24. júní 2022

SFS styrkir hjálparstarf UNICEF, UN Women og Caritas í Úkraínu

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og fyrirtæki innan þeirra vébanda hafa ákveðið að styrkja þrenn hjálpar og mannúðarsamtök í Úkraínu um 130 milljónir króna. Upphaflega var tilkynnt um gjöfina á ársfundi samtakanna 6. maí en þá lá ekki fyrir hvaða hjálparsamtök yrðu fyrir valinu. Vart þarf að fara mörgum orðum um hið hörmulega ástand sem nú ríkir í Úkraínu en það er von fyrirtækjanna að gjöfin megi, þótt í litlu sé, koma að gagni. Ekki síst konum og börnum.

Samtökin sem styrkinn hljóta:

Caritas eru hjálparsamtök í Úkraínu. Styrkur til þeirra mun einkum fara til útibús samtakanna í borginni Ternopil sem er skammt frá borginni Lviv í vesturhluta landsins. Styrkurinn mun koma í góðar þarfir á þessum slóðum því þúsundir Úkraínumanna hafa flúið hörmungar í austurhluta landsins og leitað til borganna tveggja. Þar er mikill skortur á ýmsum nauðsynjum eins og mat, klæði og húsnæði.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sinnir börnum og fjölskyldum þeirra innan og utan Úkraínu, en talið er að allt að 60-70% barna í Úkraínu hafi flúið heimili sín. UNICEF hefur opnað barnvænar hjálparstöðvar við landamæri Úkraínu þar sem fólk á flótta getur fengið mat, rými til að hvíla sig, sálræna aðstoð og nauðsynlegar upplýsingar. Þar er flóttafólk skráð og fjölskyldur sameinaðar. Samtökin sinna einnig fylgdarlausum börnum en talið er að um 4% barna á flótta tilheyri þeim hópi. Þá senda samtökin nauðsynjar til fæðingarheimila í Úkraínu sem starfa við ömurlegar aðstæður.

UN Women sinna neyðaraðstoð og sérstökum þörfum kvenna og jaðarsettra hópa. Eitt verkefna samtakanna snýr að því að styðja konur sem hafa verið beittar kynferðisofbeldi í stríðinu. Samtökin veita konunum athvarf, sálrænan stuðning og lögfræðiaðstoð. Mikilvægt er að koma konum og stúlkum til aðstoðar eins fljótt og hægt er og koma málum þeirra í þann farveg að hægt sé að sækja stríðsglæpamenn til saka.

--- 

UNICEF á Íslandi eru SFS og fyrirtækjum þess innilega þakklát fyrir þessa veglegu og mikilvægu gjöf til stuðnings hjálparstarfi vegna stríðsins í Úkraínu. Öll félögin starfa á vettvangi stríðsins og ljóst að styrkurinn mun koma að góðum notum í því mikilvæga og umfangsmikla hjálparstarfi sem þau öll vinna þar.

 

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn