10. október 2025

Straumur nýtir nýja posatækni til að styðja neyðarsöfnun fyrir börn á Gaza

Söluaðilum býðst að setja sérstaka styrktarmöguleika í posa fyrir viðskiptavini –Straumur og Adyen munu svo jafna öll framlög í neyðarsöfnunina

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Straums og Sveinbjörg Pétursdóttir, leiðtogi viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Straumi, með glæsilegan góðgerðarposa frá Straumi.

Straumur, í samstarfi við alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Adyen og UNICEF á Íslandi, býður nú söluaðilum að taka þátt í átaki til stuðnings börnum á Gaza. Átakið stendur frá 9. til 19. október undir yfirskriftinni Hver mínúta skiptir máli.

Með nýrri lausn í posum Straums geta viðskiptavinir lagt beint framlag til UNICEF á Íslandi við greiðslu. Lausnin byggir á „Adyen Giving“ og gerir söluaðilum kleift að bjóða upp á styrktarmöguleika án þess að það hafi áhrif á afstemmingar eða uppgjör fyrirtækjanna.

Við hverja greiðslu birtist styrktarskjár þar sem viðskiptavinir geta valið að styrkja UNICEF á Íslandi með 500, 1.000 eða 1.500 króna framlagi. Engin gjöld eru tekin af, og renna framlögin óskipt til UNICEF á Íslandi til hjálpar börnunum á Gaza.

Til að tvöfalda áhrifin leggja Straumur og Adyen jafnhátt mótframlag á móti öllum framlögum sem safnast í gegnum posana.

„Með þessari lausn nýtum við tæknina til góðs og gefum íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að taka þátt í lífsnauðsynlegu hjálparstarfi án aukins álags í rekstri,“ segir Sveinbjörg Pétursdóttir, leiðtogi viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Straumi „Við erum stolt af samstarfinu við Adyen og UNICEF á Íslandi og viljum hvetja sem flesta söluaðila til þátttöku.“

Alvarlegt ástand barna á Gaza

Nú hillir undir von um frið eftir tvö ár af hörmungum fyrir börn á Gaza. Í skugga hungursneyðar, vannæringar, sjúkdóma og eyðileggingar hefur UNICEF unnið að því dag og nótt að veita börnum nauðsynlega mannúðaraðstoð. Það sem hefur verið hægt að veita er of lítið en UNICEF er tilbúið að skala upp aðstoð og viðbragð og þar skiptir hver mínúta máli fyrir börn á Gaza. Stuðningur frá fyrirtækjum og almenningi skiptir sköpum svo hægt sé að bregðast hratt við þegar færi gefst.

„Fyrir börnin á Gaza sem hafa mátt þola svo mikið skiptir hver mínúta máli. Og til að geta haldið áfram að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð og vera tilbúin að stækka skalann hratt þegar færi gefst á ný þarf fjárhagslegan stuðning. Þar skiptir hver króna máli,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.  „UNICEF er í þeirri stöðu að geta skipt sköpum í lífi barna á Gaza sem búa við þessa hörmulegu neyð. Því erum við þakklát Straumi, Adyen og öllum söluaðilum sem taka þátt fyrir stuðninginn og vitum að þessu framtaki verður vel tekið af öllum.“ 

Styrktu neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza hér.

Fleiri
fréttir

11. október 2025

UNICEF fagnar vopnahléi á Gaza
Lesa meira

10. október 2025

Straumur nýtir nýja posatækni til að styðja neyðarsöfnun fyrir börn á Gaza
Lesa meira

09. október 2025

Hver mínúta skiptir máli fyrir börn á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn