lesa meira

09. maí 2025

Ársfundur UNICEF á Íslandi
Lesa meira

07. maí 2025

Íslensk stjórnvöld nær tvöfalda stuðning við jafnréttissjóð UNICEF
Lesa meira
Fara í fréttasafn