02. júní 2022

Hundrað dagar af stríði: Sögur barna

Stríðið í Úkraínu hefur splundrað lífi milljóna barna. UNICEF er á vettvangi til að veita þeim þá aðstoð sem þau þurfa. Við þurfum þinn stuðning.

Alina, Kharkiv
Stúlkan á myndinni hér fyrir ofan heitir Alina. Hún er 9 ára gömul frá borginni Kharkiv. Hún heldur til í þessum bílakjallara ásamt foreldrum sínum og nokkrum öðrum fjölskyldum þar sem þau leita skjóls fyrir árásunum fyrir ofan. 

„Ég á sorglega daga og aðeins minna sorglega daga. Það eru engir gleðilegir dagar lengur,“ segir Alina. Hún og jafnaldri hennar Artem hafa reynt að halda í leifar af eðlilegu lífi í dimmum og köldum bílakjallaranum og stunda fjarnám við ömurlegar aðstæður.  

Yaroslav í Kharkiv 

Í Kharkiv, í norðaustur Úkraínu, stendur hinn 14 ára Yaroslav fyrir framan það sem eftir er af skólanum sínum en hann var eyðilagður í skotárás. „Skólinn okkar var brenndur,“ segir hann. Frá því að stríðið hófst í febrúar hafa hundruðir skóla víðsvegar um landið orðið fyrir barðinu á stórskotaliðum, loftárásum og öðrum sprengivopnum, á meðan aðrir eru notaðir sem upplýsingamiðstöðvar, skýli og birgðastöðvar. Að minnsta kosti einn af hverjum sex skólum sem UNICEF styður í austurhluta Úkraínu hefur verið skemmdur eða eyðilagður síðan stríðið hófst, þar á meðal skóli 36 - eini „öruggi skólinn“ í Mariupol – sem undirstrikar hin stórkostlegu áhrif sem átökin hafa á líf og framtíð barna.

Sofiya og Liza í Búkarest  

Sofiya og Liza flúðu stríðið ásamt kennurum sínum og komu til Búkarest til að finna öruggari stað til að búa á. Fjölskyldur þeirra eru enn í Odessa og þær bíða eftir að komast aftur til foreldra sinna um leið og óhætt verður að snúa heim. Nú ganga þær í skóla í Búkarest, þar sem úkraínskir kennarar hafa skipulagt námskeið og skólatíma fyrir börn á flótta frá Úkraínu.

Sofiya og Liza fengu bakpoka með skólagögnum frá UNICEF en í honum er að finna stílabækur, skriffæri og fleira sem mun hjálpa þeim að halda áfram með menntun sína. Sum börn sem hafa flúið frá Úkraínu geta enn nálgast úkraínska menntun sína á netinu. Fyrir önnur verður að gera sameiginlegt átak, þar á meðal af þeim löndum sem hýsa flóttamenn, til að tryggja að menntun þeirra geti haldið áfram. Auk þess að fá tækifæri til að halda áfram að læra veitir aðgangur að menntun börnum einnig ákveðinn stöðugleika og vernd á óvissutímum. UNICEF heldur áfram að auka viðbrögð sín innan Úkraínu og í löndunum sem hýsa flóttafólk.   

Maxim, Rúmenía 

Maxim, 4 ára, kom ásamt móður sinni Önnu frá borginni Kherson í Úkraínu að rúmensku landamærunum í Isaccea. Á myndinni má sjá Maxim leika sér í tjaldi á barnvænu svæði (Blue dots) fyrir mæður og börn þeirra í Isaccea á meðan þau bíða eftir rútu á næsta áfangastað . Anna, móðir hans, hvílir sig á meðan eftir langt ferðalag að landamærunum.   

UNICEF hefur sett upp 25 barnvæn svæði (Blue dots) á flóttaleiðinni frá Úkraínu og til nágrannaríkjanna, meðal annars Rúmeníu, Póllandi, Ítalíu, Búlgaríu, Moldóva og Slóvakíu. Þar fá börn og fjölskyldur þeirra aðstoð, nauðsynlega þjónustu og ráðgjöf. 

Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til að tryggja áframhald á þessu mikilvæga starfi UNICEF vegna stríðsins í Úkraínu þá er hægt að styðja neyðarsöfnunina HÉR:  

Sendu SMS-ið UNICEF í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 kr. 
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102060 kt. 481203-2950. 
Þá tökum við sömuleiðis við AUR greiðslum í númerið 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn