22. ágúst 2025

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna staðfesta hungursneyð á Gaza í fyrsta sinn

FAO, UNICEF, WFP og WHO ítreka kröfur sínar um tafarlaust vopnahlé og óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar til að stöðva dauðsföll af völdum hungurs og vannæringar

Meira en hálf milljón íbúa Gaza eru nú föst í hungursneyð, sem einkennist af útbreiddu hungri, örbirgð og dauðsföllum sem hefði mátt koma í veg fyrir, samkvæmt nýrri greiningu frá Integrated Food Security Phase Classification (IPC) sem birt var í dag. Gert er ráð fyrir að hungursneyð breiðist á næstu vikum út frá Gaza-borg til Deir Al Balah og Khan Younis.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Matvælaáætlun SÞ (WFP) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafa í sameiningu og ítrekað varað við því að aðgerðir séu bráðnauðsynlegar vegna sívaxandi dauðsfalla tengdum hungri, versnandi vannæringu og hríðfallandi fæðuöryggi. Hundruð þúsunda manna fara heilu dagana án þess að fá nokkuð að borða.

Stofnanirnar leggja ríka áherslu á að hungursneyð verði stöðvuð með öllum tiltækum ráðum. Tafarlaust vopnahlé og stöðvun árása eru lífsnauðsynleg til að tryggja óhindrað, umfangsmikið mannúðarviðbragð sem getur bjargað mannslífum. Þær lýsa einnig miklum áhyggjum af yfirvofandi hernaðarátökum í Gaza-borg og frekari stigvaxandi átökum, þar sem slíkt myndi hafa enn meiri áhrif á borgara á svæðum þar sem hungursneyð er þegar staðreynd. Margir einstaklingar – einkum veik börn, vannærð börn, aldraðir og fatlað fólk – geta ekki flúið.

Mat á fæðuóöryggi

Í lok september munu meira en 640.000 manns standa frammi fyrir hamfaraskorti á matvælum – skilgreint sem IPC stig 5, sem er hæsta stigið í flokkuninni – á öllu Gaza-svæðinu. Auk þess verða 1,14 milljónir í neyðarástandi (IPC stig 4) og 396.000 manns í krísu (IPC stig 3). Talið er að aðstæður í Norður-Gaza séu jafn alvarlegar – eða verri – en í Gaza-borg, en takmörkuð gögn hafa komið í veg fyrir formlega IPC-flokkun þar. Rafah var ekki metið, þar sem það virðist að mestu hafa verið yfirgefið.

Að skilgreina hungursneyð felur í sér að þrjú mikilvæg viðmið séu uppfyllt:

  1. Mjög alvarlegur matarskortur
  2. Bráð vannæring
  3. Dauðsföll af völdum hungurs

Nýjasta greiningin staðfestir, byggt á traustum gögnum, að þessi viðmið hafi nú verið uppfyllt. Hungursneyð er staðreynd.

Ástæður og afleiðingar

Tæplega tveggja ára átök, endurtekinn flótti og alvarlegar takmarkanir á aðgengi mannúðaraðstoðar – ásamt síendurteknum truflunum á aðgengi að mat, vatni, læknisaðstoð, stuðningi við landbúnað, búfjárhald og fiskveiðar – og hrun heilbrigðis-, hreinlætis- og markaðskerfa hafa gert það að verkum að íbúar svelta nú.

Aðgangur að mat í Gaza er enn mjög takmarkaður. Í júlí tvöfaldaðist fjöldi heimila sem sögðust glíma við mjög alvarlegt hungur miðað við maí, og þrefaldaðist í Gaza-borg. Meira en þriðjungur fólks (39 %) sagðist búa við marga daga í senn án þess að borða, og fullorðnir sleppa reglulega máltíðum til að fæða börn sín.

Vannæring barna og kvenna

Vannæring meðal barna í Gaza eykst með skelfilegum hraða. Bara í júlí síðastliðnum voru meira en 12.000 börn greind með bráðavannæringu – er það hæsti fjöldi sem nokkru sinni hefur verið skráður á einum mánuði og sexföld aukning frá áramótum. Næstum fjórðungur þeirra var með alvarlega bráðavannæringu (SAM), sem er hættulegasta form vannæringar með bæði skammtíma- og langtímaáhrifum.

Frá síðustu IPC-greiningu í maí hefur fjöldi barna, sem búist er við að verði í alvarlegri lífshættu vegna vannæringar fyrir lok júní 2026, þrefaldast – úr 14.100 í 43.400. Sama á við um þungaðar og konur með börn á brjósti: úr 17.000 í maí í 55.000 konur sem búist er við að verði í lífshættulegri vannæringu um mitt ár 2026. Afleiðingarnar sjást skýrt: eitt af hverjum fimm börnum fæðist fyrir tímann eða vannært.

Þessi nýja matsskýrsla sýnir mesta hnignun sem mælst hefur í Gaza-svæðinu frá því að IPC hóf mat á fæðuóöryggi og vannæringu þar – og í fyrsta sinn sem hungursneyð er opinberlega staðfest í Mið-Austurlöndum.

Aðstoð og hindranir

Frá júlí hefur aðstoð og matvælainnflutningur til Gaza aukist lítillega en er enn langt frá því að mæta þörfum.

Um 98 % af ræktanlegu landi á svæðinu er annaðhvort ónýtt eða óaðgengilegt sem aftur hefur gengið frá landbúnaði og staðbundinni matvælaframleiðslu. Níu af hverjum tíu hafa verið hraktir ítrekað frá heimilum sínum. Reiðufé er nánast ekki til staðar og aðgerðir hjálparsamtaka mæta verulegum truflunum, þar sem meirihluti flutningabíla SÞ hefur verið rændur vegna örvæntingar. Matvælaverð er himinhátt og skortur er á eldsneyti, vatni, lyfjum og sjúkragögnum.

Heilbrigðiskerfi Gaza er í rúst. Aðgangur að hreinu drykkjarvatni og hreinlætisþjónustu hefur hrunið. Fjölónæmar sýkingar eru í mikilli aukningu og sjúkdómar eins og niðurgangur, hiti, öndunarfærasýkingar og húðsjúkdómar eru á hættulega háu stigi meðal barna.

Kröfur stofnana Sameinuðu þjóðanna

Til að gera lífsnauðsynlegar mannúðaraðgerðir mögulegar leggja stofnanir SÞ áherslu á að:

  • Tafarlaust og varanlegt vopnahlé verði í gildi til að stöðva dráp, tryggja örugga lausn gísla og opna fyrir óhindraðan aðgang að víðtækri hjálp.
  • Nauðsynlegt er að auka matvælaaðstoð, bæta dreifingu og aðgengi að henni verulega, sem og að veita skjól, eldsneyti, gas til eldamennsku og stuðning við matvælaframleiðslu.
  • Mikilvægt er að styðja við endurreisn heilbrigðiskerfisins, viðhalda og endurreisa grunnheilbrigðisþjónustu og tryggja að heilbrigðisgögn og búnaður berist inn og dreifist innan Gaza.
  • Endurreisn viðskiptaflæðis, markaðskerfa, grunnþjónustu og staðbundinnar framleiðslu er lífsnauðsynleg til að koma í veg fyrir enn verri afleiðingar hungursneyðarinnar.

Tilvitnanir forstjóra og framkvæmdastjóra stofnana Sameinuðu þjóðanna

„Fólk í Gaza hefur tæmt allar mögulegar bjargir til að lifa af. Hungur og vannæring taka líf á hverjum degi, og eyðilegging ræktunarlands, búfjár, gróðurhúsa, fiskveiða og matvælaframleiðslukerfa gerir ástandið enn verri,“ segir QU Dongyu, aðalframkvæmdastjóri FAO, í sameiginlegri tilkynningu stofnananna. „Forgangur okkar núna er öruggur og stöðugur aðgangur fyrir stórfellda mataraðstoð. Aðgangur að mat er ekki forréttindi – það er grundvallarmannréttindi.“

„Viðvörunarbjöllur um hungursneyð hafa hringt í marga mánuði,“ segir Cindy McCain, framkvæmdastjóri WFP. „Það sem þarf núna er gríðarlegt innstreymi aðstoðar, öruggari aðstæður og sannað dreifikerfi til að ná til þeirra sem mest þurfa á að halda – hvar sem þeir eru. Fullur aðgangur og vopnahlé núna eru lífsnauðsynleg til að bjarga mannslífum.“

„Hungursneyð er nú hörmuleg staðreynd fyrir börn í Gaza-héraði og yfirvofandi ógn í Deir al-Balah og Khan Younis,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Eins og við höfum ítrekað varað við, voru merkin augljós: börn að veslast upp, of veik til að gráta eða borða; ungbörn sem deyja úr hungri og sjúkdómum; foreldrar sem koma á heilsugæslur með ekkert eftir til að fæða börnin sín. Tíminn er að renna út. Án tafarlauss vopnahlés og fulls aðgangs fyrir mannúðaraðstoð mun hungursneyð breiðast út og fleiri börn deyja. Börn á barmi hungurs þurfa sérhæfða næringarmeðferð sem UNICEF veitir.“

„Vopnahlé er siðferðileg nauðsyn núna,“ segir Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalframkvæmdastjóri WHO. „Heimurinn hefur beðið of lengi, á meðan dauðsföll af mannavöldum hlaðast upp vegna hungursneyðar. Útbreidd vannæring þýðir að jafnvel algengir og yfirleitt vægir sjúkdómar eins og niðurgangur verða banvænir, sérstaklega fyrir börn. Heilbrigðiskerfið, sem er rekið af svöngum og örmagna heilbrigðisstarfsmönnum, ræður ekki við ástandið. Gaza verður tafarlaust að fá mat og lyf til að bjarga mannslífum og hefja viðsnúning vannæringar. Sjúkrahús verða að fá vernd svo þau geti haldið áfram að meðhöndla sjúklinga. Hindranir á aðstoð verða að hverfa og friður verður að ríkja svo lækning geti hafist.“

Fleiri
fréttir

22. ágúst 2025

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna staðfesta hungursneyð á Gaza í fyrsta sinn
Lesa meira

21. ágúst 2025

Hafnarfjörður orðinn Barnvænt sveitarfélag UNICEF 
Lesa meira

13. ágúst 2025

Íslandi hrósað í hástert fyrir stuðning við Jafnréttissjóð UNICEF
Lesa meira
Fara í fréttasafn