21. ágúst 2025

Hafnarfjörður orðinn Barnvænt sveitarfélag UNICEF 

Heimabær UNICEF á Íslandi varð í dag sjötta sveitarfélagið til að hljóta viðurkenningu – Nú búa 28.484 börn á Íslandi í sveitarfélögum sem hlotið hafa viðurkenninguna Barnvænt sveitarfélag.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar ásamt bæjarstjóra, starfsfólki bæjarins og UNICEF á Íslandi fögnuðu áfanganum í dag. Mynd: UNICEF/Laufey Björk

Hafnarfjörður, heimabær landsnefndar UNICEF á Íslandi, varð í dag formlega sjötta sveitarfélagið til að fá viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Nú búa 28.484 börn á Íslandi í sveitarfélögum sem hlotið hafa viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög.  

Vegferð Hafnarfjarðar að viðurkenningunni hefur verið löng en einkennst að þrautseigju og vilja til að ná settum markmiðum þar sem heilmikill árangur hefur náðst. Vel hefur tekist að virkja starfsmenn innan sveitarfélagsins til þátttöku og verkefnið fengið mikinn meðbyr. Mikil vitundarvakning hefur orðið meðal starfsfólks um mikilvægi þess að hlusta á ungmennaráð og kalla eftir sjónarmiðum þeirra og stór skref hafa verið stigin í að festa starf ungmennaráðs bæjarins í sessi sem hluta af stjórnsýslu sveitarfélagsins.  

Fræðsla starfsfólks um réttindi barna gekk afar vel og mikil ánægja var meðal starfsfólks sem sat fræðsluna og þannig hefur þekking á réttindum barna verið efld hjá sveitarfélaginu á tímabilinu.  

Aðgerðaáætlun Hafnarfjarðar var metnaðarfull og í 19 liðum þar sem við sáum meðal annars aðgerðir á borð við: 

  • Samráð við ungmennaráð við fjárhagsáætlanir er varða málefni barna: Aðgerðin miðaði að því að gefa börnum tækifæri til þess að koma með ábendingar um þau málefni í fjárhagsáætlun bæjarins sem hafa áhrif á börn. Vel tókst til og eftir samráðið var opnunartími sundlauga t.d. lengdur um helgar í takt við ábendingu ungmennaráðs.    
  • Opni leikskólinn - Memm play: Opni leikskólinn býður börnum á leikskólaaldri,  foreldrum og forsjáraðilum þeirra fjölskylduvæna aðstöðu til þess að hitta önnur börn og foreldra. Unnið er að því að jafna aðstöðumun fjölskyldna og tryggja að allar fjölskyldur hafi tækifæri til tengslamyndunar og samveru með öðrum. Leikskólinn er gjaldfrjáls og þar er hægt að sækja fjölbreytta dagskrá á íslensku og ensku.    
  • Bætt lýsing og snjómokstur á göngustígum í skólahverfum: Eftir ákall frá ungmennaþingi og úr samtölum við sérfræðihópa barna var snjómokstur aukinn og lýsing bætt í skólahverfum.  
  • Barnahnappur: Í stöðumati sveitarfélagsins kom fram að of hátt hlutfall barna upplifði sig ekki geta leitað til neins fullorðins innan skólans þegar þeim líður illa. Þá kallaði barnaþing eftir því að hafa greiðari aðgang að námsráðgjöfum skólanna svo þeir geti gripið inn í t.d. eineltismál. Nú hefur sérstakur hnappur verið virkjaður í spjaldtölvum nemenda í 5. ─10. bekk þar sem börn og ungmenni geta lýst líðan sinni, áhyggjum eða aðstæðum og óskað eftir aðstoð frá námsráðgjafa. Hnappurinn var vel kynntur með kynningarmyndböndum og heimsóknum nemendaráðs í bekki.    
  • Barnaréttindafræðsla á Bókasafni Hafnarfjarðar: Sem hluti af aðgerðaáætlun Hafnarfjarðar vegna innleiðingar Barnasáttmálans var sérstakt svæði útbúið á bókasafni bæjarins þar sem dregnar eru fram bækur sem þykja varpa sérstaklega ljósi á réttindi barna. Vel tókst til og hefur svæðið vakið mikla athygli og áhuga íbúa.   

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar:   

„Ég er stoltur og ánægður að bærinn hafi náð þessum árangri. Ég veit sem fyrrum skólastjóri að heillavænlegast er að taka ekki ákvarðanir um börn án barnanna sjálfra. Raddir þeirra og viðhorf skipta máli. Við þurfum alltaf að hafa augun á boltanum og halda merkjum barnanna á lofti með þeim í liði.“   

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi:  

UNICEF á Íslandi er sérlega stolt af því að veita heimabæ sínum, Hafnarfirði, viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Á vegferðinni hefur bærinn sýnt seiglu, hugmyndaauðgi, metnað og vilja til að ná settum markmiðum í þágu réttinda barna. Ungmennaráð bæjarins er nú hluti af reglubundinni stjórnsýslu og þekking starfsmanna á réttindum barna hefur aukist til muna. Þetta er verðskulduð viðurkenning - en jafnframt varða en ekki áfangastaður á leiðinni að réttindum fyrir öll börn í samræmi við Barnasáttmálann.“ 

UNICEF á Íslandi óskar öllum Hafnfirðingum innilega til hamingju með áfangann. 
Hér getur þú fundið allar upplýsingar um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. 

Fleiri
fréttir

21. ágúst 2025

Hafnarfjörður orðinn Barnvænt sveitarfélag UNICEF 
Lesa meira

13. ágúst 2025

Íslandi hrósað í hástert fyrir stuðning við Jafnréttissjóð UNICEF
Lesa meira

06. ágúst 2025

Átakanlegar sögur frá Súdan: „Börn orðin lítið nema skinn og bein“
Lesa meira
Fara í fréttasafn