09. október 2025

Hver mínúta skiptir máli fyrir börn á Gaza

„Þess vegna erum við að blása til sóknar í fjáröflun fyrir börn á Gaza, því þar skiptir hver mínúta máli og hver króna líka“

Von. Fyrir öll börn á Gaza.

Hver mínúta skiptir máli fyrir börnin á Gaza sem í tvö ár hafa mátt sæta linnulausum árásum. Rúmlega 64 þúsund börn hafa verið drepin eða særð og nú breiðist hungursneyð út og næringarverkefni eru verulega vanfjármögnuð. Í Gaza-borg, þar sem hungursneyð var lýst yfir í ágúst, er nú fimmta hvert barn vannært. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er ein þeirra stofnana sem fá að fara með hjálpargögn inn á Gaza og hefur náð að veita mannúðaraðstoð við krefjandi aðstæður. Nú þegar hillir undir von um frið skiptir hver mínúta máli og því blæs UNICEF á Íslandi til sóknar í neyðarsöfnun sinni fyrir börn á Gaza.  

Sjá neyðarsöfnun fyrir börn á Gaza hér.

„Á tímum þegar hið auðvelda er að gefa upp alla von þá er hægt að treysta því að UNICEF mun hvergi hvika og aldrei gefa upp vonina um betri heim fyrir öll börn. Þessi von er leiðarstefið í allri starfsemi UNICEF í yfir 190 löndum. Að fæða þau sem svelta, hjúkra þeim særðu og veiku og tryggja réttindi allra barna til öryggis og verndar,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.  

„Í tvö ár höfum við fjáraflað fyrir börn á Gaza og við munum halda því áfram eins lengi og þarf. Því UNICEF er á vettvangi, ásamt samstarfsaðilum, að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð, eins mikla og mögulegt er við þessar hörmungaraðstæður og takmarkanir sem á aðstoðinni hvíla. En UNICEF er líka tilbúið að skala upp aðstoðina og hlaupa hratt þegar færi gefst, þegar rofar til og vonin um frið til uppbyggingar verður að veruleika. Þess vegna erum við að blása til sóknar í fjáröflun fyrir börn á Gaza, því þar skiptir hver mínúta máli og hver króna líka,“ segir Birna. 

Krónan og Straumur tvöfalda framlög  

Auk hefðbundinna fjáröflunarleiða munu fyrirtæki einnig leggja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi lið. Þannig mun Krónan bjóða viðskiptavinum sínum að styrkja söfnunina með því að bæta frjálsu framlagi við innkaup sín á kassa. Krónan mun svo jafna hvert einasta framlag sem berst.  

Straumur, í samstarfi við alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Adyen, mun svo bjóða söluaðilum upp á nýja lausn í posum sínum sem gerir viðskiptavinum viðkomandi verslana kleift að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi beint og renna framlögin óskipt í neyðarsöfnunina. Til að tvöfalda áhrifin ætla Straumur og Adyen svo að jafna hvert framlag sem berst í gegnum posana. Þegar hefur ríflega tugur fyrirtækja skráð sig til þátttöku í framtakinu. 

Við vonum því að almenningur taki vel á móti neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza í verslunum Krónunnar og verslunum viðskiptavina Straums frá 9. – 19. október. 

Börn á Gaza þurfa á stuðningi þínum að halda.  

Hver mínúta skiptir máli, hver króna gerir gagn. 

----------- 

Til að styrkja neyðarsöfnunina getur þú: 

Hringt í 907-3014 til að gefa 3.000 krónur. 

Greitt með greiðslukorti hér á unicef.is 

Lagt frjálst framlag inn á reikning: 701-26-102015   Kennitala: 481203-2950 

Styrkt í gegnum AUR-appið í númerið: 123 789 6262 eða @unicef. 

Fleiri
fréttir

09. október 2025

Hver mínúta skiptir máli fyrir börn á Gaza
Lesa meira

09. október 2025

Krónan styrkir söfnun UNICEF fyrir börn á Gaza 
Lesa meira

08. október 2025

Tvö ár af helvíti á Gaza: 64 þúsund börn látin og særð
Lesa meira
Fara í fréttasafn