01. febrúar 2024

Skylda alþjóðasamfélagsins að sitja ekki hjá meðan börn á Haítí þjást

170 þúsund börn á vergangi vegna stigvaxandi átaka á Haítí – UNICEF vinnur að neyðaraðstoð og lífsnauðsynlegri þjónustu fyrir íbúa

Hundruð skóla hefur þurft að loka tímabundið og börn svipt réttindum sínum til náms. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greinir frá því í dag að rúmlega 170 þúsund börn séu nú á vergangi vegna stigvaxandi átaka á Haítí. Bara síðustu tvær vikur hafa nærri 2.500 íbúar, meirihlutinn konur og börn, neyðst til að flýja heimili sín í höfuðborginni Port-au-Prince.

UNICEF heldur eftir sem áður áfram að bregðast við þeim áskorunum sem skelfingarástandið á Haítí leggur á íbúa þess og sérstaklega börn. Í samstarfi við samstarfsaðila starfar UNICEF að því að veit þverfaglega neyðaraðstoð á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti. Meðal annars að vinna með börnum sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar eða upplifað ofbeldi. UNICEF útvegar og dreifir lífsbjargandi neyðaraðstoð, tryggir aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sálfélagslegum stuðningi og setur upp örugg barnvæn svæði þar sem börn fá tækifæri til að vera börn og jafna sig á áföllum síðustu missera.

Tvöfalt fleiri á vergangi en í fyrra 

UNICEF bendir á tvöfalt fleiri íbúar Haítí séu nú á vergangi en á síðasta ári og nýjustu tölur fyrir janúar 2024 sýna að nærri 314 þúsund einstaklingar hafi neyðst til að flýja heimili sín, víðs vegar um landið. Flest þó í Port-au-Prince.    

„Á Haítí eru börn og fjölskyldur að upplifa stanslausar ofbeldisbylgjur og nýjan hrylling á nær hverjum degi. Þau missa ástvini, heimili og óttinn vofir yfir öllu,“ segir Bruna Maes, fulltrúi UNICEF á Haítí. Samkvæmt rannsóknum UNICEF eru réttindi barna því miður fótum troðin. Þurft hefur að loka hundruð skóla tímabundið og aðgengi að grunnþjónustu takmarkað vegna ástandsins og þeir innviðir, sem brothættir voru fyrir, flestir yfir þolmörkum.

Veitum börnum þá von sem þau eiga rétt á

„Alþjóðasamfélaginu ber skylda til að færa börnum á Haítí von á ný og tryggja þeim bjarta og örugga framtíð. Við megum ekki sitja hjá meðan þjáningar skyggja á von þeirra,“ segir Maes.

UNICEF áætlar að á árinu 2024 þurfi þrjár milljónir barna á Haítí á mannúðaraðstoð að halda vegna átaka, vannæringar, kólerusmita sem komið hafa upp að nýju og hruni grunnþjónustu í ríkinu.

En UNICEF er á vettvangi og með því að vera Heimsforeldri UNICEF stuðlar þú að því að Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna geti veitt börnum þann stuðning og þjónustu sem þau eiga rétt á, ekki aðeins á Haítí heldur um allan heim. Með því að gerast Heimsforeldri leggur þú þitt af mörkum til að færa börnum á Haítí og um allan heim von á ný um bjarta framtíð.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn