Rúmlega 1.180 tilfelli kóleru hafa verið tilkynnt í Tawila í Norður-Darfur héraði Súdan síðan fyrsta tilfelli farsóttarinnar kom þar upp 21. júní síðastliðinn og hafa kostað 20 manns lífið. Af þessum tilfellum hafa minnst 300 verið meðal barna. Frá þessu greinir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í dag.
Hálf milljón hefur flúið til Tawila undan átökum síðan í apríl á þessu ári. Í öllum héruðum Darfur voru tilfelli kólerusmita nærri 2.140 um síðustu mánaðamót.
Neyðin mikil í Súdan
Átökin í Norður-Darfur hafa harðnað frá apríl á þessu ári, og auk kólerunnar eru yfir 640.000 börn undir fimm ára aldri í aukinni hættu vegna ofbeldis, sjúkdóma og hungurs. Hundruð þúsunda hafa neyðst til að flýja til Tawila, sem er um 70 kílómetra frá Al Fashir höfuðborg N-Darfur, þar sem átök halda áfram. Fólk sem kemur til Tawila stendur frammi fyrir hættulegum aðstæðum, með takmörkuðu aðgengi að mat, vatni og skjóli, ásamt vaxandi sjúkdómahættu.
Í Norður-Darfur hafa sjúkrahús verið sprengd og heilsugæslustöðvum nærri átakasvæðum verið lokað. Mjög takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ásamt skorti á hreinu vatni og lélegum hreinlætisaðstæðum, eykur verulega hættuna á útbreiðslu kóleru og annarra lífshættulegra sjúkdóma – sérstaklega á svæðum þar sem svo mikill fjöldi fólks á flótta dvelur í miklu návígi.
Börnin geta ekki beðið lengur
Nýlegar kannanir sýna að fjöldi barna sem glíma við bráðavannæringu í Norður-Darfur hefur tvöfaldast á síðastliðnu ári. Samhliða farsótt kóleru skapar þetta lífshættulegar aðstæður. Vannærð börn eru líklegri til að veikjast illa og deyja af völdum smitsjúkdóma. Án tafarlauss og öruggs aðgengis að næringu, heilbrigðisþjónustu og vatni, mun hættan á dauða barna af völdum sjúkdóma sem hægt er að fyrirbyggja, aukast.
Birgðir af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum á borð við bóluefni og næringarfæði eru að þrotum komnar. Það reynist sífellt erfiðara að endurnýja þær þar sem lokað er á afhendingu mannúðaraðstoðar, þeim rænt eða ráðist á bílalestir.
„Þrátt fyrir að bæði sé hægt að koma í veg fyrir og meðhöndla kóleru þá hefur hún náð að breiðast hratt út í Tawila og víða í Darfur með tilheyrandi ógn við líf barn –sérstaklega þeirra yngstu og viðkvæmustu,“ segir Sheldon Yett, fulltrúi UNICEF í Súdan. „Við vinnum sleitulaust með samstarfsaðilum okkar á vettvangi til að gera allt sem við getum til að hægja á útbreiðslunni og bjarga mannslífum – en stöðugt ofbeldi veldur því að þörfin vex hraðar en við ráðum við. Við höfum og höldum áfram að krefjast öruggs aðgengis til að snúa þróuninni við og ná til þessara barna. Þau geta ekki beðið lengur.“
UNICEF er á staðnum fyrir íbúa Darfur
UNICEF vinnur að því að bregðast við farsóttinni á öllum vígstöðvum, með lífsbjargandi aðgerðum á sviði heilbrigðis, vatns, hreinlætis og samfélagsaðgerða. Í Tawila hefur hjálpargögnum til að fyrirbyggja ofþornun verið dreift og næstum 30.000 manns hafa nú aðgang að öruggu, hreinsuðu vatni daglega með stuðningi UNICEF – m.a. með vatnsflutningum, endurbótum á vatnsuppsprettum og uppsetningu vatnstanka. Hreinlætisvörur hafa náð til 150.000 manns í Daba Naira, og klórtöflur eru notaðar af fjölskyldum til að hreinsa vatn heima fyrir.
Til að hægja á útbreiðslu og fyrirbyggja frekari dauðsföll undirbýr UNICEF nú afhendingu á yfir 1,4 milljón skömmtum af bóluefni gegn kóleru og vinnur með samstarfsaðilum að styrkingu meðferðarmiðstöðva fyrir kóleru. Fræðsluátak, bæði í gegnum samfélagsmiðla og persónuleg samtöl, eykur vitund um forvarnir og snemmtæka meðferð. UNICEF hefur einnig samhæft stofnun neyðarmiðstöðvar vegna kóleru. Á staðnum veita tæknisérfræðingar UNICEF aðstoð við meðhöndlun tilfella, vöktun, smitvarnir og þjálfun heilsugæsluliða úr samfélaginu.
UNICEF ítrekar ákall sitt til stjórnvalda og allra annarra hlutaðeigandi aðila um að auðvelda tafarlaust, stöðugt og öruggt aðgengi að börnum í Tawila og víðar um Darfur-ríkin, til að koma í veg fyrir að fleiri líf glatist.